Saturday, April 20, 2013

Stjarnan blés og jafnaði


Óskaplega lítið að segja um annan leik Stjörnunnar og Grindavíkur í lokaúrslitaeinvígi Úrvalsdeildarinnar í kvöld. Hann var eign Garðbæinga frá fyrstu mínútu og Grindavíkurliðið gjörsamlega átti aldrei möguleika. Ætli þetta sé ekki Stjörnuliðið sem spámenn sögðu að færi alla leið.

Þessi 93-56 stórsigur heimamanna í kvöld var þeim auðvitað alveg nauðsynlegur, en við áttum reyndar alls ekki von á að hann yrði svona rosalega afgerandi. Grindavíkurliðið hefði komið sér í lúxusstöðu með sigri, en það hefði ekki jafnað þennan leik þó liðin hefðu spilað út júlí.

Þjálfarar beggja liða gerðu lítið úr þeim mikla stigamun sem var á liðunum bæði í fyrsta og öðrum leiknum, en það er alveg klárt að tapið stóra í Grindavík kveikti vel í Garðbæingum.

Nú er bara spurning hvort þessi stóri skellur sem gulir fengu í Ásgarði í kvöld verður til að kveikja í þeim eða hreinlega draga úr þeim tennurnar. Stjarnan var þó inni í fyrsta leiknum en Grindavík sá aldrei til sólar í kvöld.

Stjarnan er því yfir á stigum í bardaganum en sem betur fer fyrir jafnvægið í einvíginu (við viljum að sjálfssögðu fá þetta í fimm leiki), er Grindavík með heimavallarréttinn og getur náð forystu á ný með sigri í Röstinni sinni á mánudagskvöldið.

Annar leikurinn í kvöld var kannski ójafn, en mikið óskaplega var hann samt skemmtilegur lengst af. Við höfum ákveðið að leggja fram tillögu á næsta ársþingi KKÍ að vinna þurfi fjóra leiki í lokaúrslitunum í stað þriggja - þetta er bara svo gaman.

Nokkrar myndir: