Friday, January 29, 2010
Barkley segir að Howard kunni ekki að spila körfubolta
Það er gott að vita að við erum ekki ein um að láta Dwight Howard fara í taugarnar á okkur. Spólaðu fram í 8:40 í myndbandinu hérna fyrir ofan og sjáðu Charles Barkley benda á þá einföldu staðreynd að Howard kann ekki undirstöðuatriðin í stórkallasóknarleik.
Dirk Nowitzki kann þetta reyndar ekki heldur, en Dirk er besta sjö feta háa skyttan í sögu NBA, svo það skiptir minna máli fyrir hann.
Eftir að hafa skoðað það betur, kemur í ljós að það er hægt að kenna Kevin Garnett alfarið um tap Boston gegn Orlando í gær. Hvað var KG að gera þarna í lokin þegar Lewis keyrði fram hjá honum?
Fyrir þennan leik hafði Boston 86 sinnum farið með 10+ stiga forskot inn í fjórða leikhluta síðan Garnett og Ray Allen komu til liðsins - og unnið sigur í öllum þessum leikjum. Þeirri rispu lauk sem sagt í gær, enda var liðið 11 stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta og mest 16 yfir áður en Orlando tók völdin á vellinum.
Phoenix var búið að tapa 18 leikjum í röð í beinni útsendingu á TNT áður en liðinu tókst að merja sigur á Dallas í nótt.
Einn frá Charles Barkley í lokin: "Hvað kallarðu kraftframherja sem hirðir ekki 10 fráköst að meðaltali í leik? Lítinn framherja."