Friday, January 22, 2010
Af LeBron James og Kobe Bryant
LeBron James var með bæði hendur og fætur á jörðinni í viðtölum eftir að Cleveland liðið hans lagði LA Lakers í hörkuleik nótt og hefur þar með unnið báðar viðureignir liðanna í vetur.
Það var sniðugt hjá James að halda sér á jörðinni. Það segir okkur að hann sé ekki búinn að gleyma því hvað lið hans gerði í brækurnar í úrslitakeppninni síðasta vor.
Líklega hafa flest ykkar misst af því þegar við sögðum ykkur kaldranalega að LeBron James væri besti körfuboltamaður heims hérna á hveitibrauðsdögum þessa vefsvæðis.
Eins og fram kemur þarna í færslunni skuldum við líklega langan pistil til að rökstyðja þessar yfirlýsingar - og hann á eflaust eftir að koma einn daginn.
Það gladdi okkur því mikið þegar Bill Simmons tók undir þessa skoðun okkar í þessum pistli sínum. Sérstaklega þessi partur hér:
"Know this: The Kobe-LeBron argument is dead. It's over.
LeBron James is the best basketball player alive."
Kobe var besti leikmaður deildarinnar í nokkur ár. En þá talaði enginn um það nema við. Núna er Lakers búið að vinna titil og þá er mátulega byrjað að tala um Kobe sem besta leikmann heims, þegar hann er það ekki lengur. Þrátt fyrir allar þessar flautukörfur og allt það. Nei, lömbin mín. Það er LeBron sem á sviðið í dag og eitthvað segir okkur að hann sé ekkert á leiðinni af því á næstunni.
Það er æðislegt að rífast um þetta. Þú veist að þú ert með gott argúment þegar þú getur verið að rífast við sjálfan þig um það meðan þorri landsmanna er í fastasvefni, dreymandi lélega handboltadómgæslu og IceSave.