Friday, May 20, 2016

Leikmaður ársins í máli og myndum


Við vitum ekki hvort myndir segja endilega meira en þúsund orð, en við vorum samt að fatta að það er mögulegt að lýsa þessum ævintýralega vetri sem Stephen Curry átti með nokkrum myndum.

Líf NBA-leikmannsins snýst mikið um rútínu, ekki síst hjá skyttum eins og Curry. NBA leikmenn halda flestir fast í að gera sömu hlutina fyrir leiki, borða eins, æfa eins, hita eins upp, skjóta eins og teygja eins.

Stephen Curry er með svona rútínu, en skrumið í kring um hann var orðið svo mikið í vetur að það fór að bera á því að fólk var að mæta klukkutíma fyrir leik bara til að sjá hann hita upp.



Skotrútínan hans er enda löngu orðin goðsagnarkennd, þar sem hann býður áhorfendum jafnan upp á skot frá miðju og utan af gangi áður en hann skokkar aftur inn í klefa. Það sem meira er, þá hittir drengurinn úr þessum skotum!

Þið munið kannski eftir því hvernig hann hafði þetta fyrir annan Oklahoma-leikinn á dögunum. Þá hitti hann meðal annars fimm skotum í röð frá miðjuhringnum á vellinum. Ef þú heldur að það sé eitthvað eðlilegt, eru allnokkrar líkur á því að þú kjósir Ólafíu Hrönn eða Unimog í forsetakosningunum í sumar.



Eitt er dálítið sérstakt við Curry, en það er hvað hann gefur sér extra langan tíma með bolnum - fólkinu sem vill fá eiginhandaráritanir eða myndir með goðinu sínu fyrir leik. Svona athafnir eru óhollar fyrir menn sem kunna ekki að höndla þær (t.d. ef þeir eru með viðkvæmt eða óstöðugt egó), en Curry er kurteis, tekur öllum vingjarnlega og er rígbundinn við jörðina þó að allur körfuboltaheimurinn sé að tala um hann.



Þegar leikurinn hefst, er kominn Curry-tími, tími til að skína bjart. Sumsé, skjóta allt í kaf, eða beisikklí skjóta allt til andskotans bara!

Það sem fylgir á eftir er er í 90% tilvika sigur - og oftast er það Curry sem hreppir fyrirsagnirnar og þá er alveg sama hvaða miðill er að fjalla um málið. Heimurinn er hægt og bítandi að kveikja á því hvað Curry er að gera.

Hann selur fleiri treyjur en nokkur annar leikmaður NBA deildarinnar og er vinsælasti leikmaðurinn í dag samkvæmt vísindalegum könnunum. Það er fjallað um hann í New York Times, á NBA Ísland, í Frankfurter Allgemeine og á heimasíðu Álnabæjar.*



Sumir leikmenn eru svo heppnir að losna snemma í burtu þegar leikjunum lýkur. Hoppa bara í sturtu, svara tveimur spurningum og stinga af heim til sín, hendast í Húsasmiðjuna eða detta beint á djammið. Þetta er smekksatriði.

Curry getur ekki leyft sér þennan munað og þarf alltaf að gefa sér góðan tíma með fjölmiðlum. Hann fékk sérstök verðlaun um daginn fyrir það hvað hann gefur mikinn kost á sér og er yfir höfuð þægilegur við fjölmiðla.

Og til að trompa þetta allt saman, tekur hann hana Riley litlu dóttur sína stundum með á fjölmiðlafundi, þar sem hún er jafnan fljót að stela senunni með því að krútta allt og alla í drasl.



En undanfarið hefur verið enn meira að gera hjá Curry, því hann hefur þurft að vera að fara á auka fjölmiðlafundi af því hann er alltaf að vinna einhver verðlaun.

Magic Johnson verðlaunin fékk hann um daginn og svo endurtók hann náttúrulega leikinn frá í fyrra þegar hann var aftur kjörinn leikmaður ársins í NBA. Þá er ekki annað en að halda smá ræðu og þakka öllum nema sjálfum sér fyrir nafnbótina og vera ógeðslega hógvær og krúttlegur á meðan. Tékk!



Þegar hann svo loksins, loksins, loksins fær að fara heim, bíður hans litla sæta, krúttlega og fallega fjölskyldan hans og það er þar sem honum líður best. Stephen Curry er ekkert svo mikið fyrir skemmtistaði, súludansstaði eða fjárhættuspil. Vill frekar vera í faðmi fjölskyldunnar, sem er mjög samheldin eins og þið hafið væntanlega séð á leikjum Golden State.



Til er fólk sem trúir því ekki að Stephen Curry sé svona flekklaus maður. Hann sé bara allt of mikið krútt og fyrirmyndar eiginmaður sem gerir aldrei neitt af sér hvorki innan né utan vallar. Það sé of gott til að vera satt fyrir NBA að nýjasti sendiherra deildarinnar sé einfaldlega fullkominn maður sem á fullkomlega fallega móður og fullkomna fjölskyldu.



Það er alveg öruggt mál að það hafa margir blaðamenn reynt að grafa upp einhverjar gamlar syndir eða gömul leyndarmál sem tengjast Curry. Reynt að finna einhverja drullu. En það er augljóst að þeir hafa ekki fundið neitt.

Við veltum því fyrir okkur hvort Curry átti sig á því hvað það getur verið hættulegt að vera svona fullkominn, því það eru til mörg dæmi um að menn í þessum sporum hafi sprengt á sér hauskúpuna eða fengið allsherjar sprengigeðköst sem standa yfir í margar vikur.

Við vonum sannarlega að Curry eigi ekki eftir að vakna timbraður og minnislaus með kind í fanginu í baðkari á Blönduósi einn daginn. Það yrði ósanngjarnt fyrir svona vandaðan dreng, sem er svo mikið krútt að líklega væru flestir karlmenn til í að leyfa honum að fara á stefnumót með einkadætrum sínum ef hann væri á lausu.

Já, þvílíkur vetur hjá þvílíkum leikmanni.

-------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Við nánari athugun kom í ljós að það er víst engin umfjöllun um Stephen Curry á vefsíðu Álnabæjar akkúrat í augnablikinu. Beðist er velvirðingar á þessu.

