Thursday, February 13, 2014

Bill Russell áttræður


Goðsögnin Bill Russell er hvorki meira né minna en áttræður í dag (reyndar 12. febrúar, en það er víst aldrei þessu vant komið fram yfir miðnætti þegar þetta er skrifað). Eins og flest ykkar vita, er Russell eini leikmaðurinn í sögu NBA sem er ekki með nógu marga fingur til að koma meistarahringunum sínum fyrir. Aðeins Phil Jackson er á svipuðu plani hvað varðar þessa sérstöku skartgripasöfnun.

Russell varð ellefu sinnum meistari með Boston Celtics sem leikmaður og síðar spilandi þjálfari, þar af tók hann átta titla í röð frá 1959 til 1966. Fimm sinnum var hann kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og fjórum sinnum varð hann frákastakóngur svo eitthvað sé nefnt.

Það er mynd af Bill Russell fyrir aftan orðið "sigurvegari" í öllum betri orðabókum eins og þú sérð hérna fyrir ofan. Enda heita verðlaunin sem veitt eru besta* leikmanni lokaúrslitanna í NBA eftir honum. Heppilegra nafn er ekki hægt að finna á gripinn, nema kannski ef hann héti Guðmundur.

Kannski er það til marks um það hvað við erum öll að verða gömul að við skulum alltaf vera að velta okkur upp úr svona afmælum - ekki síst svona háaldraðra manna.

Kallaðu þetta fortíðarblæti ef þú vilt, en við verðum öll að læra að meta og virða söguna. Virða menn eins og Russell.

Það á ekki eftir að koma fram maður sem vinnur ellefu meistaratitla í NBA deildinni fyrr en í fyrsta lagi eftir að þú ert dauð(ur).

Fáir menn hafa skrifað nafn sitt eins oft í söguannála deildarinnar okkar en Bill Russell.

Til hamingju, gamli. Lifðu vel og lengi.

* - Verðmætasta

P.s. - Bill Russell vann eitthvað á meðan þú varst að lesa þessa stuttu hugleiðingu. Sennilega ekki körfuboltaleik, en þá kannski kotru eða kasínu. Nema hann spili Tveir Ká Fjórtán, sem er ólíklegt.