Friday, January 22, 2010

Atkvæðatalningu er lokið í NBA Ædolinu























Þá er búið að tilkynna byrjunarlið austur- og vesturstrandar í stjörnuleiknum í næsta mánuði. Fátt sem kemur á óvart þar.  Allen Iverson er óboðinn gestur í byrjunarliðinu en það er alls ekkert víst að hann taki þátt í leiknum vegna meiðsla. Kannski tekur hann tíu mínútna kameó og kallar það gott. Líklegra er að einhver annar taki sæti hans.

Það eru vissulega skiptar skoðanir á vinsældakosningunni sem valið á byrjunarliðunum er, en það eru víst aðdáendurnir sem ráða þessu og ef þeir eru nógu vitlausir til að halda að það sé skemmtilegt að horfa á Allen Iverson spila leikstjórnanda í stjörnuleik - nú þá þeir um það. Okkur þykir alltaf vænt um að gömlu mönnunum sé sýnd virðing, en allt er kannski gott í hófi.

Það sem kom okkur alls ekki á óvart, var sú "dularfulla" staðreynd að vinsældir Tracy McGrady "dvínuðu skyndilega gríðarlega" og því er Steve Nash réttilega kominn á sinn stað í byrjunarliðið. Skrítið að Stern og félagar hafi ekki klárað að leiðrétta málið og kippa Iverson út.

Það er kannski til marks um miklar vinsældir Iverson að hann var langt á undan næsta bakverði í öðru sætinu yfir flest atkvæði í austrinu - þar sem í raun er ekki úr miklu að moða - nema þér finnist gaman að sjá Vince Carter taka stökkskot.

Svo er reyndar rosalega fyndið að sjá atkvæðin hjá bakvörðunum í vestrinu þar sem Aaron Brooks litli hjá Houston fær fleiri atkvæði en Jason Kidd, Tony Parker, Chauncey Billups, Brandon Roy og svo auðvitað Deron Williams - sem kemst ekki á lista frekar en venjulega. Sannarlega ekkert að því að spila í stórri borg eins og Houston, sem í ofanálag er með hálfa kínversku þjóðina lemjandi á lyklaborðið.

Afsakið þetta tuð í okkur. Kosningin í byrjunarlið stjörnuleiksins er ekki uppáhalds dagskrárliður okkar á árinu, það er ljóst. Við sleppum því þá að fjalla um hann á næsta ári...