Thursday, May 19, 2016

Leifturárás frá Curry kláraði Oklahoma


Allt byrjaði þetta undir lok annars leikhluta, sem getur verið hættulegur tími til að missa einbeitinguna í körfubolta. Þetta á ekki síður við þegar þú ert að spila við lið eins og Golden State Warriors, sem setur þig í fræsarann ef þú gerir mistök, ekki síst þegar það spilar á heimavelli.

Oklahoma var undir megnið af fyrri hálfleiknum í öðrum leik sínum gegn Golden State í úrslitum Vesturdeildarinnar í nótt. En Oklahoma-menn náðu góðri rispu upp úr miðjum 2. leikhlutanum og náðu að jafna leikinn þegar ein mínúta og 35 sekúndur voru til hálfleiks og staðan 49-49. 

Það skrifast ekki allar körfur á einbeitingar- eða kæruleysi, en þessir tveir faktórar voru sannarlega við lýði þegar Warriors-menn breyttu stöðunni úr jöfnum leik í 57-49 á þessum 95 sekúndum. Safnast þegar saman kemur, svona kaflar verða mjög oft kveikjan að góðum rispum og þannig var það líka í nótt. Skólabókardæmi.


Heimamenn í Golden State héldu um það bil tíu stiga forystu fram í miðjan þriðja leikhlutann og ekki útlit fyrir annað en að Oklahoma ætti inni fyrir svo sem eins og einu áhlaupi líkt og í fyrsta leiknum.

Og áhlaupið kom. En það var bara úr hinni áttinni.

Mennirnir sem lýstu leiknum töluðu um það í hálfleiknum að Stephen Curry þyrfti að láta meira til sín taka í sóknarleiknum - reyna að búa eitthvað til fyrir sjálfan sig, þó hann eigi að heita í strangri gæslu vaskra varnarmanna hverja einustu sekúndu sem hann er inni á vellinum.

Ekkert vesen.

Curry tók sig til og skoraði 15 stig í röð á tveggja mínútna kafla um miðjan leikhlutann og kláraði leikinn, bara sí svona. Oklahoma gerði vel að halda muninum innan við tíu stigin lengi vel, en nú sprakk hann upp í 20 og eftir það varð fjandinn laus. 


Örlög Golden State eiga það oft til að ráðast öðru hvoru megin við fimmtán stiga mun. Liðið vinnur nær alltaf ef það nær fimmtán stiga forystu á einhverjum tímapunkti í leik. Í fyrsta leiknum festist það í fjórtán stigunum og Oklahoma náði að koma til baka og vinna, en í nótt fór það á hinn veginn. Tíu stiga munur varð tuttugu stiga munur á meðan þú deplaðir augunum nokkrum sinnum og jókst bara eftir það. Leikurinn var búinn.

Oklahoma er búið að sýna okkur að það er talsvert sterkara en það gaf til kynna í deildarkeppninni í vetur, en leikmenn liðsins vissu að þeir væru fögt eftir leifturárásina frá Curry.

"Þeeett´er búið!"

Það sem hafði verið nokkuð jafn leikur breyttist fyrirvaralaust í blástur, sem Golden State kláraði að lokum 118-91 og jafnaði metin í seríunni í 1-1. 

Eigum við ekki að segja að fyrstu tveir leikirnir hafi farið á besta veg úr því hærra skrifaða liðið tapaði heimaleik. Næstu tveir í Oklahoma verða tröllvaxnir og það er ljóst að Golden State verður að vinna amk annan þeirra.

Það stingur í augun að horfa á tölfræðiskýrsluna hjá Oklahoma og sjá að Durant (29) og Westbrook (16) voru einu mennirnir sem skoruðu tíu stig eða meira hjá þeim.

Annað sem böggar og truflar eru allir töpuðu boltarnir hjá Kevin Durant (8). Það er alveg nóg að Westbrook sé að henda boltanum upp í stúku eða í hendurnar á andstæðingum sínum, svo KD fari nú ekki að gera það líka.

Klay var kaldur hjá Golden State (5 af 17) en þú ert í helvíti góðum séns ef stóru strákarnir á bekknum hjá þér skjóta 11 af 12. Hér vantar upp á varnarleik í teig, en annars fékk Golden State ljómandi framlag frá fullt af fólki.

En, eins og áður sagði, var það auðvitað Stephen Curry sem kláraði þennan leik og það er enn merkilegra þegar haft er í huga að hann gengur ekki alveg heill til skógar. 

Hnéð á honum er enn ekki orðið gott eftir tognunina um daginn og svo er maðurinn ekki kominn í leikæfingu. Það sést líka, því hann er ekki að setja nema helminginn af þristunum sínum niður það sem af er í envíginu gegn Oklahoma, þar sem hann tekur 11 3ja stiga skot að meðaltali í leik.

Það er gaman að vita til þess að nú er mikið af fólki að klifra upp á Curry-vagninn. Jón og Gunna úti á götu eru að svara áskorunum og láta sig hafa það að horfa á Curry spila körfubolta, þó það væli reyndar um svefnleysi restina af vikunni. NBA körfuboltinn - og sérstaklega Steph Curry og Golden State eiga brýnt erindi til allra Íslendinga. Við erum búin að fara yfir þetta allt saman áður.

Þvílíkur munaður að vera með mann eins og Stephen Curry í liðinu sínu. Þú bara trekkir hann upp og hendir honum inná og hann breytir hnífjöfnum hörkuleik í blástur á tveimur mínútum!

Það eru engir smá skorarar sem við höfum fengið að fylgjast með í NBA deildinni frá því á dögum Jordans, en enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur verið jafn fljótur að koma stigum á töfluna og Stephen Curry. 

Það er alveg sama hvort við tölum um Wilt Chamberlain eða Michael Jordan, þeir voru báðir magnaðir skorarar, en þeir stunduðu ekki að skjóta (næstum því) frá miðju og hitta 50% í þristum. Þett´er náttúrulega bara rugl og svindl og enn og aftur er þessi drengur að minna okkur öll svo rækilega á það að hvernig hann er að breyta leiknum með áður óséðum hæfileikum sínum.

