Thursday, December 9, 2010
Sigrarnir hrannast upp í Eplinu Stóra
Eftir að hafa byrjað leiktíðina 3-8, hefur New York skyndilega unnið 10 af síðustu 11 leikjum sínum. Það er ekkert annað en ótrúlegt, sama hvernig litið er á það.
Fæstir af þessum sigrum hafa verið á móti liðum sem munu keppa um meistaratitilinn (níu þeirra á móti sannkölluðum skítaliðum), en það skiptir ekki máli.
Liðið er að spila umfram væntingar þessa dagana. Umfram eðlilegar væntingar, það er að segja, ekki væntingar heimamanna sem stefna auðvitað alltaf í úrslitakeppnina.
New York hefur allan veturinn til að koma sér niður á jörðina og fara að tapa leikjum aftur, en við verðum að gleðjast aðeins með þessum fjölmörgu stuðningsmönnum Knicks, sem eru búnir að vera í þunglyndiskasti í áratug.
Það áhugaverðasta við sigurgöngu New York er frammistaða Amare Stoudemire. Margir sögðu að hann ætti eftir að verða miðlungsleikmaður þegar hann fór úr þjónustunni hjá Steve Nash en annað er að koma á daginn. Hann er með 30/10 meðaltal á sigurgöngunni.
Raymond Felton hefur líka verið að fá mikið props fyrir leik sinn, rétt eins og nýliðinn Landry Fields og þjálfarinn Mike D´Antoni fyrir að breyta um áherslur í sókninni til að nýta styrk leikstjórnanda síns.
Við skorum á stuðningsmenn New York Knicks að taka þessa sigurgöngu og koma henni fyrir inni í búri. Þeir geta þá laumast inn og fengið sér bita af henni eftir áramótin þegar veturinn skellur á af fullum þunga.