
Í ár verður stjörnuleikurinn reyndar af dýrari gerðinni á Kúrekavellinum í Dallas þar sem vonir standa til um að fá eitthvað nálægt 100 þúsund manns á völlinn.
Þó herlegheitin séu ekki fyrr en um miðjan febrúar er strax farið að bera á fréttum frá kosningunni í byrjunarliðin. Ein þeirra olli okkur talsverðri ógleði, en það er sú staðreynd að enn er ekki loku fyrir það skotið að Tracy McGrady verði kosinn í byrjunarlið Vesturdeildarinnar þrátt fyrir að hafa ekki spilað körfubolta síðan Keith Richards var síðast edrú.
Ætli T-Mac geti ekki þakkað frændum sínum í Kína þessar gríðarlegu vinsældir. Það er gott að spila með Yao Ming þegar kemur að treyjusölu og vinsældakosningum.
Við héldum samt að væri lágmark að geta staðið í lappirnar til að eiga möguleika á að spila stjörnuleik. Þeir ætla kannski að kjósa Yao, Greg Oden og Christopher Reeve þarna inn líka...