Wednesday, January 27, 2010
Yfirlýsingar tengdar iljarfellsbólgu
Hvar sem við komum, hópast að okkur fólk sem öskrar í áttina til okkar sömu spurningunni.
Hvað er að San Antonio liðinu?
Það er ekki skrítið að fólk sé að spyrja. Reyndar er ekki eins og San Antonio sé í einhverri botnbaráttu. Mörg lið í deildinni væru eflaust fegin að vera með 25 sigra og 18 töp það sem af er í vetur, en við erum jú að tala um San Antonio - ekki Minnesota.
Spurs var teiknað upp sem sofandi risi í Vesturdeildinni í haust. Liðið fékk m.a. til sín Richard Jefferson og Antonio McDyess, fékk flottan nýliða og var með unga gutta í sínum röðum sem áttu að hjálpa þeim Duncan, Parker og Ginobili að eiga séns á einum titli í viðbót.
En af hverju hefur San Antonio þá tapað fimm af síðustu sex leikjum?
Af hverju hefur liðið tapað þremur heimaleikjum í röð í fyrsta sinn í tíð Tim Duncan?
Og af hverju hefur liðinu verið sópað í fyrsta sinn í fjögurra leikja seríu í deildakeppninni síðan Duncan kom inn í deildina?
Gæti það verið af því að:
*Tony Parker er að spila með iljarfellsbólgu og það er ástæðan fyrir því að hann hefur ekki verið líkur sjálfum sér í vetur. Ef þú ert að spá í hvað iljarfellsbólga er, nægir að spóla aftur til ársins 2006 og spyrja af hverju San Antonio vann ekki titilinn það ár. Það var af því Tim Duncan þjáðist af þessu leiðindafyrirbæri.
*Manu Ginobili er enn ekki 100% heill eftir langvarandi ökklameiðsli og það er alls ekki víst að við fáum að sjá Manu ná fyrri styrk. San Antonio vinnur ekki titil án hans. Það er bara svo einfalt.
*Richard Jefferson er með tvo tankbíla frá Hreinsitækni í eftirdragi alla daga til að þrífa upp eftir sig skituna sem hefur dreift um götur San Antonio. Eins og allir héldu að þessi maður ætti eftir að smella inn í liðið, er hann enn úti á þekju og skugginn af þeim manni sem hann var hér fyrir nokkrum árum.
*Varnarleikur liðsins er helmingi lakari en hann var fyrir þremur árum. Nú er enginn Bruce Bowen og Tim Duncan getur ekki spilað eins og hann sé 21 árs endalaust (Þó hann sé reyndar næstum því að gera það).
Þessir punktar hér fyrir ofan fara langt með að útskýra vandræðin á San Antonio, en þó ekki alveg. Það getur nefnilega vel verið að San Antonio sé bara brunnið yfir á tíma. Kjarninn í liðinu sé bara barinn og saddur og búinn með kvótann. San Antonio hefur verið svo ógnarsterkt og stöðugt lið síðasta áratuginn að enginn hefur þorað að veðja á móti því.
Við ætlum ekki að dæma liðið úr leik alveg strax, en ætlum samt að mála okkur aðeins út í horn hérna - bara svona fyrir ykkur.
Spurs-liðið fer nú brátt í hina árlegu Ródeó-keppnisferð þar sem það spilar átta útileiki í röð dagana 3.-21. febrúar. Þetta hefur oftar en ekki verið tímapunkturinn sem liðið smellur saman og setur í fluggírinn fyrir vorið.
Við tökum stöðuna hjá Spurs sem sagt þann 21. febrúar og ef keppnisferðalagið tekst illa, ætlum við að gera okkur lítið fyrir og dæma Spurs úr leik sem topplið í NBA í eitt skipti fyrir öll með þennan mannskap.
Það yrðu góð tíðindi fyrir Lakers-menn ef svo væri, því að okkar mati er San Antonio (á fullum styrk) eina liðið í Vesturdeildinni sem gæti mögulega aftrað því að Lakers fari auðveldlega í lokaúrslitin þriðja árið í röð. Sorry, stuðningsmenn Dallas og Denver. Þannig er það bara.