Wednesday, April 7, 2010
NBA Ísland hefur ekki áhyggjur af Doberman-hvolpunum í Oklahoma
Leikur Utah og Oklahoma í gær var einn fjörugasti og besti leikur tímabilsins í NBA.
Utah hafði betur 140-139 eftir æsilegar lokamínútur og framlengingu og vann þarna sinn tíunda leik í röð í Orkulausnahöll.
Deron Williams (42 stig, 10 stoðs) og Kevin Durant (45 stig) fóru með aðalhlutverk.
Kevin Durant undirstrikaði þarna endanlega fyrir okkur að hann er orðinn algjör elítuleikmaður.
Það er stutt síðan Kevin Garnett hjá Boston þurfti að punga út þremur milljónum króna fyrir að segja að dómarar væru farnir að flauta fyrir Durant líkt og um Michael Jordan væri að ræða.
Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þriggja milljón króna sekt, svo við getum alveg sagt sem er að þetta er hárrétt hjá Garnett. Durant fær talsvert mikið af undarlegum flautum frá dómurum. En hann hefur að hluta til unnið sér það inn. Hann er með einstaka blöndu hæðar, hraða, tækni og hæfileika. Nánast óstöðvandi sóknarmaður.
Það var gaman að lesa pistil J.A. Adande á ESPN um leik Utah og Oklahoma í nótt. Hann horfir nær eingöngu á þá staðreynd að Durant fékk ekki dæmda villu á C.J. Miles þegar hann reyndi að tryggja Oklahoma sigurinn með skoti um leið og leiktíminn rann út.
Sjáðu það hér.
Miles virtist verja skotið en kom mögulega eitthvað við sóknarmanninn líka. Durant hefði að öllum líkindum átt að fá dæmda villu og við erum enn ekki farin að fatta af hverju dómararnir gleyptu flauturnar í lokin eftir að hafa unnið með honum allan leikinn.
Það var ekki lokaskotið sem skipti okkur höfuðmáli. Öll hin skotin sem hann raðaði niður sýndu meira, þegar hann sneri töpuðum leik í naglbít með tilþrifum sínum.
Durant var skapahári frá því að tryggja Oklahoma sigur í venjulegum leiktíma með fade-away þristi milli miðju og þriggja stiga línu. Það var samt "gott skot" og hann hafði minna fyrir því að taka þetta skot en flestir sem taka viðlíka skot frá vítalínu. Maðurinn er fæddur skorari. Stórkostlegur leikmaður. Og menn eins og Jeff Green verða auðvitað líka að fá props fyrir vasklega framgöngu.
J.A. Adande tekur svo djúpt í árina að segja að þetta "no call" hjá Durant í lokin sé eitt og sér nóg til að halda því fram að Oklahoma sé ekki tilbúið að gera neinar rósir í úrslitakeppninni. Les meira út úr einni sekúndu en heilum leik plús framlengingu. Kommon. Við eigum það nú til að dramatísera hérna á NBA Ísland, en þetta er of mikið af svo góðu.
Hvað með þá staðreynd að Oklahoma var aðeins einu skoti frá því að sópa Jazz (sem er í öðru sæti Vesturdeildar) 4-0 í deildakeppninni?
Það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með Oklahoma í úrslitakeppninni og svo næstu tvö árin.
Þetta lið er búið að vera spútniklið ársins í NBA í vetur, en það getur verið erfitt að fylgja slíku eftir. Það er áskorun.
Oklahoma minnir okkur stundum á æsta hvolpa sem eru of ákafir, kátir og vitlausir til að átta sig á hættuástandi.
Ef haldið verður rétt á spöðunum hjá félaginu, gætu þessir hvolpar vaxið í að verða flokkur af hungruðum Dobermanhundum í nánustu framtíð.
Við hefðum frekar kosið að líkja Oklahoma við Rottweilerhunda þar sem þeir eru miklu hrikalegri en Dobermanhundar, en þú þarft ekki að líta nema einu sinni á leikmannahóp Thunder til að átta þig á Doberman-líkingunni.
Einn moli svona í lokin.
Þeir segja að það sé ekki sama hvort það er Jón eða Séra Jón.
Það er jú alveg rétt. Sjáið bara fyrirbærið skuldaniðurfellingu á Íslandi.
Svona lagað er líka að finna í NBA.
Það sem reyndist vera sigurkarfa Deron Williams hjá Utah gegn Oklahoma í gær - þegar ein sekúnda var til leiksloka í framlengingu - var víða kallað "go-ahead basket" í fjölmiðlum eftir leikinn.
Ekki "winning basket", "winning shot" eða "game winner"
Hvað heldurðu að karfan hefði verið kölluð ef Kobe Bryant eða LeBron James hefðu skorað hana?