Tapið í fyrsta leiknum sat ekki lengi í Golden State-mönnum. Þeir spiluðu raunar eins of fyrsti leikurinn hefði aldrei farið fram, ef undan er skilið hvernig þeir hentu frá sér nokkrum boltum líkt og þeir gerðu á mánudagskvöldið. Þeir þurftu náttúrulega að vinna þennan leik í nótt til að forðast að koma sér í vandræði og gerðu það stórvandræðalaust.

Nú verða næstu tveir leikir í þessari rimmu í Oklahoma, þar sem allir hvítu ellilífeyrisþegarnir ná að búa til alveg ógurlegan hávaða og stemningu. OKC mun sennilega ekki veita af þessum stuðningi í ljósi þess hve vel Golden State svaraði tapinu í fyrsta leiknum.

Við vitum ekki með ykkur, en við höfum það á tilfinningunni að Golden State sé að leggja upp fyrir sig smá árás núna. 

Við höfum séð það áður frá þeim. Þeir byrja rólega í seríum og lenda jafnvel undir (2-1 gegn Memphis og Cleveland í fyrra) á meðan þeir eru að gefa sér tíma til að lesa andstæðinginn. 

Síðan er eins og einhver ýti bara á takka hjá þeim sem á stendur "hakkavél" og eftir það ræður enginn við eitt eða neitt. Þá er ekkert eftir nema hreinsa upp sletturnar og fara heim.

Vonandi reynist þessi tilfinning ekki rétt og vonandi verður þessi rimma í járnum sem lengst af því hún er svo ógeðslega skemmtileg og vel spiluð. Næsti leikur í þessu einvígi fer fram í Oklahoma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport á miðnætti á sunnudaginn. 

Við skorum á alla, konur og kalla, að gæta þess að missa ekki af því.


Monday, May 16, 2016

Nýtt hlaðvarp um úrslitaeinvígi Vesturdeildar


Nýjasti þáttur hlaðvarpsins er að mestu helgaður einvígi Golden State og Oklahoma City í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA. Fyrsti leikurinn í einvíginu er klukkan eitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þetta er rimma sem enginn körfuboltaáhugamaður eða kona má missa af, eins og fram kemur í þættinum. Í honum fær Baldur Beck þjálfarann Friðrik Inga Rúnarsson til að spá í spilin fyrir einvígið, en þeir ræða líka rimmu Oklahoma og San Antonio sem lauk á dögunum og ótal margt annað skemmtilegt.

Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Þar kemur líka nánar fram hvað tekið er fyrir í þættinum. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Wednesday, May 11, 2016

Stórkostlegur Stephen Curry


Við gleymum því aldrei þegar Dallas-maðurinn Dirk Nowitzki tók við MVP styttunni sinni á blaðamannafundi árið 2007. Nowitzki brosti ekki mikið á fundinum, því tólf dögum áður, hafi 67 sigra Dallas-liðið hans látið liðið í áttunda sæti (Golden State) slá sig út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. 

Þetta voru ein óvæntustu úrslit í sögu úrslitakeppninnar og Nowitzki vissi það. Þetta var rosalega átakanlegur fjölmiðlafundur, þó Þjóðverjinn og allir sem á honum sátu reyndu að gera gott úr öllu saman. Dirk vissi að hluti af þessari katastrófu skrifaðist á hann, sem stórstjörnu Dallas, þó líklega hafi þjálfarinn hans Avery Johnson átt þar stærri hlut að máli. 

MVP-inn sem gat ekki einu sinni drullast til að koma liðinu sínu upp úr fyrstu umferðinni. 
Hnuss! Það var meiri andskotans MVP-inn, sögðu menn hneykslaðir. 

Það tók Nowitzki fjögur ár að hrista þennan apa af bakinu á sér og fólk myndi horfa talsvert öðrum augum á feril hans ef hann hefði ekki unnið titilinn með Dallas fjórum árum síðar.

Það hefur sem sagt ekki alltaf hitt vel á þegar menn taka við styttunni frægu. Þetta er ekki eintómar blöðrur og leikir. 

NBA deildin getur verið svo vægðarlaus og grimm og er enginn staður fyrir veiklunda einstaklinga.

Svo koma menn eins og Stephen Curry. Þessi Curry, sem í gær bauð upp á eitthvað sem segja má að hafi verið algjör andstæða þess sem Nowitzki upplifði árið 2007. 

Sem sagt að sýna þeim sem kusu hann MVP fram á að þeir hefðu ekki gert nein mistök (já, við vitum að deild og úrslitakeppni er ekki það sama, en þetta tengist allt hugmyndafræðilega). Þið eruð öll búin að lesa um það, eða voruð svo heppin að sjá það, hvernig Curry sneri aftur eftir hálfsmánaðar hlé vegna meiðsla og skaut Portland gjörsamlega í kaf í fyrrakvöld. 

Hvernig hann hitti ekki úr fyrstu tíu þristunum sínum, en skoraði svo sautján stig í framlengingunni þar sem Golden State allt nema kláraði seríuna með því að ná 3-1 forystu og fá tækifæri til að loka þessu á heimavelli í næsta leik.


Við gerðum ítarlega og hávísindalega könnun á þessu málefni og niðurstöðurnar voru eftir bókinni: Það er ekki hægt að setja punktinn öllu betur yfir i-ið kvöldið áður en þú ert kjörinn leikmaður ársins. Í stuttu máli sagt: Það er ekkert hægt.

Og það er svo margt sem er ekki hægt við þennan blessaða dreng. Til dæmis sú staðreynd að ekkert okkar áttaði sig á því hversu banvænn sóknarmaður hann gæti orðið, af því ekkert okkar var nógu galið til að sjá fyrir sér að nokkur körfuboltamaður myndi reyna að gera það sem Curry er búinn að vera að gera undanfarna mánuði. Það væri líklega hægt að veggfóðra Þjóðarbókhlöðuna með töflum og gröfum af afrekum hans í vetur.



















