Enn einu sinni er körfuboltavertíðin farin af stað hérna heima á klakanum. Um leið og við heyrum boltann skoppa og ískrið í skónum, hefst fuglasöngur í hjörtum okkar því þá er stutt í jólin.

Það er ekki tímabært að ræða strategíu eða spilamennsku í þessum leik, en það sem er ofar á baugi er að skoða leikmannamálin.
Stjarnan hefur endurheimt sjálfan Kjartan Atla Kjartansson í skotbakvarðarstöðunni og er það afar jákvætt. Ká Joð er óhemju jákvæður maður sem sómi er að fá aftur í úrvalsdeildina eftir að hann tók Riley-inn með FSu.
Sem dæmi um jákvæðni Kjartans má nefna að hann hefur ákveðið að leyfa Marvin Valdimarssyni að halda treyjunúmerinu sínu (4) og spilar því í búningi númer sjö í vetur.

Ekki er vitað hvernig verður með tvíburana í miðjunni, en það er gaman að geta þess að hinn efnilegi fyrrum FSu-maður Lil Marv er genginn til liðs við bróður sinn Marvin Valdimarsson í Stjörnunni.
Lil Marv heitir réttu nafni Sæmundur Valdimarsson, en mun að öllum líkindum ganga undir nafninu Lil Marv hér á síðunni þangað til hann treður yfir einhvern í leik.

Erlendur leikmaður Stjörnunnar er í okkar huga dálítið spurningamerki, en hann mun einmitt ganga undir nafninu Erlendur þangað til hann sannar sig.
Verður trúlega ekki eini maðurinn sem fær það gælunafn á haustmánuðum.
Eitt af því skemmtilegasta við haustleikina er að sjá hvernig ungu mennirnir hafa varið sumrinu.
Hafa þeir verið duglegir að æfa? Munu þeir bæta sig og taka við stærra hlutverki í vetur?
Okkur skilst að Dagur Kár Jónsson hafi gert meira en að tana sig og skerpa hárgreiðsluna í sumar og það verður óhemju áhugavert að fylgjast með pilti í vetur.
Þar er á ferðinni einn af áhugaverðustu ungu leikmönnum deildarinnar. Hann fær væntanlega stærri rullu hjá Teiti í vetur.
Hvað Njarðvíkurliðið varðar verður ekki auðvelt fyrir það að toppa síðasta vetur þegar það fór fram úr væntingum flestra. Þar á bæ eru líka margir vel þjálfaðir ungir og efnilegir piltar sem gaman verður að skoða í vetur.