Wednesday, November 24, 2010

Þjálfari Atlanta segir liðið nenni ekki að spila körfubolta


Það vakti nokkra athygli þegar Atlanta vann fyrstu sex leiki sína á leiktíðinni. Liðið komið með nýjan þjálfara í Larry Drew og planið var að reyna að hrista upp í einhæfum og fyrirsjáanlegum sóknarleik liðsins.

Drew hefur lagt nótt við dag til að reyna að kenna leikmönnum sínum flex-sóknarleik og í fyrstu leikjum tímabilsins var ekki annað að sjá en að það hefði tekist. Menn voru að hreyfa sig án bolta og meira að segja "Iso" Joe Johnson var að taka þátt í fjörinu.

Síðasta keppnistímabil endaði eins ömurlega og mögulegt var hjá Atlanta. Liðinu var sópað út af Orlando í seríu þar sem Orlando setti met með því að vinna leikina fjóra samtals með 100 stigum. Það var grátlegt að horfa á Atlanta liðið. Það gafst bara upp. Mike Woodson þjálfari átti ekki séns og Drew fékk starfið hans í sumar.

Nú hefði það átt að kveikja vel í Atlanta liðinu í þessu nýja sýstemi að vinna fyrstu sex leiki sína í vetur (þó það hafi raunar verið gegn nokkuð slökum andstæðingum) en annað hefur heldur betur komið á daginn. Næstu fjórir leikir liðsins voru gegn liðum sem voru í úrslitakeppninni í fyrra og töpuðust þeir allir.

Á mánudagskvöldið spilaði liðið við Boston (án Rajon Rondo) á heimavelli og var gjörsamlega slátrað þar sem lokatölur voru 99-76. Það sem á eftir kom, varð tilefni þessarar færslu. Við sáum upptöku af blaðamannafundi eftir leik Atlanta og Boston þar sem Drew þjálfari sat fyrir svörum. Hann orðaði það pent og fallega, en hann hraunaði gjörsamlega yfir liðið með öllum sínum orðaforða - í sjö mínútur. Það sem hann var að segja í svona löngu máli var einfaldlega að leikmennirnir nenntu ekki að leggja sig fram - hefðu ekki áhuga á verkefninu.

Það góða við NBA deildina er að næsti leikur er aldrei langt undan. Næsti leikur hjá Atlanta var á móti New Jersey Nets og það ætti nú að vera flottur leikur til að taka þjálfarann á orðinu og taka almennilega á því. Spila á fullu og sýna hvað í liðinu býr þegar það er í anda.

Nei

Sama drullan uppi á teningnum og niðurstaðan tap í framlengingu. Bæði lið voru hræðileg en Atlanta verra. Við sögðum það í vor og segjum það aftur núna - það þarf að brjóta þetta lið upp. Þetta er bara rugl. Forráðamenn félagsins eru væntanlega hæstánægðir með milljarðana sem þeir hafa skuldbundið sig til að borga Joe Johnson næstu árin.

Það hlýtur að vera rosalega niðurdrepandi að vera stuðningsmaður Atlanta Hawks.