Monday, May 27, 2013

Nær Memphis að halda lífi í kvöld?


San Antonio Spurs stendur frammi fyrir erfiðu en öfundsverðu verkefni í nótt þegar það sækir Memphis Grizzlies heim í fjórða leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Við segjum öfundsverðu, því okkur er alveg sama hvað hver segir - enginn sá fyrir að Spurs myndi vinna fyrstu þrjá leikina í þessu einvígi - og það er ansi þægilegt að vera yfir 3-0 í einvígi í úrslitakeppni.

Það verður kannski ekki bókstaflega auðvelt fyrir Spurs að loka þessu, en öll 107 liðin sem náð hafa 3-0 forystu í sjö leikja seríu í úrslitakeppni NBA til þessa, hafa náð að loka dæminu.

San Antonio hefur ágætis reynslu af því að komast í 3-0 í úrslitakeppninni og er 7-4 í leiknum sem á eftir kom.

Það ætti að þýða að liðið ætti ágætis möguleika á að klára dæmið í Memphis í nótt.

Við skulum þó vona að heimamenn hafi meira stolt en svo, að þeir láti sópa sér út með þessum hætti. Mjög margir spáðu því að Memphis ætti eftir að vinna þetta einvígi og það var ekkert galin spá.

Memphis vann nokkuð öruggan sigur þegar þessi lið mættust síðast í úrslitakeppni og menn sáu ekki alveg hvernig gömlu lurkarnir í Spurs ættu eftir að standa sig á móti tröllslegri framlínu Memphis.

Til að gera langa sögu stutta, hefur kerfisbundinn, líflegur og skipulagður sóknarleikur Spurs gjörsamlega komið Memphis úr jafnvægi og stóru mönnunum hjá Grizzlies hefur verið mætt af fullum þunga.

Nú erum við ekki að segja að San Antonio sé búið að valta yfir andstæðinga sína í þessu einvígi, því eins og flestir vita hafa tveir af þremur leikjanna endað í framlengingu. San Antonio er samt búið að vera betri aðilinn lengst af í rimmunni.

Marc Gasol virkar á felgunni af þreytu, Zach Randolph hefur ekkert getað í sóknarleiknum í einvíginu og stigahæsti leikmaður Memphis í tveimur af þremur leikjunum hefur verið maður sem leiddi liðið ekki einu sinni í stigaskori í allan vetur, Quincy Pondexter. Einmitt.

En hver er munurinn á Spurs í dag og liðinu sem tapaði fyrir Grizzlies í fyrstu umferð fyrir tveimur árum?

Við vorum búin að segja ykkur það.

 Tim Duncan er léttari og frískari, Manu Ginobili er þokkalega heill, Parker er enn betri leikmaður og besti leikmaðurinn í seríunni, Tiago Splitter er farinn að spila stóra rullu í liðinu og þá hefur Spurs yfir að ráða fullt af aukaleikurum sem geta komið inn á völlinn og spilað vörn og sett niður stór skot.

Lykilatriðið er samt varnarleikurinn. Spurs er fyrst og fremst betra lið í ár af því vörnin er betri. Og hey, það er líka ákveðinn lúxus að geta farið í gegn um Vesturdeildina án þess að hitta Oklahoma City með Russell Westbrook í lagi.

Við komum hérmeð þeim tilmælum til leikmanna Memphis Grizzlies að þeir standi undir nafni í kvöld. Leikstíll þeirra Grit & Grind hefur ekki skilað neinu gegn Spurs til þessa, en þessir menn hljóta að vera stoltari en svo að láta þessa gömlu karla sópa sér út á sinum eigin heimavelli, fjandakornið.

Fjórði leikur Memphis og San Antonio er á dagskrá klukkan eitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.