Tuesday, June 4, 2013
Áhorfstölur í úrslitum: Lakers inn - Spurs út
Það er hætt við því að forráðamenn ABC/ESPN hafi varpað öndinni léttar þegar Miami náði að vinna Indiana í oddaleik í nótt. Það er vegna þess að úrslitaeinvígi milli San Antonio og Indiana hefði mjög líklega þýtt að áhorfstölur hefðu gjörsamlega hrunið.
San Antonio og Indiana eru ekki stórir markaðir á peningakortinu. Markaðsdólgar segja að San Antonio sé 30. stærsti fjölmiðlamarkaður Bandaríkjanna og Indiana enn neðar - í 41. sæti. Sem fyrr er það Lakers-liðið sem er blautur draumur sjónvarpsstöðvanna þegar kemur að áhorfi og klinki í kassann.
Þannig hafa þau þrjú einvígi sem trekktu að flesta áhorfendur síðan ABC fékk sýningarréttinn á lokaúrslitunum 2002, öll verið með Los Angeles Lakers. Næstu þrjú einvígi í áhorfi vor svo með Miami Heat, árin 2006 og í fyrra og hittifyrra..
En hvaða einvígi ætli reki lestina? Jú, auðvitað þessi þrjú sem San Antonio hefur tekið þátt í síðan 2002, það er að segja 2003, 2005 og 2007 - árin sem San Antonio vann meistaratitilinn. Það er ekki bara út af þessari klisju með að Spurs sé óspennandi lið, heldur er bara ekki nógu mikið af augum í boði til að horfa á þetta.
Hér fyrir neðan sérðu áhorfendatölur frá því árið 1987. Þú tekur eftir því að það verður hrun í áhorfi eftir árið 1998. Það mætti halda að vinsælasti íþróttamaður heims hafi hætt að spila í deildinni.
Lið eins og Lakers eiga sér skrilljónir aðdáenda um öll Bandaríkin, Los Angeles er stór borg og stór markaður - og svo verður að taka með í reikninginn að hluti af Bolnum dettur alltaf í lið með Lakers þegar séns er á að liðið vinni titil. Svona er sumt fólk bara.
Þó San Antonio hafi ekki verið að koma vel út úr áhorfskönnunum á síðasta áratug, er eitthvað sem segir okkur að úrslitaeinvígið í ár eigi eftir að skora hærra en hin þrjú á undan.
LeBron James ætti að sjá til þess, nú þegar hann hefur möguleika á að vinna San Antonio - öfugt við þegar San Antonio sópaði honum út með Cleveland árið 2007.
Allt annað er svo uppi á teningnum þegar litið er á áhorfstölur á lókalstöðvum. Þar var San Antonio að skora langhæst árið 2011 en Miami var með lélegustu tölurnar.
Efnisflokkar:
ABC
,
ESPN
,
Heat
,
Lakers
,
Lokaúrslit
,
Sjónvarp
,
Spurs
,
Tölfræði
,
Úrslitakeppni 2013