Við erum búin að skrifa mikið um Stephen Curry í vetur og munum halda því áfram á meðan drengurinn heldur áfram að ögra öllu sem heitir rökvísi þegar kemur að sóknarleik í körfubolta. Þetta gerum við í trássi við eitthvað af lesendum okkar, en það besta við NBA Ísland er að það þarf enginn að lesa neitt sem hann vill ekki lesa hér á síðunni.

Veistu samt hvað? Það eru yfirgnæfandi líkur á að þú sért að fylgjast með kolvitlausu sporti ef þér er það mjög á móti skapi að Stephen Curry skuli vera að fá umfjöllun í ljósi þess hvað hann er að gera. Ef svo er, ættirðu kannski að halda þig við skák og skotveiði. Eða bara ef þú ert á móti Curry yfir höfuð! 

Hvers konar manneskja ertu ef þú ert með leiðindi út í mann eins og Curry, svona í alvöru? Er kannski ekki allt í lagi heima hjá þér? Er kannski bara ekki í lagi með þig yfir höfuð? Og verður þessi mynd af MVP-inu að taka af sér sjálfu, hallærislegri en broddar og sítt að aftan eftir 20 ár?



Við vissum öll að Curry yrði valinn maður ársins og það eina sem okkur vantaði að vita í gær var hvort hann yrði valinn einróma eður ei. Og auðvitað fékk hann fullt hús og einróma kosningu, það var bara eftir bókinni. Okkur er eiginlega skítsama um hvort hann vann einróma eður ei, það pælir enginn í því eftir nokkur ár.

Það sem var óhjákvæmilegt eftir þessa niðurstöðu, var að einhver eldflaugaverkfræðingurinn ætti eftir að reyna að drulla yfir þessa velgengni hjá Curry.  Við þurftum ekki að bíða lengi, því Té-Mákur Tracy McGrady lýsti því yfir að þó Curry hefði staðið sig vel í vetur, væri þessi einróma kosning til marks um að deildin væri að þynnast þegar kæmi að stórstjörnum. Really, Té-Mákur?

Svona bull er ekki svaravert. Eða finnst þér efstu kapparnir í MVP-valinu vera svona lélegir?



Jú, jú, Curry þurfti ekki að keppa við Jordan, Bird eða Magic þegar kom að kapphlaupinu um titilinn leikmaður ársins, en höfum í huga að hann er nú til dæmis búinn að hirða þessa nafnbót tvisvar sinnum af fjórföldum MVP-hafanum LeBron James á meðan sá er enn á hátindi ferils síns. 

Nær undantekningalaust, hafa leikmennirnir sem voru kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni verið valdir af því liðið þeirra náði framúrskarandi árangri á tímabilinu. Við megum því alls ekki gleyma þætti liðsfélaga hans í þessum verðlaunum og eins og búast mátti við, var Curry ekki spar á hrósið til félaga sinna í þakkarræðu sinni í gær.

Við skulum samt átta okkur á því að án Curry er Golden State ekki annað en gott körfuboltalið, en með hann innanborðs, er það eitt besta lið sem við höfum séð. 

Og hann hefði ekki getað undirstrikað það öllu betur en hann gerði á skotsýningunni sinni í Portland í fyrrakvöld, þar sem stórleikur hans á ögurstundu sneri einvíginu algjörlega Warriors í hag.

Ef Golden State hefði tapað fjórða leiknum og staðan því orðin jöfn 2-2, hefði verið ljóst að liðið þyrfti sex eða jafnvel sjö leiki til að klára seríuna með öllum þeim barningi sem því fylgir.*

En Curry sá til þess að núna er ekki annað en formsatriði fyrir Golden State að klára einvígið á heimavelli í nótt (11. maí kl. 02:30 á NBATV). 

Hann er bara svona góður og virðist staðráðinn í að halda áfram að bæta sig. Og ekki ætlum við að veðja á móti honum. Það hafa nógu margir farið flatt á því.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------



* - Það er alveg bráðnauðsynlegt að taka fram hvað Portland-liðið er búið að standa sig frábærlega í þessari úrslitakeppni. Jú, jú, þeir voru heppnir að Clippers-liðið vængbrotnaði á báðum í fyrstu umferðinni, en þeir gerðu vel í að klára það verkefni og hafa svo staðið rækilega í meisturunum í annari umferðinni.

Við vitum að það er rosalega þreytt klisja að tala um einhverja móralska sigra þegar litlu liðin eru að stríða þeim stóru í úrslitakeppni, en Portland er nú samt búið að standa sig óhemju vel og hefði með smá heppni getað tekið fjórða leikinn og jafnað einvígið.

Það er fullt af risavöxnum götum í þessu Portland-liði og þó það hafi tekið smá Kamerún á þetta í vetur og vor, skulum við varast of mikla bjartsýni þegar kemur að nánustu framtíð. Staðreyndin er sú að Portland vantar talsvert sterkari leikmenn en það hefur núna til að taka næsta skref í úrslitakeppninni, en við skulum ekki loka hurðinni á þá. 

Það er metnaður í Portland-mönnum, en þeir eiga vandasamt verkefni fyrir höndum að koma liðinu upp úr krúttflokknum og í alvöruna.


Atlanta er enn Atlanta


Við minntumst ekkert sérstaklega á það fyrir einvígi Cleveland og Atlanta, en hefðum kannski átt að gera það, bara til að rifja það upp fyrir ykkur. Kannski er líka ungt fólk þarna úti sem hreinlega veit þetta ekki. Einhver verður að upplýsa komandi kynslóðir.

Segja þeim, að sama hvað raular eða tautar, sé Atlanta alltaf Atlanta.

Þannig má segja að það eina jákvæða sem kom út úr þessari úrslitakeppni hjá Atlanta, var að líklega hefur Atlanta aldrei nokkru sinni verið Atlanta með jafn heiftarlegum hætti og það var Atlanta þegar það lét Cleveland sópa sér úr keppni í annari umferð 4-0 - annað árið í röð.

Leikmenn Atlanta hljóta að fá æluna í hálsinn þegar þeir heyra minnst á Cleveland, hafandi tapað fyrir því 4-0 í úrslitakeppninni í fyrra, 3-0 í deildarkeppninni í vetur og svo aftur 4-0 núna.

