Monday, December 13, 2010
Nú skulum við öll setja okkur í netsamband
Hérna fyrir neðan má sjá tölfræðina úr stjörnuleiknum um helgina. Við þökkum þeim kærlega fyrir sem brugðust hratt við og sendu okkur stattið.
Glöggir taka eftir því að þetta eru ekki alveg réttar tölur, því tæknin var eitthvað að stríða mönnum fyrstu mínúturnar í leiknum.
Það voru vandræði með netið í Seljaskóla og það er ekkert nýnæmi. Það hafa verið vandræði með netið í Seljaskóla amk síðan árið 2005. Oft er ekkert net þar.
Seljaskóli er ekki eina íþróttahúsið sem er með allt niður um sig í netmálum. Það er leiðinlegt að vera að tuða yfir þessu, en svona er þetta bara.
Það getur vel verið að sé kreppa og allt það, en félög í úrvalsdeild - alveg sama hvort það er í körfu, hand- eða fótbolta - eiga að vera með skothelda nettengingu. Annað er GLÓRULAUST! Þetta er ekki árið 1986. Fólk vill fá tölfræðina sína strax og blaðamenn þurfa að geta unnið á netinu til að sinna starfi sínu almennilega.
Við ætlum að nota þetta tækifæri og skora á félögin í Iceland Express deildinni að fara yfir netmálin sín og kippa þeim í lag. Við ætlum að gera lauslega könnun á netmálum og aðbúnaði næstu daga og birta niðurstöðurnar hér á vefnum. Við hvetjum fjölmiðlamenn og aðra til að senda okkur ábendingar á netfangið okkar nbaisland@gmail.com. Félög sem standa sig fá klapp á bakið en þau sem eru með allt niður um sig fá skussaverðlaunin.
Er þitt félag í ruglinu og með netið í ólagi? Bjargaðu því fyrir horn sjálfur eða láttu einhvern annan kippa því í liðinn. Þetta er prinsippatriði fyrir félög með metnað.