Sunday, December 5, 2010

D fyrir Dallas - D fyrir Dirk


Lið Dallas Mavericks var ekki mikið í umræðunni í haust en það er nú að breytast. Staðreyndin er sú að Dallas er með hörkulið sem er að spila vorbolta strax í desember. Dallas er stökkskotalið eftir sem áður en er nú allt í einu farið að spila hörkuvörn sem er að tryggja hvern sigurinn á fætur öðrum.

Það sem er skemmtilegast við sigurgöngu Dallas að undanförnu er hve öflugt liðið hefur verið í því að stöðva sigurgöngur. Dallas var fyrsta liðið til að skella New Orleans, sem þá hafði unnið átta leiki í röð, stöðvaði San Antonio á tólf leikja sigurgöngu, Utah á sjö leikja sigurgöngu og Oklahoma á fimm leikja sigurgöngu. Þá er ekki síður merkilegt að aðeins sigurinn á New Orleans var á heimavelli - hinir þrír á útivelli.

Mjög flottur sprettur í gangi hjá Mavericks núna og ekki á endurkoma hins franska Rodrigue Beaubois eftir að veikja liðið þegar að því kemur. Það lifir enn von í Dallas.

Vonir Dallas standa alltaf og falla með Dirk Nowitzki og í tilefni af því langar okkur að leggja fyrir þig spurningu. Hefur þú horft á Dirk Nowitzki spila körfubolta nýlega? Það er heiður að fá að fylgjast með því.

Nowitzki er búinn að vera undir teppi í NBA frá því hann var kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar forðum. Það talar enginn um hann. Hann er bara þessi "skotglaði og soft framherji sem aldrei gat unnið neitt." Það má vel vera að Dirk hafi aldrei orðið NBA meistari en það þýðir ekki að við eigum að troða honum ofan í kassa og gleyma honum.

Dirk er nefnilega einstakur leikmaður. Eina eintakið sinnar tegundar í sögu NBA. Hávaxnasta stórskytta allra tíma. Er yfir sjö fet en leikur hans minnir á margan hátt frekar á bakvörð en stóran mann. Hefur verið ótrúlega stöðugur i leik sínum og er alltaf að bæta við sig, missir afar sjaldan af leikjum. Stórkostlegur sóknarmaður og algjör höfðingi - fagmaður.

Afsakið sentímentalismann, en það mættu vera fleiri leikmenn eins og Dirk Nowitzki. Gefðu honum props, gefðu honum ást. Þú veist hann á það skilið.