Sunday, June 16, 2013

Nokkur orð frá ritstjórninni



NBA Ísland hefur verið til í núverandi mynd í meira en þrjú og hálft ár. Það er skrítið, þar sem okkur finnst ekki vera nema nokkrir mánuðir síðan ýtt var úr vör.

Skondið að minnast þess að það fyrsta sem tekið var til umfjöllunar á síðunni var brottrekstur Lawrence Frank frá New Jersey Nets haustið 2009, en liðið hafði þá tapað fyrstu sextán leikjum sínum á leiktíðinni.

Byrjun Frank hjá félaginu var spegilmynd þeirrar ógæfu, því þá vann liðið fyrstu þrettán leikina sína þegar hann var að stíga sín fyrstu skref sem aðalþjálfari fyrir sléttum níu árum.

Og hver var nú aðalmaður Frank inni á vellinum þegar hann tók við liðinu á sínum tíma?  Jú, Jason Kidd, sem nú er að reyna að fá Frank til að aðstoða sig eftir að hann landaði óvænt aðalþjálfarastöðunni hjá Nets á dögunum - korteri eftir að hafa lagt skóna á hilluna.

Annars var pælingin með þessum pistli ekki að fara yfir afreksverk Lawrence Frank. Okkur langaði bara að staldra aðeins við og höfða til samvisku lesenda.

Við vorum nefnilega að setja upp Paypal-fídus á síðuna sem þýðir að nú geta þeir sem eru aflögufærir lagt okkur lið með beinum hætti (ef apparatið virkar, það er að segja).

Ef þig langar að hjálpa til við rekstur síðunnar eða bara þakka okkur fyrir að sjá þér fyrir lestrarefni á köldum vetrarnóttum í gegn um árin, máttu endilega taka þátt í þessu. Ekki veitir af. Hnappinn finnurðu til hægri á síðunni, hann er gulur og á honum stendur "Þitt framlag."

Ef þið lendið í vandræðum með þetta getið þið haft samband á nbaisland@gmail.com og bölvað hressilega, en hljótum að fá þetta apparat til að virka.

NBA Ísland er einn af þessum fáum ósviknu hlutum í lífinu sem eru ókeypis og verður það vonandi áfram, en allir þurfa jú að fæða og klæða börnin sín eins og Latrell Sprewell sagði forðum.

Þið takið vonandi ekki illa í þetta, vefurinn breytist ekkert efnislega.

Nú er veturinn liðinn og leiktíðinni senn að ljúka. Það er ekki ólíklegt að einhverjar útlitsbreytingar verði á vefnum næsta haust en það er allt í athugun núna.

Ljóst er að samningar verða líklega gerðir við nýja stuðningsaðila - bæði fyrir síðuna sjálfa og Hlaðvarpið. Þeim sem hafa áhuga á að skoða það er bent á að hafa samband á nbaisland@gmail.com.

NBA Ísland er hægt og bítandi að ná til fleiri lesenda um allt land og er að verða fast stopp í vefrúnt þeirra sem fylgjast með körfubolta hér heima og erlendis. Við vonum að síðan eigi eftir að halda áfram að vaxa og dafna á næstu árum og hver veit nema hún fái andlitslyftingu í haust.

Að lokum viljum við endilega hvetja fólk til að láta í sér heyra með því að senda okkur póst ef það hefur eitthvað við síðuna að athuga  - jákvætt eða neikvætt - við tökum allar ábendingar (og sérstaklega hrós) alvarlega.

Það er gaman að skrifa fyrir fólk eins og ykkur.

Að lokum eru hér nokkrir punktar sem flestir hafa vonandi á hreinu:

Hérna finnurðu NBA Ísland á Facebook
Hérna finnurðu NBA Ísland á Twitter
Hérna finnurðu upplýsingar um NBA Ísland
Hérna finnurðu upplýsingar um hvaða leikir eru í beinni, hvar og hvenær.
Hérna finnurðu hið gríðarlega vinsæla Hlaðvarp NBA Ísland

Til að hafa samband við NBA Ísland sendirðu svo (enn og aftur) póst á nbaisland@gmail.com - og hikaðu ekki við það - við eigum augljóslega ekki marga vini.

Takk kærlega fyrir okkur, elskurnar.

Ritstjórn NBA Ísland