Vonandi snýst umræðan eftir leikinn um eitthvað annað en að LeBron James hafi ekki skorað yfir 30 stig. Hann var reyndar búinn að skora yfir 20 stig í tólf leikjum í röð áður en hann skilaði "bara" átján stigum gegn Spurs í nótt (og átján fráköstum og tíu stoðsendingum), en hann var líka ekki að spila á móti liðum þjálfuðum af Gregg Popovich.
Nei, umræðan ætti að snúast um það hvað þessi sigur er rosalega mikilvægur fyrir San Antonio eftir alla þessa hvíld - og hvað Tony Parker er búinn að líma nafn sitt í sögubækurnar, hafi hann ekki þegar verið búinn að því.
Við værum að gera lítið úr leik hans ef við gerðum ekki annað en að hrósa honum fyrir sigurkörfuna, sem auðvitað hafði eitthvað með heppni að gera.
Snúningskarfan sem hann skoraði rétt á undan, leikstjórn hans og sú staðreynd að hann tapaði ekki einum einasta bolta í leiknum, segja meira um frammistöðu hans. Þetta er bara snillingur.
Það var ekkert annað en upplifun að horfa á þessi lið kljást og það má ekki ein einasta amma eða antísportisti missa af restinni af þessu einvígi.
Áhugavert að sjá Dwyane Wade spila miklu, miklu betur en hann gerði í helmingnum af leikjunum gegn Indiana. Virkaði ekki mikið að honum í þessum leik. Chris Bosh? Bleh.
Chris Bosh er Chris Bosh. Við setjum spurningamerki við öll þessi langskot hans, en það er engin tilviljun að hann sé að taka þau. San Antonio vill að hann taki þau - og Spoelstra þjálfari hans treystir honum til að taka þau. Annars væri hann ekki að taka þau hvað eftir annað, hvað sem þér finnst svo um það.
Við værum auðvitað ekki að tala um þetta ef hann hefði sett eitthvað af þeim niður, sérstaklega það síðasta.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Miami hvað San Antonio bjó til mikið af opnum þriggja stiga skotum og ef þau hefðu verið að detta betur hjá Spurs, hefði þessi leikur kannski ekki verið spennandi.
Risakúdós verður auðvitað að renna til Tim Duncan sem skilaði 20/14/4/3 leik. Hinn 37 ára gamli öðlingur, er næstelsti leikmaður í sögunni til að skila 20/14 leik í lokaúrslitum (Kareem). Snillingur. Algjör snillingur.
Og það er alveg mannlegt að halda með honum í síðasta dansinum, þó hann hafi verið í ljótri skyrtu á blaðamannafundinum.
Við erum örugglega að gleyma einhverju, en einvígið er rétt að byrja og nægur tími til að snúa við hverjum steini næstu daga (og lauma jafnvel inn nokkrum mínútum af svefni jafnvel - #Immit)
Bæði lið eiga eftir að gera einhverjar breytingar milli leikja og eitthvað segir okkur að skákin sé bara rétt að byrja.
Þessi snilldarleikur í nótt var stórkostleg byrjun á þessu einvígi og lofar gríðarlega góðu fyrir framhaldið.
Það má vel vera að yfir 70% liða sem vinna leik eitt í lokaúrslitum landi titlinum, en það dugði Oklahoma nú skammt í fyrra.
Kannski voru Miami-menn dálítið lúnir í fjórða leikhlutanum í nótt eftir Maraþonviðureignina við Indiana, en það er þá þeim sjálfum að kenna.
Gerðu okkur þann greiða að missa ekki af leik tvö. Það er ekki bjóðandi.
Þvílík gargandi snilld sem þessi íþrótt getur verið.
P.s. - Kíktu á Hlaðvarpssíðuna, þar er komin smá upphitun fyrir úrslitaeinvígið (13. þáttur).