Sunday, December 5, 2010

Andleysi í Cleveland


Við ætluðum eiginlega að skrifa eitthvað um leik Cleveland og Miami á dögunum en svikum það eins og allt annað sem við höfum lofað hér á þessari síðu.

Auðvitað Miami- og LeBron-uðum við yfir okkur og litlu við það að bæta.

Það eru nokkur batamerki á liði Miami, þó það eigi enn langt í land og LeBron James spilaði loksins eins og hann á að sér á gamla heimavellinum.

Það sem vakti helst athygli okkar í þessum leik, var frammistaða leikmanna Cleveland Cavaliers. Þeir sýndu tennurnar á fyrstu mínútunum en gáfust upp eftir að hafa verið löðrungaðir nokkrum sinnum af liði Miami.
Áhorfendur létu ekki sitt eftir liggja og bauluðu og öskruðu með ágætum á fyrrum óskabarn sitt, en leikmennirnir voru ekki í sama anda og lögðust í gólfið og létu sparka í sig.

James fíflaðist með leikmenn Cleveland. Skoraði á þá hvað eftir annað og gerði grín að þeim, reif kjaft við þá. Fékk engin svör. Það var flott hjá James að eiga góðan leik undir þessum kringumstæðum. Við spáðum 50 stiga leik og sú hefði verið niðurstaðan ef hann hefði spilað meira en þrjá leikhluta.

En að enginn leikmanna Cleveland skuli hafa látið James vita með ákveðnum hætti að svona fíflagangur yrði ekki liðinn. Hneyksli. Hvað haldið þið að Charles Oakley, Bill Laimbeer eða Rick Mahorn hefðu gert ef þeir hefðu verið leikmenn Cleveland og séð LeBron koma keyrandi á körfuna?

Einmitt.


Það vakti gríðarlega athygli þegar Cleveland vann opnunarleikinn sinn á tímabilinu gegn Boston.

Kannski var liðið ekki svo slæmt eftir allt. Kannski var líf eftir LeBron hugsuðu menn.

Cleveland hefur átt skítlétt prógramm í byrjun leiktíðar en er bara 7-11. Þrír síðustu leikir liðsins eru ekki glæsilegir. Það er ekkert töff við það að vera tekinn í bakaríið af Minnesota Timberwolves. Þetta gæti orðið erfiður vetur í Cleveland. Ekki bara af því LeBron James leikur ekki lengur með liðinu, heldur af því það virðist ekki vera neinn andi í mannskapnum.

(Rödd Hubie Brown) Ef þú getur ekki komið þér í gírinn, gefið nokkur olnbogaskot og spilað hörkuvörn í endurkomu LeBron James til Cleveland með troðfullt hús af öskrandi áhorfendum, ættirðu ef til vill að finna þér eitthvað annað að gera.