Sunday, December 12, 2010
Al-stjörnuleikurinn í körfubolta var ljómandi skemmtilegur
Stjörnuleikurinn íslenski fór fram í Seljaskóla í gær og var frábær skemmtun. Þetta varð eiginlega skemmtilegra prógramm en við höfðum reiknað með.
Seljaskóli er út af fyrir sig fullkominn til að hýsa viðburðinn af því svona lagað er alltaf skemmtilegra í pökkuðu húsi.
Ægir Þór Steinarsson átti auðvitað daginn eins og búast mátti við. Sigraði með glæsibrag í skotkeppninni, aðstoðaði troðkónginn í atriði sínu (með því að gefa á hann ofan úr stúku) og fór svo á kostum í leiknum sjálfum.
Við kunnum Hössa reyndar litlar þakkir fyrir eftirfararvörnina á Ægi þarna í eitt skiptið, en Hössi verður að fá kúdós fyrir skemmtilega frammistöðu í leiknum eins og svo margir.
Það var eins og blautur draumur að sjá lið með þá Ægi Þór, Pavel, Semaj og Biedler á keyrslunni. Fokkar ekkert í þessu.
Stjörnuleikir eiga að vera skemmtilegir og flestir þeirra sem tóku þátt náðu að spila undir þeim formerkjum.
Þó flestir skemmtilegustu leikmennirnir hafi spilað með höfuðborgarliðinu, þótti okkur vænt um að sjá landsbyggðina landa sigri. Landsbyggðin ræður auðvitað og því leyfði Ægir þeim að vinna þarna í lokin.
Það er ekki hægt að ljúka þessari litlu umfjöllun um stjörnuleikin án þess að minnast á frammistöðu Ragnars Nathanaelssonar Hamarsmanns í troðkeppninni (sjá mynd).
Hinn litríki og langi miðherji bauð að okkar mati upp á tilþrif keppninnar með því að troða með haldið fyrir augun að hætti Dee Brown. Þáttur hans í keppninni minnti mikið á það þegar Chris Andersen tók þátt í troðkeppni NBA fyrir nokkrum árum (áður en rann af honum), en Ragnar náði reyndar að troða boltanum oftar en aldrei, öfugt við Andersen.
Þegar allt er talið var þetta ljómandi skemmtilegur dagur í Seljaskóla og ekki annað að sjá en hver einasti meðlimur fjölskyldunnar hafi þarna fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Vel að þessu staðið hjá okkar mönnum í KKÍ en það þarf reyndar að pappíra þann sem átti að skila tölfræðinni úr stjörnuleiknum inn á kki.is. Verður að passa svoleiðis. All game and no stats make NBA Ísland a dull boy.
Takk fyrir okkur.