Monday, May 27, 2013

Við elskum körfubolta


Sæl aftur.

Það er ekki við Indiana að sakast, en Miami er nú mætt í úrslitakeppnina árið 2013. Miami vélin þurfti smá ræsingarúða eins og gamall Nalli, en naumur sigur í fyrsta leik og tap í öðrum gegn Pacers á heimavelli var það eina sem þurfti.

Þetta er Miami - liðið sem var óstöðvandi í deildinni í vetur og liðið sem við áttum von á að sjá eins og bremsulausa jarðýtu í úrslitakeppninni. Þarna er það.

Þriðji leikur Miami og Indiana í gær var ekki mjög spennandi, slíkir voru yfirburðir gestanna, en það var samt unun að horfa á það hvernig Miami hakkaði allt í sig sem Indiana reyndi að setja fyrir það.

Ekkert lið vinnur Miami þegar stjörnurnar eru rétt stilltar og fá í þokkabót hjálp frá öllum aukaleikurunum.

Aumingja Indiana ef þetta heldur svona áfram. Hætt við að þetta tap í gær hafi slegið úr þeim eitthvað af tönnunum. Það var alveg sama hvað þeir reyndu, allt kom fyrir ekki.

Við erum búin að segja ykkur allt um LeBron James og þurfum ekki að segja meira um hann í bili, en þessum snillingi er enn að takast að lyfta leik sínum á hærra plan.

Við verðum að deila með ykkur stuttu myndbroti sem fangar svo fullkomlega af hverju við elskum körfubolta.

Myndbrotið hér fyrir neðan er úr leik tvö hjá Miami og Indiana. Ungstirni dagsins í dag, Paul George hjá Indiana, byrjar þar á því að HAMRA boltanum í andlitið á Fuglamanninum Chris Andersen, en LeBron James lætur það ekkert á sig fá, brunar upp völlinn og setur niður langan þrist í andlitið á honum til baka.

Eftir þetta sjáið þið að þeir James og George skiptast á einhverjum pillum og í síðustu endurtekningunni, í blálokin á myndbrotinu, sérðu þá takast í hendur, brosa og halda hvor í sína áttina í lok leikhlutans.



Þetta er gæsahúðaraugnablik af bestu gerð.

Þetta er ástæðan fyrir því að körfubolti er fallegasta íþrótt í heimi að okkar mati.