Saturday, April 13, 2013
Kobe Bryant úr leik
Allt í einu skiptir kapphlaupið um 8. sætið óskaplega litlu máli fyrir Los Angeles Lakers.
Kobe Bryant meiddist undir lokin í leik Lakers og Warriors í nótt sem leið og óttast er að hann sé með slitna hásin.
Þetta eru erfið meiðsli fyrir hvaða körfuboltamann sem er, ekki síst 34 ára gamlan mann sem spilað hefur óguðlegan mínútufjölda á löngum ferli.
Við skulum orða þetta þannig að ef um einhvern annan en Kobe Bryant væri að ræða, myndum við líklega segja að tíma hans á toppnum væri lokið.
Bryant var skiljanlega í molum í viðtali eftir leikinn. Elskaðu hann eða hataðu, það er ekki hægt annað en að finna til með þessum mikla stríðsmanni.
Við látum það liggja milli hluta hvort Lakers kemst í úrslitakeppnina eða ekki. Það skiptir bara ekki rosalega miklu máli úr þessu. Líklega verða forráða- og stuðningsmenn Lakers þeirri stundu fegnastir þegar þetta bölvaða tímabil verður flautað af. Það er með ólíkindum hvað ólukkan hefur elt þetta lið í vetur.
Við erum búin að fá gjörsamlega upp í kok af öllum þessum meiðslum á stjörnunum í NBA og líka hér heima á klakanum. Meiðsli eru versti óvinur skemmtilegasta leiks jarðar, en við verðum að halda ótrauð áfram engu að síður.
Þið getið hengt ykkur upp á að Kobe Bryant gerir það.
Viðbót: Hér fyrir neðan er hugleiðing sem Bryant skrifaði inn á Facebook eftir áfallið í gær.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Meiðsli