Saturday, April 13, 2013
Stjarnan og Grindavík leika til úrslita
Það verða tvö bestu körfuboltalið landsins sem mætast í úrslitaeinvígi úrvalsdeildarinnar, allir ættu að vera sammála um það. Stjarnan tryggði sér í kvöld stefnumót við Grindavík í lokaúrslitum með því að vinna Snæfell þriðja sinni og loka einvíginu í fjórum leikjum.
Það er rétt sem Ingi Þór þjálfari Snæfells benti á í einhverju viðtalinu í kvöld, meiðsli hafa sannarlega sett svip á úrslitakeppnina í vor. Þannig voru silfurdrengirnir í Þór ekki með fullskipað lið, Keflavík missir sinn besta mann í meiðsli og sömu sögu er að segja af Snæfelli.
Það er reyndar stórfurðulegt hvað Hólmarar eru óheppnir með þessa leikstjórnendur sína þegar vorar. Flestir muna eflaust eftir því þegar Jeb Ivey hljóp í skarðið hjá þeim eins og frægt varð þegar Snæfell landaði Íslandsmeistaratitlinum á sínum tíma.
Ekkert slíkt var uppi á teningnum að þessu sinni. Snæfell beit á jaxlinn og gerði sitt besta þrátt fyrir að hafa misst sinn besta leikmann.
Það var aðdáunarvert að sjá Pálma Frey stökkva inn í leikstjórnandastöðuna og leysa hana prýðilega. Hann hefur oft spilað þessa stöðu, en ekki mikið í vetur.
Vel má vera að lið Stjörnunnar sé einfaldlega sterkara en Snæfellsliðið. Breiddin er að minnsta kosti talsvert meiri í Garðabæjarliðinu, en þetta einvígi hefði alveg örugglega verið jafnara ef Jay Threatt hefði notið við allan tímann.
En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því. Svona er þetta stundum. Súrt að vinna alla þessa vinnu yfir veturinn og láta svo kippa undan sér fótunum í úrslitakeppninni. Hábölvað.
Eins og við komum inn á áðan, er óhætt að álykta að það séu tvö bestu liðin á landinu sem leika munu til úrslita - sömu lið og mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar í vetur.
Stjarnan hafði betur í bikarnum eins og flestir muna og þorri spámanna telur að um endurtekið efni verði að ræða í lokaúrslitaeinvíginu sem hefst í næstu viku.
Kannski er eðlilegt að spá Garðbæingum sigri, en okkur þykir fólk ekki sýna Íslandsmeisturunum mikla virðingu þegar það segir að Stjarnan muni rúlla í gegn um þetta. Heldur fólk að Grindavík sé allt í einu með eitthvað lélegt lið?
Sprengja sprakk á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.
Henni var miðað á lið Stjörnunnar. Allt í einu byrjuðu menn úr öllum áttum að senda pillur og kyndingar að Garðbæingum. Það á að vera "skandall" ef þetta "dýrasta lið Íslandssögunnar" landar ekki titlinum...
Þetta er dálítið einkennilegt.
Það er reyndar ekki langt síðan við skrifuðum pistil um að dagar Stjörnunnar sem krúttlegs Spútnikliðs væru taldir. Þetta byggðum við á þeirri staðreynd að liðið er orðið svo vel mannað að hið eina rökrétta í stöðunni væri að stefna á meistaratitilinn.
Stjarnan er búin að vinna bikarkeppnina í tvígang og stutt er síðan liðið komst í lokaúrslitin. Þá var liðið undirhundur eins og sagt er.
Nú er allt annað hljóð í kútnum. Núna á Stjarnan að verða Íslandsmeistari - allt annað er bara vonbrigði. Það er bara þannig.
Með þessu erum við alls ekki að gera lítið úr ríkjandi Íslandsmeisturum, sem eru með frábært lið. Við erum aðeins að benda á að kröfurnar eru að aukast mikið í Garðabæ.
Það er ekki langt síðan Stjarnan sleit barnskónum sem körfuboltafélag í efstu deild, en mikið hefur verið lagt í þetta síðan og nú virðist liðið komið til að vera í toppbaráttunni. Þetta hefur vakið upp nokkuð sterk viðbrögð hjá fólki og orð hafa verið látin falla sem bera vott um öfund í garð Stjörnunnar. Það er kannski eðlilegt.
En hvað er að því að fá nýtt stórveldi inn í körfuboltann á Íslandi? Nákvæmlega ekki neitt.
Helsti munurinn á Stjörnuliði undanfarinna ára og liðinu í dag, er að breiddin er meiri núna. Menn eru búnir að spila mikið saman og eru farnir að gjörþekkja hver annan, en mikilvægasta atriðið að okkar mati er að Stjarnan er loksins komin með almennilegan Neyðarkarl í Jarrid Frye.
Frye þessi er alveg frábær leikmaður og við höfum það eiginlega á tilfinningunni að hann sé bara að dúlla sér í þriðja og fjórða gír enn sem komið er. Gaurinn gerði nákvæmlega það sem honum sýndist í rimmunni við Snæfell og á inni.
Það hefur verið hlutverk Justin Shouse að vera Neyðarkarl hjá Stjörnunni undanfarin ár og oftast hefur hann staðið undir því. Hann hefur þó ekki alveg haft það sem til þurfti til að koma liðinu alla leið að titlinum og það er líklega ósanngjarnt að ætlast til þess af honum nú þegar hann er að komast af léttasta skeiði.
Shouse er samt enn stórkostlegur leikmaður eins og hann sýndi í kvöld þegar hann jarðaði Snæfell endanlega með þriggja stiga sýningu sinni í síðari hálfleik.
Það kemur hinsvegar miklu meira út úr honum nú þegar hann er kominn með Neyðarkarl með sér sem dregur til sín mikla athygli. Þá verður Shouse helmingi hættulegri og getur meira einbeitt sér að því að spila upp á alla skorarana í kring um sig - nóg er af þeim.
Einvígi Grindavíkur og Stjörnunnar verður hreinræktuð hágæðaskemmtun, það er óhætt að færa það strax til bókar. Það verður svo gaman að sjá hvernig Stjörnunni tekst til að berjast við tröllin Sigurð og Pettinella í fráköstunum og hvernig þeir ætla að fara að því að stöðva erlendu leikmennina, sem eru báðir óhemju hættulegir sóknarmenn eins og þeir sýndu gegn KR.
Grindvíkinga bíður líka hið nánast ómögulega verkefni að halda aftur af þeim Shouse og Frye, en það ætti að vera helsti lykillinn að því að leggja Stjörnuna - auk þess að vinna baráttuna um fráköstin.
Þetta verður hrikalega gaman.
Að lokum eru hér nokkrar myndir úr Ásgarði í kvöld. Okkur þykir bráðnauðsynlegt að taka fram fyrir þá sem sáu ekki leikinn, að flotskotið sem Dagur Kár Jónsson er að taka á einni af myndunum rataði rétta leið. Flott innkoma hjá honum í kvöld.
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
Jarrid Frye
,
Justin Shouse
,
Stjarnan