Þetta er yfirdrifið nóg mótlæti til að stúta móralnum í hvaða liði sem er og Atlanta er þar sannarlega engin undantekning.

Erfitt er að henda reiður á hvað hefur farið úrskeiðis hjá Atlanta Hawks, en því miður fyrir stuðningsmenn Haukanna er augljóst að liðið er á hægri niðurleið en ekki að bæta sig. Þetta er náttúrulega fúndamental vandamál. Í siglingafræðunum er þetta kallað að róa í öfuga átt.

Nú er svo komið að tveir af byrjunarliðsmönnum liðsins eru með lausa samninga í sumar. Þetta eru Kent Bazemore, sem kom skemmtilega á óvart í vetur - og miðherjinn Al Horford sem er einn sterkasti leikmaður liðsins. Horford góður körfuboltamaður og spilar oftast vel, inn á milli þess sem hann hverfur eins og Don Draper.

Það er ákaflega freistandi að grípa til gífuryrða og halda því fram að Atlanta ætti bara að sprengja þetta upp og byrja upp á nýtt. Það er alltaf í ákveðinni tísku í NBA umfjöllun og við gerum það reglulega.

Það er þó sennilega aðeins of gróft í tilviki Atlanta eins og Zach Lowe benti skemmtilega á í hlaðvarpi þann 9. þessa mánaðar. Hyggilegra væri að reyna að breyta eitthvað til.

Eitt er þó alveg á hreinu. Atlanta getur gert allar þær breytingar sem það vill - það er ekki að fara að slá LeBron James neitt út úr úrslitakeppni Austurdeildarinnar á næstunni.

Þú þarft að fara í gegn um hann til að komast í úrslit og það er engin hætta á að Atlanta geri það á næstunni,
nema það myndi kannski vinna í víkingalottóinu
og fá stórstjörnu gefins einhvers staðar.

Atlanta er því dálítið fast í þessu einskismannslandi sem það er að vinna 50 leiki og detta út í annari umferð úrslitakeppninnar.

Ef draumar þínir og væntingar snúast um að vinna meistaratitil eða titla, er þetta ákaflega erfiður staður til að vera á. En ef þú setur þetta í stóra samhengið, er þetta hreint ekki svo slæmt.

Atlanta er ekki stór markaður, Atlanta fær ekki til sín stórstjörnur, Atlanta er með hörmulega stuðningsmenn og er staðsett í bæ sem er skítsama um körfubolta, en fimmtíu sigrar og úrslitakeppni er meira en mörg önnur félög af sama kalíberi í NBA deildinni geta sagt.

Við skulum sjá hvað forráðamenn Atlanta gera á leikmannamarkaðnum í sumar. Okkur þykir átakanlega líklegt að félagið muni framlengja samning Al Horford og gera hann að einum launahæsta leikmanni deildarinnar á langtímasamningi sem á eftir að verða hræðilegur á lokaárunum.

Atlanta veit að það getur ekki betur og það læðist að okkur sá grunur að Horford sé fullkomlega sáttur við að vera bara stjarna í liði sem kemst í aðra umferð úrslitakeppninnar og lætur það gott heita.

Hvað svo sem verður í sumar, er eitt alveg á hreinu.

Atlanta hefur alltaf verið, er, og mun líklega alltaf verða, nákvæmlega Atlanta.

Wednesday, May 4, 2016

Tuesday, May 3, 2016

Risasigur Oklahoma


Ekki áttum við von á þessu heldur...

Látið ykkur samt ekki detta það í hug að við ætlum að fara að skrifa einhvern 2000 orða gremjupistil um dómgæslu. Hell no.

Oklahoma spilaði kannski Houston-lega vörn í fyrsta leiknum gegn San Antonio um helgina, en Oklahoma er samt ekkert Houston. Oklahoma er ekki algjörlega karakterslaust drasl, sjáiði.

Sigur Oklahoma í leik tvö vekur eiginlega upp enn fleiri spurningar hjá okkur um frammistöðu liðsins í fyrsta leiknum, þar sem leikmenn liðsins mættu hreinlega ekki til leiks. Eins og það sé bara ekkert mál að mæta bara til leiks í leik tvö á í rimmu við San Antonio þar sem þú ert ekki með heimavallarréttinn. Kommon.

Við þykjumst hafa fylgst lengi með þessu og þykjumst vera voðalega reynd í bransanum, en eins og þið lásuð í pistli okkar eftir fyrsta leikinn, létum við stórsigur San Antonio stíga okkur aðeins til höfuðs og spáðum því að Oklahoma færi með tapið stóra á öxlunum inn í næsta leik. Það reyndist kolrangt, því þeir voru frábærir og unnu verðskuldaðan sigur

Já, dómararnir fokkuðu þessu öllu gjörsamlega upp þarna í restina, en þú getur ekki sagt að Oklahoma hafi ekki unnið fyrir þessu. Þeir voru bara einfaldlega betri, í leiknum sem þeir urðu að vinna.

Mjög margir eru búnir að missa sig í æðiskasti út í dómarana og fjölmiðlar eru sjálfum sér líkir og séð til þess að narratífið í kring um þennan leik snýst nú eingöngu um dómgæslu en ekki þá staðreynd að hér eru tvö stórkostleg körfuboltalið að reyna að drepa hvort annað. Þetta er miður, en svona er þetta bara á öld Trumps og Twitters.

Langbestu viðbrögðin við þessu kaosi komu samt frá Manu Ginobili, sem furðaði sig á dómgæslunni en hélt algjörlega ró sinni og hálfpartinn öskraði af fagmennsku. Hann vildi meina að San Antonio hefði ekki tapað leiknum á síðustu sekúndunum, heldur hefði liðið brugðist sem heild með því að halda sig ekki nógu vel við leikáætlunina.

Þetta er hárrétt hjá Manu og þetta er ástæðan fyrir því að þetta er langbesta félagið í NBA deildinni og eitt best rekna íþróttalið heims.

Það er vegna þess að allir, allt frá ræstitæknum og ródeótrúðum upp í forsvarsmenn og forseta, róa í sömu átt, eftir sama sýstemi, sem sannað hefur verið að skilar árangri.

