
Af hverju erum við með Kelly Tripucka á heilanum núna? Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að vera með Tripucka á heilanum. Dálítið eins og að vera með Fossa í Prúðuleikurunum á heilanum. Kannski verra. Við fundum ekkert um þetta á doktor.is.
Góð spurning. Hann datt bara allt í einu inn í hausinn á okkur eftir að einhverjir netverjar voru að birta myndir af honum þar sem hann var að frumsýna fyrstu keppnistreyjuna í sögu Charlotte Hornets árið 1988.
Tripucka hóf ferilinn hjá Detroit árið 1981 og afrekaði þar að skora næstum 27 stig að meðaltali í leik og leiða deildina í spiluðum mínútum á öðru árinu sínu.

Tripucka er á margan hátt goðsögn af því hann bauð upp á bæði mottu og möllett. Það var auðvitað enginn maður með mönnum á níunda áratugnum nema hann skartaði öðru eða báðum atriðum - í bland við hrikalega þröngar stuttbuxur auðvitað.
Stockton-þröngar - þú ert ekkert að fara að fjölga þér á næstunni-þröngar.
En það var meira í hann Tripucka spunnið. Hann var mikill skorari eins og við sögðum ykkur áðan og átti sín bestu ár þegar hann var hjá Detroit.
Þar afrekaði hann að vera tvisvar valinn í stjörnuliðið (´82 og ´84) og það voru hvorki meira né minna en þrír Pistons-menn í Stjörnuleiknum árið 1984 eins og þú sérð á myndinni hér fyrir ofan.

Thomas skilaði 21 stigi, 15 stoðsendingum og fjórum stolnum boltum í leiknum og hreppti verðlaunin af Julius Erving sem átti engu síðri leik - 34 stig (14-21= 64%), 8 fráköst, 5 stoðsendingar, tvö varin og tvo stolna.
Það var austurliðið sem hafði betur í leiknum 154-145 og rétt er að minnast á að Bill Laimbeer kom reyndar inn í Stjörnuliðið sem varamaður fyrir Moses Malone sem var meiddur. Það var Moses sem hlaut flest atkvæði allra í byrjunarliðið - tæp 928 þúsund tikk.
Gríðarlega eðlilegt að fara allt í einu að skrifa pistil um Kelly Tripucka í miðri úrslitakeppni.
Kannski erum við öll Kelly Tripucka.
Hrikalega var þetta fáránlegur pistill, en við skemmtum okkur konunglega. Þið vonandi líka.