Thursday, December 16, 2010
MSGarðurinn rokkar á ný
Kunnugir segja að stemmingin sem var í Madison Square Garden í nótt hafi verið einhver sú besta í áratug.
New York-menn máttu sætta sig við tap fyrir sjóðheitum Boston Celtics, en úrslit leiksins réðust á síðustu sekúndu.
Við töluðum um það hérna um daginn að við mættum ekki gleyma okkur í gleðinni þó Knicks væru að vinna nokkra leiki.
Prógrammið hjá liðinu hefur verið eins létt og hægt er, en þó megum við ekki taka það af þeim að þeir hafa verið að klára þessa leiki með sóma.
Amare Stoudemire er að láta ansi marga (aðallega okkur) líta illa út með frábærum leik sínum undanfarið. Níu leikir í röð með 30+ stig hjá honum og gamall kraftur farinn að taka sig upp á ný.
Gaman að sjá þetta og gaman að sjá MSG rokka aftur. Það vantar alltaf eitthvað í NBA deildina þegar Knicks eru í ruglinu.
Stuðningsmenn liðsins eiga skilið að fari að birta til hjá félaginu og þessi sigurganga liðsins að undanförnu hefur sannarlega létt stemmarann í Eplinu Stóra.