Tuesday, February 11, 2014

Bull og vitleysa?


Þeir sem fylgjast með á NBA Ísland vita vel að okkur gæti ekki verið meira sama um hvað er að gerast í háskólaboltanum. 

Okkur finnst háskólaboltinn lélegur og hundleiðinlegur og okkur er því miður drullu sama hvað leikmenn eru að gera þar - þeir hafa nægan tíma til að sanna sig þegar og ef þeir komast í NBA deildina.

Eins og þið vitið flest, hefur því verið spáð lengi að nýliðaárgangurinn í sumar verði sá sterkasti í mörg ár - mögulega síðan 2003 árgangurinn þeirra LeBron James og félaga. 

Þessar spár vöktu smá forvitni hjá okkur, enda var okkur farið að lengja mjög eftir almennilegum nýliðaárgangi. Á síðasta ári eða svo, náði svo skrumið í kring um 2014 árganginn hámarki. 

Svo bjartsýnir voru menn með þessa ungu leikmenn, að meira að segja við létum blekkjast og fórum meira að segja að gæla við það að horfa á leik í háskólaboltanum.

Núna er hinsvegar komið allt annað hljóð í strokkinn og menn sem hafa atvinnu af því að fylgjast með háskólaboltanum eru allt í einu farnir að draga í land með alla þessa snillinga sem þeir voru að lofa okkur í sumar.

Við skömmumst okkar hrikalega fyrir að hafa látið skrumið hafa áhrif á okkur. Nú ætlum við ekki að segja að nýliðavalið næsta sumar verði drasl, en ef marka má fregnir að vestan, verður það aldrei þessi gullnáma sem búið var að spá. 

Menn voru búnir að lýsa því yfir að liðin sem ættu fyrstu 7-8 valréttina myndu jafnvel öll ná sér í fínasta NBA leikmann og að 2-3 þeirra yrðu jafnvel stórstjörnur í framtíðinni.

Einmitt.

Auðvitað vonum við að þetta standist allt og að 2014 árgangurinn verði í alla staði stórkostlegur, en mikið óskaplega óttumst við að allt þetta tal um framtíðarstjörnurnar í nýliðavalinu í sumar reynist argasta kjaftæði. Einst og staðan er núna, er það líklegra en hitt.

Hvað sem kemur út úr þessu, verður þetta vonandi í síðasta skipti sem við látum plata okkur út í að verða spennt yfir hóp krakka í háskólaboltanum. Það er bara ekki fyrirhafnarinnar virði.