Við bjuggumst sannarlega ekki við þessum úrslitum í gær. Við erum 100% viss um að San Antonio sé með betra lið en Oklahoma og klári þessa seríu, en það er ekkert að því að láta koma sér á óvart. Þó það nú væri.

Það er búið að vera dálítið áhugavert að fylgjast með því hvernig Spurs-menn hafa skipt með sér stigunum í fyrstu tveimur leikjunum og það er enn áhugaverðara að San Antonio hafi tapað í gær þrátt fyrir að LaMarcus Aldridge ætti annan hamfaraleik hjá þeim - gott ef hann hitti ekki úr 348.657 af 348.672 utan af velli.

KD og Russ voru flottir hvor á sinn hátt, Ibaka solid, Adams frábær í fráköstunum og Dion Waiters bætti fyrir að hafa sett niður stóran þrist með því að reyna að gefa San Antonio leikinn - fyrst með því að gefa Ginobili olnbogaskot í innkasti, svo með því að koma boltanum ekki í leik og loks með því að kasta boltanum til mótherjans.

Við vildum óska þess að við a) hefðum haft tækifæri til að horfa almennilega á leikinn (prófatíð, go figure) og b) að við hefðum eitthvað vit á körfubolta, því þá gætum við sagt ykkur hvernig stóð á því að Oklahoma náði að vinna þennan leik eftir útreiðina á laugardaginn.

Ekki varð Billy Donovan allt í einu góður þjálfari bara svona á einni nóttu...? Nei, andskotinn.

Það sem okkur fannst helst breytast frá leik eitt til tvö var að Russell Westbrook fór að hitta eitthvað, þó hann hitti ekki vel, varnarleikur Oklahoma var allt annar og þeir voru grimmari í fráköstunum, en hluti af þessu lá svo líka hjá San Antonio.

Spursarar klikkuðu virtist okkur á um það bil 840 sniðskotum í þessum leik og manstu eftir ÖLLUM skotunum sem duttu hjá liðinu í leik eitt? Jæja, þau duttu EKKI í þessum leik. Meðaltalslögmálið þarna að verki.

Nú eru næstu tveir leikir í Oklahoma og þó það gangi þvert á spár okkar, höfum við á tilfinningunni að liðin skipti þeim á milli sín. En svo getur líka vel verið að San Antonio vinni þá báða örugglega og klári þetta heima í leik fimm.

Nú eru Oklahoma menn búnir að tapa og ajustera og nú síðast töpuðu Spurs og nú þurfa þeir að ajustera. Það vill svo vel til að þjálfarateymi Spurs hefur 6000 sinnum meiri reynslu af að ajustera í seríum í úrslitakeppni NBA deildarinnar, þannig að þeir svarthvítu ættu að hafa betur á því sviði.

Kawhi Leonard á eftir að verða betri í næsta leik en hann var í leik tvö. LaMarcus Aldridge getur ekki mannlega mögulega haldið áfram að hitta svona fáránlega og hann kemur niður á jörðina í næsta leik og lendir í einu "atviki" á móti Steven Adams.

Loks þarf San Antonio að fá meira frá Tony Parker. Okkur er alveg sama þó hann sé með sprungið á báðum - San Antonio vinnur þessa seríu ekki ef það ætlar að treysta á að LaMarcus Aldridge skjóti 97% og verði með 40 stig að meðaltali í henni.

Hvað Oklahoma varðar, mun Serge Ibaka ekki verða eins áberandi (og góður) í sóknarleiknum í leikjum þrjú og fjögur, en Kevin Durant og Russell Westbrook verða samir við sig.

Durant setur einn 38 stiga leik og einn 27 stiga leik og Westbrook á eftir að tapa boltanum 15 sinnum í leikjunum tveimur.

Þá þarf Oklahoma að fá að minnsta kosti einn "WTF" leik frá einum af aukaleikurum sínum í öðrum hvorum leiknum, en þið vitið jafnvel og við að það er ekki að fara að gerast, þannig að San Antonio nær í versta falli splitti í Oklahoma og hirðir því heimavöllinn til baka - eða vinnur bara báða leikina.

Chi-chiiing! Þar hafið þið það.

Sunday, May 1, 2016

Walton í vinnunni




San Antonio slátraði Oklahoma í fyrsta leik


Ætli Ron Burgundy hafi ekki orðað þetta best þegar hann sagði:



Margir bjuggust við því að San Antonio myndi vinna fyrsta leikinn á móti Oklahoma í nótt og margir þessara manna og kvenna hafa eflaust búist við því að sigurinn yrði stór. En þetta þarna í nótt var náttúrulega bara rugl, bara steypa.

Nema þér finnist bara eðlilegt að Spurs hafi unnið leikinn 124-92* og að lokatölurnar gefi kolranga mynd af honum, þar sem heimaliðið hefði unnið hann með 50-60 stiga mun ef það hefði á nokkurn hátt kært sig um það.

Við höfum hundrað sinnum séð seríur í úrslitakeppni NBA snúast á punktinum. Við höfum öll upplifað að lið a vinni lið b stórt á heimavelli en hljóti svo jafnvel skell á útivelli viku síðar. Þetta er allt saman þekkt, þið þekkið þetta líka. 

Menn segja að lið taki hvorki töp né sigra með sér á bakinu milli leikja í úrslitakeppninni og það getur vel verið að svo sé í 99% tilvika, en við fullyrðum að sum töp séu einfaldlega of stór til að lið geti bara kyngt þeim, gleymt þeim og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Þetta er eitt þeirra, það getur ekki annað verið. Oklahoma getur ekki unnið þessa seríu eftir þessa útreið, það bara getur ekki verið.

Án þess að vera að berja okkur um of á brjóst, verður að segjast eins og er að áhyggjurnar sem við höfðum af Oklahoma-liðinu fyrir einvígið og fram komu í ógurlegri upphitun okkar fyrir fyrsta leikinn í gær, reyndust allar á rökum reistar.

Okkur óraði bara ekki fyrir því að Oklahoma myndi ekki aðeins spila þessa lélegu og einbeitingarsljóu vörn sem það hefur gert sig sekt um í vetur, heldur spilaði það Houston-vörn, sem er með öllu óafsakanlegt og dauðadómur þegar spilað er við jafn sterkt lið og San Antonio.

Við skulum samt átta okkur á því að Oklahoma-liðið var ekki alveg eins lélegt og tölurnar í nótt báru vott um - það var alveg satt sem Gregg Popovich þjálfari Spurs sagði - hans menn hittu bara úr öllum skotum sem þeir grýttu á körfuna. 

Meira að segja Danny Green hitti úr öllum sínum skotum, og hann er maður sem er búinn að skjóta eins og blind keisaramörgæs í allan vetur. Það gekk ALLT upp hjá San Antonio í sóknarleiknum. 

Kawhi gjörsamlega spændi vörn Oklahoma í sig og þegar hann var ekki að því, var LaMarcus Aldridge að hitta úr stökkskotum þar sem stundum voru þrír kílómetrar í næsta varnarmann. Það er ekki alveg vitað, en talið er að Aldridge hafi hitt úr eitthvað í kring um 1300 stökkskotum í leiknum.

Við þurfum ekkert að fara mörgum orðum um þennan leik. Það fór ALLT úrskeiðis hjá Oklahoma sem gat farið úrskeiðis, meðan allt gekk upp hjá San Antonio.

Sko... það getur komið fyrir hvaða lið sem er að hitta á off daga, þar sem þau bara ná sér ekki á strik, ná sér ekki upp stemmara, eru óheppin með tapaða bolta og skotin vilja einfaldlega ekki detta. Þetta kemur fyrir á bestu bæjum og það er þetta fyrirbæri sem útskýrir hluta af óförum Oklahoma í nótt.

En þar með er ekki allt upp talið. Ó, nei.

Stóra málið er að Oklahoma mætti ekki tilbúið í þennan leik og það sérstaklega varnarlega. Það var eins og útsendarar og aðstoðarþjálfarar Oklahoma hefðu verið sendir í Borgarnes að skáta Skallagrím en ekki San Antonio. 

Planið hjá Oklahoma var ekkert, liðið fann engin svör, en til að bæta gráu ofan á svart, gerðu leikmenn OKC sig seka um að gera mistök eftir mistök sem skrifast ekki á neitt annað en einbeitingarleysi. 

Hvað kallarðu það til dæmis þegar lið brýtur fjórum sinnum á mönnum í þriggja stiga skotum í einum hálfleik? Aðeins eitt af þessum tilvikum skrifast á nýliða, en að öðru leyti er ef til vill réttara að skrifa svona spilamennsku á heimsku en ekki einbeitingarleysi. Þetta var bara rugl frá a til ö.

Þegar lið fá svona skell, fara menn ósjálfrátt að leita að sökudólgum og þeir voru ansi margir hjá Oklahoma. 

En eins og við töldum upp hérna rétt áður er ekki hægt að neita því að stærstur hluti blammeringanna sem ætlaðar eru Oklahoma verða að fara á Billy Donovan og þjálfarateymið hans.

Hvað voru þeir að gera fyrir þennan leik? Voru þeir í alvörunni að skáta Skallagrím en ekki San Antonio? Er það von að við spyrjum. 

En svona í alvöru, þá er þetta ekki beinlínis fjöður í hattinn hjá Donovan, sem hefur valdið okkur vonbrigðum í vetur eins og við erum búin að tyggja 200 sinnum ofan í ykkur hér á þessum vettvangi.

En það er eitt að valda vonbrigðum í deildarkeppninni, sem strangt til tekið skiptir lið eins og Oklahoma ekki nokkru einasta máli. Það er annað að mæta í úrslitakeppnina og láta lemstrað Dallas-lið taka af sér leik og hanga inni í nokkrum öðrum og láta svo gjörsamlega fræsa á sér andlitið í fyrsta leik í annari umferð.

Það eru leikmennirnir sem spila þessa leiki, en sorry Billy boy, þú verður að taka þennan. 

Og þið Mo Cheeks verðið að koma upp með eitthvað skothelt plan fyrir leik tvö ef þið ætlið ekki að líta út eins og fífl í þessari seríu.

Haldið þið að Billy Donovan haldi starfi sínu næsta vetur ef Oklahoma verður hent út í fjórum eða fimm leikjum í þessari seríu? 

Ekki við heldur - og ekki myndum við gráta það þó hann yrði látinn taka pokann sinn. 

Það getur vel verið að Donovan sé fínn þjálfari, per se, en eins og staðan er núna hefur hann ekkert að sýna eftir fyrsta veturinn sinn annað en lið sem er á hægri niðurleið á öllum sviðum körfuboltans. Það er bara staðreynd. 

Áður en við hlöðum í sleggjudóma skulum við hafa hugfast að það er bara einn leikur búinn í þessu einvígi og að það er nánast óhugsandi að Oklahoma eigi aðra eins hörmung af leik aftur í sömu seríunni (þetta var versta tap liðsins í úrslitakeppni síðan því var stolið frá Seattle). 

En eins og við sögðum hér að ofan, eru sum töp bara svo ógeðsleg að þau geta ekki annað en límt sig inn í huga leikmanna. Hvað haldið þið að leikmenn Oklahoma fari að hugsa ef San Antonio nær aftur 10-15 stiga forystu á þá í fyrsta leikhluta annars leiksins á mánudagskvöldið?

Óháð því hvort liðið færi með sigur af hólmi og óháð því hve margir leikirnir yrðu í einvíginu, vonuðumst við um fram allt til þess að það yrði myljandi skemmtilegt. 

Nú fengum við að sjá blástur í fyrsta leiknum, en vonum svo sannarlega að þeir verði ekki fleiri - að við fáum jafnari leiki það sem eftir lifir af rimmunni. Kommon, við eigum það inni.

Eitt verðum við að minnast á svona í lokin, af því það böggar okkur alveg hrikalega. Það eru viðhorf fólks til leikjanna í úrslitakeppninni. 

Tveir leikir koma sérstaklega upp í hugann í þessu sambandi, en það eru fyrsti leikur Golden State og Houston í fyrstu umferðinni og fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma í nótt.

