Friday, January 29, 2010
Orlando þarf að spila körfubolta
Í nótt vorum við alvarlega að hugsa um að tæta Orlando-liðið í okkur eins og soltnar hýenur. Hættum við það eftir að Magic stal sigrinum af Boston á síðustu stundu.
Það er erfitt að koma auga á það, en það bara vantar eitthvað í þetta Orlando-lið. Svona til að það verði alvöru og fari jafnvel aftur í úrslitin. Tveir sigrar í þremur leikjum gegn Boston í vetur breyta engu um það.
Kannski vantar Orlando bara tyrkneskan framherja sem spilar eins og leikstjórnandi.
Kannski vantar liðið miðherja sem er grimmari en leikskólastelpa með þrjár nýjar Barbie-dúkkur.
Og kannski vantar liðið ekki ofmetinn skotbakvörð með hjarta á stærð við usb lykil.
Og Boston? Það liggur ekkert á að skrifa skýrslu um þá grænu.
Boston er búið að sýna og sanna allt sem við þurfum að sjá. Nema hvort það getur haldið heilsu fram á vorið og mætt heilt í slaginn í úrslitakeppninni. Og um það getum við ekki dæmt fyrr en lóan verður á kantinum.
Þangað til skulum við bara njóta þess að horfa á Rajon Rondo vaxa og Rasheed Wallace eyða ósonlaginu með langskotum og tæknivillum.