Saturday, April 20, 2013
Sögulegt San Antonio
Gregg Popovich hjá San Antonio er almennt álitinn besti þjálfarinn í NBA deildinni. Þegar honum er hrósað fyrir að vera góður þjálfari, er hann alltaf fljótur að vísa því á bug og segja að velgengni Spurs sé leikmönnunum að þakka en ekki honum - hann sé fyrst og fremst heppinn að hafa fengið leikmenn eins og Tim Duncan upp í hendurnar.
Pop þarf ekkert að vera með þessa stæla, hann er frábær þjálfari og hann veit það, en hitt er rétt að það skiptir engu máli hvað þú ert góður þjálfari - þú nærð litlum árangri ef þú ert ekki með góða leikmenn.
Þá komum við að kveikjunni að þessari hugleiðingu:
Gerið þið ykkur einhverja grein fyrir því hvað San Antonio er búið að vera sögulega frábært lið síðan Tim Duncan kom inn í NBA deildina um miðjan tíunda áratuginn?
Enn eitt árið var San Antonio að ljúka deildakeppninni með tæplega 60 sigra (58) og er það hvorki meira né minna en fjórtánda árið í röð sem liðið vinnur 50 leiki eða meira. Þetta er NBA met.
Þegar betur er að gáð, er Spurs reyndar tæknilega búið að vinna 50+ leiki sextán ár í röð, því í verkbanninu um aldamótin voru auðvitað bara spilaðir 50 leikir.
Það ár var San Antonio með einn besta árangurinn í sögu félagsins (74% vinningshlutfall), svo það er enginn glæpur að áætla að Spurs hefði klárað 50 sigra með vinstri það árið.
Árið áður en Tim Duncan kom inn í deildina var San Antonio ömurlegt og tankaði duglega meðan stórstjarnan David Robinson var í meiðslum alla leiktíðina. Þetta er eina ljóta tímabilið í sögu félagsins allt aftur til níunda áratugarins.
Það er því þannig að ef við uppreiknum verkbannsárið um aldamótin, hefur San Antonio unnið 50+ leiki nítján sinnum á síðustu tuttugu árum, sem er með algjörum ólíkindum.
Auðvitað á Gregg Popovich sinn þátt í þessari velgengni San Antonio. Það var ekki lítið umdeild og kjarkmikil ákvörðun hjá honum á sínum tíma að láta það verða sitt síðasta verk í skrifstofudjobbinu sínu hjá Spurs að reka þjálfarann (sem var búinn að ná flottum árangri í deildakeppninni) og ráða sjálfan sig í staðinn.
Þá kom Tim Duncan til skjalanna og síðan hefur San Antonio ekki gert annað en vinna 50+ sigra á tímabili og safna meistaratitlum.
Eins og við höfum getið um annað slagið í vetur, er Tim Duncan að eiga sögulegt ár hjá Spurs. Flestir voru búnir að afskrifa gamla manninn eftir að tölfræðin hans fór að dala hressilega ár eftir ár, en í ár er engu líkara en hann hafi sest að sumbli í æskubrunninum með Eddie Murphy.
Það er alveg sama hvað meiðsli leika Spurs grátt og alveg sama hvað Popovich sparar mínútur og hvílir stjörnurnar sínar - alltaf skal sýstemið ganga upp og Spurs vinna fullt af leikjum.
Pop er sennilega besti þjálfarinn í NBA og menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru engir skussar, en San Antonio væri ekki búið að vera stórveldi í tvo áratugi ef Tim Duncan hefði ekki notið við.
Jú, hann Duncan er ekki sexí, hann á auðvelt með að fara í taugarnar á fólki, hann gefur ekki litrík viðtöl og er sannarlega enginn skrautfugl á vellinum heldur.
Hann veitir afar sjaldan persónuleg viðtöl og í rauninni hefur enginn hugmynd um hvaða mann hann hefur að geyma - fólk veit bara að hann er góður drengur, stórkostlegur körfuboltamaður og agaður leiðtogi eins besta liðs allra tíma.
Þannig að...
Ef þú hefur ekki gefið þér tíma til að staldra við og gefa því gaum að Tim Duncan er einn besti körfuboltamaður allra tíma, er heldur betur kominn tími á það.
Og ekkert væl um að San Antonio sé leiðinlegt lið. Þú hefur ekki hundsvit á körfubolta ef þú heldur slíku fram.
San Antonio kann að hafa verið dálítið leiðinlegt lið þegar það var að vinna titlana forðum, en á allra síðustu árum hefur Popovich gjörbylt spilamennsku liðsins og breytt því úr Land Rover í Lamborghini.
Allt í einu varð San Antonio eitt besta sóknarlið deildarinnar.
Þessi leikaðferð dugar alltaf í 50+ sigra í deildakeppninni, en undanfarin ár hefur vantað herslumuninn í úrslitakeppninni.
Liðið var mjög nálægt því að gera góða hluti í fyrra þegar það vann fyrstu 10 leikina sína í röð í úrslitakeppninni áður en það steinlá einhvern veginn fyrir Oklahoma (eftir að hafa komist 2-0 yfir).
Vonir Spursara í vor eru hátt spenntar, því liðið hefur verið miklu betra í varnarleiknum í vetur en það var í fyrra og eflaust má skrifa hluta af því á endurholdgun Tim Duncan.
Heilsufar lykilmanna er þó alltaf stóra spurningamerkið og sumir ganga svo langt að ætla Lakers að slá San Antonio út í fyrstu umferð út af meiðslavandræðum Tony Parker, Manu Ginobilli og Boris Diaw svo einhverjir séu nefndir.
Við ætlum nú ekki að ganga svo langt, en við verðum að veðja á móti Spurs í úrslitakeppninni af því við afskrifuðum liðið sem meistarakandídat fyrir svo löngu síðan. Þýðir ekkert að ætla að taka einhvern Reykhás á það.
Það fer samt enginn gráta á skrifstofu NBA Ísland ef San Antonio gerir góða hluti í úrslitakeppninni. Við berum óhemju virðingu fyrir þessum snillingum og þú ættir að gera það líka.
Efnisflokkar:
Gregg Popovich
,
Manu Ginobili
,
Ógnarstyrkur
,
Sigurgöngur
,
Spurs
,
Tim Duncan
,
Tony Parker
,
Velgengni