Monday, February 17, 2014

ÍR-ingar gera sig breiða


Himininn er blár, vatn er blautt og ÍR vaknar úr rotinu með hækkandi sól.

ÍR vann enn einn leikinn í kvöld þegar það lagði Stjörnuna 106-99 í einstaklega áhorfendavænum leik í Hellinum.

Í haust voru stuðningsmenn ÍR helst að vona að liðið myndi nú ná að halda sér í deildinni, en nú er annað hljóð komið í mannskapinn.

Heimildir okkar herma að liðið sé búið að vinna 6 af 8 leikjum eftir áramót og þar af er naumt tap fyrir KR þar sem ÍR var vængbrotið án Matthíasar Sigurðarsonar.

Það er alltaf gaman þegar lið sem hafa verið í vandræðum ná að rífa sig upp og komast á beinu brautina og nú er svo komið að Breiðhyltingarnir eru allt í einu komnir upp að hlið Stjörnunnar og Snæfells í 7.-9. sæti deildarinnar.

Menn þurfa svo sem ekkert að vera hissa á því að þetta ÍR-lið sé gott, fjandakornið. Sjáðu bara jafnt og gott framlag lykilmanna liðsins í sigrinum á Stjörnunni í kvöld.

Stórhöfðinginn Sveinbjörn Claessen skilaði 22/7, Hjalti Friðriksson 20/7/8, Björgvin Ríharðsson 18, Nigel Moore 16/12/9, Matthías Orri 16/7 og svo koma spaðar eins og Ragnar Örn Bragason inn í nokkrar mínútur og henda inn 12 stigum (4/5 í þristum). Það er ekkert að þessu!

Þetta var ekki amalegt veganesti fyrir Breiðhyltinga fyrir bikarúrslitin um helgina og ef þeir spila eitthvað í líkingu við það sem þeir gerðu í kvöld, getur allt gerst í Höllinni.

Leikmenn og þjálfarar Stjörnunnar voru augljóslega hund-pirraðir eftir tapið í Hellinum í kvöld. Þeir voru aftur komnir með Matthew Hairston inn í liðið eftir leikbann, en varnarleikur liðsins var bara alls ekki nógu góður.

Eins og við komum inn á í upphafi, var leikurinn í kvöld mjög áhorfendavænn, því á löngum köflum var bara allt í  - beggja vegna vallarins.

Ætli Teitur og félagar nái ekki að skrúfa sig saman og laga þetta hjá sér. Annað kæmi okkur á óvart. En það er ljóst að nú má ekki misstíga sig neitt. Það er stutt í vorið og baráttan  um sæti í úrslitakeppninni verður rosalega hörð.