Thursday, January 16, 2014

Magnaður leikur í Ásgarði


Það var ógeðslega gaman á leik Stjörnunnar og Þórs í Ásgarði í kvöld. Það var engu líkara en að um væri að ræða leik í úrslitakeppni, enda var vægi hans svo sem mikið - liðin á svipuðum slóðum í deildinni og endaspretturinn hafinn. Æ, þau hefðu eiginlega bæði átt skilið stig úr þessum leik. Leikbrot var líka á svæðinu.

En eins og þið vitið, fór Stjarnan með sigur af hólmi 97-95 eftir æsilegar lokamínútur. Þórsarar voru skrefinu á undan allan leikinn og voru í góðri stöðu þegar skammt var til leiksloka, en á einhvern undarlegan hátt náðu heimamenn að snúa þessu við í lokin. Það hjálpar að vera með miðherja sem getur vippað sér út fyrir og sett niður þrist á ögurstundu.

Eins og þið sjáið á stigaskorinu, eru þjálfarar beggja liða eflaust ósáttir með varnarleik sinna manna, en það þýðir bara að við áhorfendur fáum meiri sóknarleik fyrir peninginn okkar. Það er nægur tími til að spila varnarleik þegar kemur fram í úrslitakeppnina. Eða það finnst okkur a.m.k.


Við verðum líklega að biðja Nat-vélina afsökunar á að hafa jinxað hana með því að mæta loksins á leik með Þór, en landsliðsmiðherjar verða bara að hirða fleiri en fjögur fráköst á 29 mínútum. Þetta veit Ragnar vel og kippir þessu í liðinn næst. Það fór reyndar í taugarnar á okkur hvað hann fékk lítið að sjá af boltanum í sókninni. Mike Cook yngri  er með meira harpix í lúkunum en Héðinn Gilsson.

Við sáum fullt af háloftatilþrifum í þessum leik - flest þeirra frá Matthew Hairston - en við sáum líka dísellyftara í vinnu. Þið vitið, þennan sem er alltaf með öll fjögur dekkin á jörðinni en nær samt alltaf að staulast með hlassið á leiðarenda. Jú, það er Nemanja Sovic. Það bar meira á mörgum leikmönnum inni á vellinum, en samt var Sovic með vona 1600 fleiri framlagsstig án þess að svitna. Segir sína sögu um framlagsstig og segir sína sögu um díselvélina Sovic.



Þetta var sannarlega einn fjörugasti leikurinn sem við höfum séð í vetur og lofar óhemju góðu fyrir baráttuna í vor. Andinn í liði Stjörnumanna var að vonum góður eftir þennan magnaða sigur, sem á eflaust eftir að gefa liðinu spark í anusinn. Ekki veitir af, þeir fá KR í heimsókn eftir hálfan mánuði milli þess sem þeir skreppa í Borgarfjörðinn.

Kjartan Atli Kjartansson er eins og þið vitið hættur að spila með liði Stjörnunnar og er búinn að skipta yfir í stórklúbbinn Álftanes. Kjartan er þó engan veginn hættur afskiptum sínum af Stjörnuliðinu og mætti flottur í tauinu á bekkinn. Það má því eiginlega segja að Teitur Örlygsson sé kominn með tvo aðstoðarþjálfara á bekkinn. Það vantar ekki stuðninginn fyrir ungu mennina í liðinu.

Hey, hérna eru nokkrar myndir: