Eins og þið vitið er NBA Ísland aldrei nokkru sinni með puttann á púlsinum þegar kemur að fréttamolum í körfuboltanum hér heima og erlendis.
Í kvöld gerði stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hjá Keflavík sér lítið fyrir og skoraði 60 stig í einum og sama leiknum með b-liði Keflvíkinga í sigri þess á b-liði Skallagríms.
Engan þarf að undra að stigin 60 komu öll úr þriggja stiga skotum, enda engin ástæða til að vera að hnoðast inni í teig þegar lið eru með mann sem setur niður 20 af 35 þristum.
Við erum auðvitað alls ekki fyrsti miðillinn sem segir frá þessu skemmtilega afreki Magnúsar, en við göngum hér skrefinu lengra og sýnum ykkur skotkortið hans Magnúsar úr leiknum.
Þetta er þjónusta sem við efumst um að þið fáið á hinum miðlunum. Það var ekkert.