Friday, May 24, 2013

Fuglamaðurinn spilar stóra rullu hjá Miami


Við reiknuðum með því að Fuglamaðurinn Chris Andersen ætti eftir að geta hjálpað Miami í nokkrar mínútur annað slagið þegar hann gerði samning við Miami seint í vetur.

Enginn sá samt fyrir að hann yrði lykilmaður í liði meistaranna nánast frá fyrstu mínútu. Hann kemur með brjálaða baráttu inn í miðjuna, djöflast í fráköstum, ver skot og hleypur endalínuna vel í sókninni þar sem hann er alltaf að pikka upp eina og eina viðstöðulausa.

Það segir að okkar mati meira um það hvað menn eins og Joel Anthony eru fullkomlega gagnslausir þegar gaur eins og Andersen getur vaðið beint inn í þetta sterka lið þó hann hafi verið út úr NBA deildinni í nokkurn tíma.

Liðið hefur ekki slegið feilpúst síðan Fuglamaðurinn kom til sögunnar og er með 45 sigra og aðeins fimm töp, en það vill þannig til að Anderson og LeBron James misstu úr einhverja af þessum fimm leikjum sem töpuðust, svo við tökum þá varla með.

Andersen hefur ekki aðeins fært Miami siguranda og lukku. Hann er líka að spila gjörsamlega eins og engill í úrslitakeppninni. Í tíu leikjum hefur hann hitt úr hvorki meira né minna en 29 af 35 skotum sínum utan af velli (82%).

Hann var mjög flottur í fyrsta leiknum gegn Indiana þar sem hann hitti öllum sjö skotum sínum, skoraði 16 stig á aðeins 18 mínútum, hirti 5 fráköst og varði þrjú skot, takk fyrir. Miami hefur vantað svona kappa í miðjuna allar götur síðan James og Bosh mættu á svæðið. Magnað að skrautlegur karakter eins og Fuglamaðurinn skuli geta lagt í púkkið og gert meistarana enn sterkari.