Tuesday, July 17, 2012

Það sem þú þarft að vita um landslið Bandaríkjanna:


Um þessar mundir eru tuttugu ár síðan hið svokallaða Draumalið Bandaríkjanna í körfubolta vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona. Margir hallast að því að þetta hafi verið besta boltaíþróttalið allra tíma og það er ekki langt frá lagi, enda nokkrir af bestu leikmönnum í sögu leiksins í bandaríska liðinu.

Á tímamótum sem þessum er við hæfi að staldra við og líta til baka og það hafa bandarískir fjölmiðlar svo sannarlega gert. Undanfarnar vikur höfum við séð ótal viðtöl og greinar við leikmenn og aðra spekinga þar sem menn velta fyrir sér hvernig Ólympíuförum Bandaríkjanna í dag tækist til ef þeir hefðu mætt liðinu frá 1992.

Deron Williams, leikstjórnandi Nets og liðs Bandaríkjanna í dag, var fullur virðingar og sagði að Draumaliðið væri einfaldlega besta lið sem sett hefði verið saman og því hefði það líklega unnið 2012 útgáfuna sem er á leið á leikana í London.

Kobe Bryant var ekki eins hógvær og auðvitað sagði hann að 2012 strákarnir hefðu í fullu tré við forvera sína frá Barcelona.

Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvaða skoðun við höfum á þessu.

Bandaríska liðið í dag ætti aldrei, aldrei möguleika gegn ´92 liðinu. Okkur er nákvæmlega sama hvað þú heldur um það. Nægir að nefna þá fádæma yfirburði sem ´92 liðið hefði í teignum með þá Robinson, Ewing, Malone og Barkley.

Það er meira að segja algjör óþarfi að tefla fram Jordan-trompinu, sem að sjálfssögðu bindur enda á allar þrætur um hvort liðið væri betra.

Stærsti munurinn á þessum liðum hefur þó ekkert með teiginn eða Jordan að gera. Ástæðan fyrir því að liðið í dag ætti aldrei möguleika gegn gömlu mönnunum er einfaldlega sú að ´92 liðið var miklu betur skólað en liðið í dag.

Flestir leikmenn ´92 liðsins áttu að baki farsælan feril í háskólaboltanum og voru betur að sér í grunnatriðum leiksins.

Liðsandinn var frábær og hver einasti leikmaður Draumaliðsins var tilbúinn að láta lífið fyrir land og þjóð.

Forsprakkar ´92 liðsins vildu frekar deyja en tapa, voru sumir hverjir hálf geðsjúkir keppnismenn og áttu að baki fjölda meistaratitla.

Þá er ótalin sú staðreynd að þrír þekktustu leikmenn Draumaliðsins gerðu sér lítið fyrir og lyftu íþróttinni á hærra plan með frammistöðu sinni. Magic Johnson og Larry Bird voru fánaberar NBA deildarinnar í upphafi níunda áratugarins þegar einvígi þeirra tveggja og auknar sjónvarpsútsendingar ýttu af stað byltingu sem Michael Jordan kórónaði svo á áratugnum sem á eftir kom.

Já, það var engin tilviljun að mótherjar Draumaliðsins létu taka myndir af sér með Bandaríkjamönnunum og gerðu það meira að segja fyrir leiki en ekki eftir þá eins og eðlilegra hefði talist.

Það er ekki hægt að setja saman eitt stykki Draumalið án þess að einhver fari í fýlu og þannig fór árið 1992 að það var Isiah Thomas hjá Detroit Pistons sem móðgaðist þegar hann var ekki valinn í þetta sögufræga lið.

Sagan segir alltaf að Thomas hafi ekki fengið að fljóta með vegna illdeilna hans við Michael Jordan, en staðreyndin var nú reyndar sú að Thomas var búinn að brenna nokkrar brýr að baki sér og flestir leikmanna Draumaliðsins voru ósköp fegnir að vera lausir við hann. Isiah átti ef til vill skilið að vera valinn í þetta lið, en hann var of mikið fífl til að fá það í gegn.

Aðrir leikmenn hefðu ef til vill mátt fara í meiri fýlu en Isiah Thomas yfir því að fá ekki að fara til Barcelona og þar nægir að nefna liðsfélaga hans hjá Detroit, Joe Dumars, sem reyndar eins og flestir sem fengu ekki að vera með ´92, fékk síðar tækifæri til að spila fyrir þjóð sína.

Ólympíuleikarnir árið 1992 voru auðvitað sérstakir fyrir þær sakir að þá fengu atvinnumenn Bandaríkjanna loksins að vera með, en fram að því hafði bandaríska liðið samanstaðið af guttum úr háskólaboltanum sem þó gerði jafnan fína hluti.

Þegar svo fékkst í gegn að tefla fram atvinnumönnunum árið 1992, dugði ekkert minna en að fá þá frægustu og bestu - gera þetta með stæl.

Eitt af fyrstu verkum Ólympíunefndarinnar var að sjálfssögðu að hringja í Michael Jordan, sem þá þegar var orðinn konungur NBA deildarinnar og líklega þekktasti og vinsælasti íþróttamaður jarðar á þeim tíma.

Með Jordan voru teknir nokkrir yfirburðamenn í deildinni sem augljóslega áttu heima í liðinu, en þar að auki fékk Magic Johnson að fljóta með þrátt fyrir að vera nýbúinn að greinast með HIV.

Vinur Johnson og erkifjandi á vellinum, Larry Bird, samþykkti svo að skottast með til Barcelona þrátt fyrir að vera orðinn gjörsamlega ónýtur í skrokknum, en hann lagði skóna á hilluna eftir leikana.