Þessir leikir voru sýndir beint á Stöð 2 Sport og áttu það sameiginlegt að heimaliðið vann stórsigur í þeim báðum - Golden State burstaði Houston og mörg ykkar sáuð svo San Antonio kjöldraga Oklahoma í nótt.

Nú er Twitter ekki algildur mælikvarði á viðhorf fólks til lífsins, en eins og margir vita er það ágæta apparat alveg ljómandi verkfæri til að nota með NBA áhorfi, sem er hið besta mál. 

En það var einmitt á Twitter sem við urðum vör við full mikla neikvæðni hjá fólki í garð leikjanna, eins og til dæmis í nótt þar sem fólk var að kvarta og kveina og væla yfir því að leikurinn væri ójafn.

Auðvitað viljum við öll að leikir séu jafnir og spennandi, en sumir virðast ekki átta sig á því að það er ekki hægt að panta spennuleiki fyrirfram, heldur eiga leikirnir það til að þróast alveg eftir eigin höfði.

Það eru til tvær tegundir af NBA leikjum: jafnir og ójafnir leikir. Flestir vilja að allir leikir séu spennandi, en sú er ekki raunin. En við verðum bara að segja að okkur finnst það ákaflega barnalegt viðhorf að stimpa leiki sem ekki eru jafnir sem eitthvað drasl eða "snúsfest."

Ef þið spyrjið okkur, værum við til í að horfa á Golden State og San Antonio kjöldraga lið á hverju einasta kvöldi ef svo býr undir, af því körfubolti er hefur upp á svo endalaust margt að bjóða þó leikurinn sé kannski ekki endilega spennandi. 

Erum við ekki að horfa á körfubolta í þeirri von að við fáum að sjá góðan körfubolta!?!

Það besta sem við gerum er að horfa á góð körfuboltalið spila góðan körfubolta og þá skiptir ekki sjitt máli hvort leikirnir eru spennandi eða ekki. 

Það er fagurfræðileg unun að horfa á lið eins og Spurs og Warriors slátra andstæðingum sínum, enda eru þetta tvo af sterkustu liðum samtímans á báðum endum vallarins, andskotinn hafi það! 

Þú ættir kannski bara að drulla þér út og fara að gera eitthvað annað ef þér fellur þetta ekki í geð. Horfa kannski á hrútleiðinlegan og lélegan háskólabolta, nú eða snúa þér bara alfarið að pílukastinu og meistaradeildinni í hestaíþróttum, af því það eru góðar líkur á því að þú sért ekki alveg að ná þessu með körfuboltann.

Plís, sko.

-----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Okkur þykir miður að vera að linka á tölfræðiskýrslur frá ESPN eftir að þessi sauðnaut breyttu boxscorinu þannig að þú þarft að smella á "sýna varamannabekk" til að sjá heildartölfræði og tölfræði varamanna beggja liða og þú þarft að gera það aftur í hvert skipti sem þú refreshar síðuna.

Þetta er versta breyting í sögu internetsins og það sérstaklega af því það er nákvæmlega allt sem mælir á móti henni og ekkert sem mælir með henni. Þetta er rakið dæmi og sönnunn þess sem við höfum alltaf haldið fram, að hinn dæmigerði vefhönnuður hjá ESPN sé álíka vel greindur og hundasleði.



Vandamálið er bara að þrátt fyrir þessa heimskustu breytingu í sögu internetsins, er ESPN samt enn með skárstu boxscorin sem við höfum fundið. Reyndar er heimasíða NBA deildarinnar með ljómandi fínar tölfræðiskýrslur, en vefhönnuðirnir þar á bæ eru næstum því eins miklir fæðingarhálfvitar og kollegar þeirra á ESPN og hafa komið því þannig fyrir að það er alveg sama á hvaða síðu þú ferð á nba punktu com - það fer alls staðar í gang allt of hávært og gjörsamlega tilgangslaust video um leið og þú dettur inn á síðuna.

Heimskan sem saman er komin á þessum tveimur síðum er næg til að keyra tvö álver og ef þið hafið áhuga á þessum málaflokki, hvetjum við ykkur endilega til að senda síðunum - sérstaklega ESPN - línu og segja þeim hvað ykkur finnst um þessar heimskulegustu breytingar í sögu internetsins.

Síða ESPN var einu sinni fullkomlega solid og sinnti öllum þínum erindum á skjótan og einfaldan hátt. Undanfarin 3-4 ár hefur hún hinsvegar versnað og versnað og versnað og er ekki annað en gimmík í dag, þar sem er ekki lengur hægt að finna neitt af viti, heldur bara skrolla til eilífðarnóns niður einhver gjörsamlega tilgangslaus 30 sekúndna löng myndbönd sem ekki nokkur maður á jarðríki hefur áhuga á að skoða.

Það eina sem ESPN hefur umfram nba punktur com í þessum efnum er að þar er amk hægt að stilla það hvort helvítis myndböndin fara sjálf að spilast eður ei. Það er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá heimasíðu NBA - enda er hún með yfirburðum sú versta sem við vitum um á internetinu.

Ef við vissum ekki betur, myndum við halda að fólkið sem hannar og heldur úti þessum síðum sé undirmálsfólk og hálfvitar, en það er auðvitað alls ekki þannig.

Þetta varð bara að koma fram, allt saman. Nú liður öllum betur.

Annars hafið þið tekið eftir því eins og við að ESPN er hægt og bítandi að missa frá sér allt sitt besta og áhrifamesta fólk og það er orðið augljóst að það er hægt og bítandi verið að skrúfa meira og meira fyrir fjárveitingar í þetta risavaxna batterí, þó það sé nú orðið partur af Illa Heimsveldinu hjá Disney.

Nú má ekki lengur eyða peningum í að framlengja við Bill Simmons, búa til 30 for 30 myndir, halda úti Grantland og halda almennilegum pennum og hönnuðum(!) í vinnu. Þeir eru eflaust farnir að skera við nögl í ljósritunarpappír, pennum og prentarableki af því að stjórn heimsveldisins verður að geta greitt sér út almennilegan arð. Svona virkar þetta í þessum heimi eins og öðrum.

Já, það er ekki ofsögum sagt að þetta hafi allt saman stigmagnast nokkuð snögglega.

Billy boy