Wednesday, January 8, 2014

Kevin Durant verður áfram að sætta sig við silfrið:


Einhverjir gáfumenn eru að hóta því að kjósa Kevin Durant verðmætasta leikmann NBA deildarinnar (MVP) í vetur. Sáum einhvern heiðursmanninn á ESPN skrifa um það í gær. Það er nú eflaust bara til að fá flettingar.

Ekki misskilja okkur, Kevin Durant er í gríðarlegu uppáhaldi hjá okkur og hefur alltaf verið. Hann er merkilegt nokk enn að bæta sig í fjölda tölfræðiþátta (t.d. fráköstum og stoðsendingum) og það er löngu orðið ljóst að pilturinn á fáa ef einhverja sína líka í sögu deildarinnar. Hann er það sérstakt eintak.

Ef þú ætlar hinsvegar að halda því fram að hann sé verðmætari (óþolandi hugtak) leikmaður en LeBron James, skaltu bara fara út og vera þar. 

James er algjörlega í deild út af fyrir sig og við skulum láta ykkur vita þegar það breytist eitthvað. Það verður ekkert á næstunni.

Aumingja Al

Útvarpsmaðurinn Scott Ferrell á CBS (hver í fjandanum sem hann er nú) komst að okkar mati mjög vel að orði í nótt þegar hann var að kryfja frammistöðu Kevin Durant á móti Utah Jazz.

Þar tekur hann dæmi sem við urðum reyndar einnig vitni að til að undirstrika yfirburði James:

"He (Kevin Durant) is with out a doubt, the second best player in the NBA. With that said, the gap between him and LeBron James was apparent tonight. 

When Al Jefferson was torching the Miami Heat last season, LeBron James switched his defensive assignment, and took Big Al out of the game competely. 

In the last 7 minutes of the game (tonight), Durant was no where to be seen guarding Hayward. With Durant's superior length and athleticism, he should relish the opportunity to shut down an opponent, and he was absent defensively. His greatness was on display, but lacked the extra push that King James seems to find when he needs it."

Þetta er engin lygi. Al Jefferson er einn af fáum mönnum sem geta spilað áhrifaríkan sóknarleik niðri á blokkinni. Eins og flestir vita er Miami liðið veikt fyrir í miðjunni og því voru jólin hjá Jefferson í fyrri hálfleik. Hann skoraði til að mynda 10 stig í fyrsta leikhlutanum.

Utah náði 21 stigs forystu á kafla í leiknum og þrátt fyrir að heimamenn hafi glutrað henni nánast alveg niður, náðu þeir að vinna góðan sigur á lúnum meisturunum þrátt fyrir allt.

Já, nei, vinur

LeBron James fór hamförum í sóknarleiknum og skoraði 32 stig (13-19 í skotum) en það var varnarleikurinn hans sem stóð upp úr í þessu tilviki.

Eric Spoelstra þjálfari Miami (eða þá LeBron James sjálfur - hver veit) ákvað í síðari hálfleiknum að Al Jefferson væri búinn að fá að leika sér nóg undir körfunni og fól James það verkefni að dekka hann.

Skemmst er frá því að segja að Jefferson snerti varla boltann í lokaleikhlutanum og eina framlag hans í sóknarleiknum var að setja niður fjögur vítaskot. James "frontaði" hann (límdi sig framan á Jefferson og hindraði sendingar til hans) og gjörsamlega pakkaði honum saman einn síns liðs.

Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem geta skammlaust dekkað allt frá bakvörðum upp í kraftframherja (og jafnvel einstaka miðherja), hvort sem er á blokkinni eða opnum velli. Það er rosalega algengt að stórstjörnurnar í NBA deildinni séu ofmetnar á varnarhelmingi vallarins bara út á nafnið og lifi þá lengi á orðspori sínu í geiranum (sjá: Kobe Bryant).

Það er aftur á móti ekkert skrum að setja LeBron James í varnarúrval deildarinnar og hann kemur eflaust til með að fá slatta af atkvæðum sem varnarmaður ársins og verður þá vel að því kominn.

Þetta er Kevin Durant ekki farinn að gera enn sem komið er og það er að okkar mati ein helsta ástæðan fyrir því að James ber höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í deildinni í dag (eins og síðustu ár). Eins og hefð gerir ráð fyrir (90%) verður það besti leikmaðurinn í sigursælasta liði vetrarins sem kjörinn verður mikilvægasti leikmaðurinn.

Tveggja manna mót

Útlit er fyrir að Miami, Indiana, Oklahoma og San Antonio berjist um besta vinningshlutfallið í vetur og því er mjög líklegt að MVP-inn komi úr röðum þessara liða.

Stjörnur San Antonio og Indiana eru ekki nógu afgerandi í sínum liðum þó frábærar séu. Þeir Tim Duncan, Tony Parker og Paul George hafa spilað eins og englar í vetur (auk manna eins og Steph Curry, LaMarcus Aldridge, Damian Lillard, Chris Paul og fleiri snillinga - sem allir fá hér sárabótaratkvæði).

Nei, það koma bara tveir menn til greina ef þetta á að vera alvöru - og í okkar bókum er svo hægt að stíga eitt skref til viðbótar og segja að það komi bara einn maður til greina í fullri alvöru. Nú má vel vera að einhver ykkar séuð með allt annan bókmenntasmekk en við, en þið verðið þá bara að eiga það við ykkur. 

Það breytir því ekkert að LeBron James er langbesti körfuboltamaður í heimi.

Já, vertu bara úti!