Thursday, January 28, 2010

Tuggur


Í nótt verður tilkynnt formlega hvaða leikmenn voru valdir sem varamenn í stjörnuleikinn í næsta mánuði. Af hverju að bíða, þegar þú getur séð það hér.


*Um leið og við slepptum pennanum eftir að hafa drullað yfir San Antonio, átti liðið einn sinn besta leik á tímabilinu og valtaði yfir Atlanta. Fyrirsjáanlegt. Tim Duncan með 27 fráköst og allt. En auðvitað meiddist Tony Parker á sama auma ökklanum til að sverta gott kvöld fyrir kúrekunum.


*Chicago er allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð í þriðja sinn á stuttum tíma. Og allir sigrarnir á útivelli. Phoenix, Houston, San Antonio og nú síðast Oklahoma. Á íslensku kallast það helvíti góður árangur. Furðulegt að liðið hafi samt tapað útileikjunum tveimur þar á undan gegn Golden State og Clippers. Dæmigert fyrir svona jójó lið.


*Denver er búið að vinna átta leiki í röð. Á íslensku kallast það "við erum næstbesta liðið í Vesturdeildinni og ef þú hefur eitthvað við það að athuga látum við húðflúrarann hans J.R. Smith sækja börnin þín á leikskólann á morgun."


*Clippers-liðið lét New Jersey drulla yfir sig í gær og stöðva 11 leikja taphrinu. New Jersey myndi tapa fyrir Mostra á góðum degi og þó öll lið geti átt sína slæmu daga - þá tapar maður ekki fyrir New Jersey. Það er betra ástand í íslenskum stjórnmálum en á LA Clippers. Stuðningsmönnum þessarar höltu heróínánetjuðu vændiskonu af liði væri hollast að binda enda á líf sitt, svo sorglegur er þessi guðsvolaði klúbbur.