Saturday, February 6, 2010
B-B-B-Billups og næst besta liðið í Vesturdeildinni
LA Lakers er besta liðið í Vesturdeildinni. Um það er engum blöðum að fletta.
En við verðum samt að gefa Denver smá kúdós fyrir að gera argúment úr þeirri fullyrðingu. Það er amk ekki hægt að sjá að Lakers sé betra lið en Denver ef tekið er mið af tveimur viðureignum liðanna í vetur.
Fyrri leikurinn í Denver var bara aftaka af hálfu heimamanna 105-79 og þá var 126-113 sigur Denver í Los Angeles í nótt ekki síður sannfærandi - og það án 30 stiga mannsins Carmelo Anthony.
Ekki þarf að fjölyrða um stórleik Chauncey Billups. 39 stig, 9 þristar og 8 stoðsendingar. JR Smith líka mjög drjúgur með 27 stig.
Það má samt ekki taka þennan sigur Denver of alvarlega, því þetta var einfaldlega eitt af þessum kvöldum hjá þeim. Þeir hittu bara úr öllu sem þeir köstuðu upp í loftið. Gott dæmi um það var þristurinn sem Ty Lawson smellti í spjaldið og ofan í í síðari hálfleiknum.
Phil Jackson setti þetta í gott samhengi eins og honum er einu lagið þegar hann var spurður út í skotsýningu Billups og annað tapið í röð fyrir Denver.
"Hann var rjúkandi heitur. Ég er bara feginn að þetta gerðist ekki í úrslitakeppninni," Tra-pisssh!
Nei, þessi sigur Denver segir kannski ekki að liðið sé betra en Lakers, en hann fer ansi langt með að sanna endanlega að Denver er lang-næst-besta liðið í Vesturdeildinni í dag.