Hinn skemmtilega óþolandi Christian Laettner fékk einhverra hluta vegna sæti í Draumaliðinu, en hann var þá við það að koma inn í NBA deildina eftir einn besta háskólaferil sem sögur fara af. Hann var þó fjarri því besti nýliðinn í deildinni þetta árið og auðvitað hefði Shaquille O´Neal miklu frekar átt að fá sæti í liðinu en Laettner, sem var með skipt í miðju og klæddist rúllukragabolum.

Þeir leikmenn sem helst var rifist um að hefðu átt að spila fyrir hönd Bandaríkjanna á kostnað manna eins og Laettner voru Shaquille O´Neal sem þá var á leið til Orlando Magic, Joe Dumars hjá Detroit, Dominique Wilkins hjá Atlanta, James Worthy hjá LA Lakers. Tveir leikstjórnendur áttu svo til að mynda betri leiktímabil en Isiah Thomas þetta árið og það voru Mark Price og Tim Hardaway.

Já, það var sannarlega feykinóg af mannskap í NBA deildinni á þessum árum.

Af því við hérna á ristjórn NBA Ísland erum alltaf að leika Guð, ákváðum við að leika okkur aðeins með bæði Draumaliðið og landslið Bandaríkjanna í dag.

Við ákváðum að skipta út mönnum sem í raun voru ekki í nógu góðu standi eða hreinlega ekki nógu góðir - og búa til sterkasta Draumalið sem mögulegt var á þessum tíma.

Þá lékum við okkur að því að athuga hvaða leikmenn úr 2012 liði Bandaríkjanna hefðu mögulega átt eitthvað erindi í Draumaliðið eða getað gert það sterkara. Það var reyndar ekki tímafrek aðgerð.

Eins og áður sagði átti Christian Laettner ekkert erindi í liðið og ef við hefðum þurft að taka háskólagutta inn í liðið hefði Shaquille O´Neal að sjálfssögðu orðið fyrir valinu. Larry Bird blessaður var auðvitað á felgunni og í sannleika sagt hefði Dominique Wilkins líklega hjálpað bandaríska liðinu meira en Bird og mjög örugglega skemmt áhorfendum betur.

Magic Johnson stóð sig með ágætum með Draumunum þrátt fyrir allt sem á gekk hjá honum og líklega hefðum við leyft honum að sigla með hópnum, en þó má deila um hvort hefði ekki verið heppilegra að senda annað hvort Mark Price eða Joe Dumars með í hans stað.

Mark Price var á hátindi ferils síns á þessum árum, góður leikstjórnandi og alveg baneitruð skytta sem hefði reynst liðinu vel - og átti eftir að gera það síðar. Þá var Dumars þeim kostum gæddur að vera úrvals varnarmaður og gat líka spilað báðar bakvarðarstöðurnar, sem gefur honum aukið vægi. Reyndar voru Bandaríkjamennirnir ekki mikið að hafa áhyggjur af leikstöðum og létu Scottie Pippen oft spila stöðu leikstjórnanda, enda leysti hann það með sóma og naut sýn vel í henni á opnum velli þegar svo bar undir.

En hvaða leikmenn í dag gætu hjálpað Draumaliðinu eins og það var uppsett 1992?

Tvær mjög nauðsynlegar tegundir körfuboltamanna eru að verða útdauðar í NBA deildinni í dag, en það eru alvöru miðherjar annars vegar og góðar skyttur hinsvegar. Þessi skortur gerir það að verkum að fáir af leikmönnum Bandaríkjanna í dag kæmust í Draumaliðið.

Við ætlum þó að vera góðhjörtuð og teljum að nokkrar hrókeringar með mönnum úr NBA í dag gætu styrkt Draumaliðið.

Sem fyrr en Laettnerinn fyrsti maður út og inn fyrir hann kemur Kevin Durant. Við tökum Durant með af því hann á sér engan líkan, getur skorað hvaðan sem er af vellinum og er gjörsamlega ódekkanlegur.

Þá liggur beinast við að gefa Larry Bird frí og leyfa honum að hvíla bakið. Í stað hans kemur maður sem er álíka fjölhæfur og spilar sömu stöðu - besti körfuboltamaður heims í dag - LeBron James.

Þá er bara spurning hvort við eigum að leyfa Magic karlinum að hanga á því. Ef ekki, tækjum við Deron Williams til að sjá um leikstjórn Draumaliðsins ásamt John Stockton, Einhver tæki líklega Chris Paul, við kjósum heldur að taka stærri og sterkari ás sem veldur léttari mótherjum endalausum höfuðverk á báðum endum vallarsins.

Kobe Bryant, spyrðu? Hann er kominn með full margar mílur á hjólbarðana og af hverju að pakka Pepsi ef þú ert þegar með Kók (Jordan)?

Það er búið að vera gaman að leika sér svona með Draumaliðið, en okkur þykir nauðsynlegt að taka fram að ef þeir Magic og Bird hefðu verið eitthvað nær miðjum ferli, hefðu þeir að sjálfssögðu verið með fyrstu nöfnunum á listann.

Þegar talað er um lið sem hefðu getað velgt Draumaliðinu undir uggum er nærtækast að taka liðin sem komu á eftir, en þar voru flestir af leikmönnunum sem við töldum upp hér fyrir ofan en komust ekki í Draumaliðið.

Síðar áttu svo eftir að koma inn í lið Bandaríkjanna menn eins og Hakeem Olajuwon og hann einn - og nokkrar góðar skyttur - hefðu klárlega getað hrist upp í Draumaliðspiltum.

Þetta eru okkar spekúlasjónir þegar kemur að bandaríska landsliðinu í körfubolta. Líklega eru flestir ósammála þessu en þegar kemur að öðrum eins snillingum og taldir hafa verið upp hér að ofan, er varla hægt að velja ranga menn - þeir eru allir frábærir.

En látum nú þessari pælingu lokið.