Ef fyrsta umferð úrslitakeppninnar í NBA hefði þróast eitthvað aðeins öðruvísi en hún gerði, hefði verið auðvelt að skrifa gleðipistla um það að Anthony Davis hefði nú ekki aðeins komist í úrslitakeppnina, heldur farið þar hamförum í fyrstu umferðinni og sópað andstæðingi sínum í sumarfrí. Öll elskum við hann Brúnar og því samgleðjumst við honum öll, nema þau okkar sem halda með Portland Trailblazers auðvitað.
En eins falleg og stílhrein og sagan hans Brúnars var, er augljóst að hún kemst ekki nálægt því að toppa listann yfir áhugaverðustu punktana í fyrstu umferðinni. Ekki í deild þar sem Ben Simmons og Donovan Mitchell eru mættir á svæðið og farnir að láta til sín taka. Ó, nei.
Þeir Simmons og Mitchell eru búnir að berjast um nafnbótina nýliði ársins í allan vetur og eru í rauninni enn að því, þó löngu sé búið að safna atkvæðum þegar kemur að nafnbótinni fyrir deildarkeppnina. Staðreyndin er sú að þeim er báðum skítsama um hana. Þeir vilja komast eins langt og þeir mögulega geta í úrslitakeppninni frekar en að keppa um einhverjar plastdollur sem eru bara hjóm og hégómi.
Aðdáendur beggja pilta hafa eðlilega tvíeflst í úrslitakeppninni og hvor hópur hampar sínum manni og hraunar yfir hinn. Fólk sem hagar sér svoleiðis á ekki skilið að fylgjast með þeim spila körfubolta, því fólk á að njóta hæfileika beggja - sem eru ótvíræðir, ef það hefur farið framhjá einhverjum.
Þegar litið er á þá Ben Simmons og Donovan Mitchell er einn stór grundvallarmunur á þeim sem leikmönnum. Þessi munur þýðir til dæmis að Simmons mun alltaf fá nafnbótina nýliði ársins í ár og hefði sennilega fengið hana þó Mitchell hefði tryggt liði sínu sigur á flautukörfu í sjö síðustu leikjunum í deildarkeppninni.
Þessi stóri munur er sá að Donovan Mitchell er ofboðslega góður körfuboltamaður sem er að fá það mesta út úr hæfileikum sínum með stífum lærdómi og gríðarlegri vinnusemi. Ben Simmons, hinsvegar, er fyrirbæri. Og fyrirbæri hafa alltaf og munu alltaf hafa ákveðið forskot á venjulega fólkið þegar kemur að íþróttum - sérstaklega körfubolta.
Við ætlum ekki að fara djúpt í að útskýra fyrirbærishugtakið hér, enda höfum við gert það oft áður og þú getur örugglega glöggvað þig á því með því að leita í efnisorðalistanum á þessu vefsvæði. Fyrirbæri er í stuttu máli leikmaður sem hefur forskot á aðra leikmenn vegna líkamlegra burða eða yfirnáttúrulegra hæfileika. Oftast eru það þó einhvers konar líkamlegir yfirburðir.
Magic Johnson var fyrirbæri af því hann var risavaxinn leikstjórnandi sem gat brugðið sér í allra kvikinda líki á vellinum og var einn litríkasti og sigursælasti leikmaður í sögu deildarinnar, með einhverja mögnuðustu sendingagetu sem sést hefur og hugmyndaflug í kaupbæti.
Og hverjum hefur Ben Simmons helst verið líkt við á fyrsta árinu sínu sem leikmaður í NBA deildinni? Jú, auðvitað Magic Johnson. Í eyrum flestra er það hálfgert guðlast að líkja mönnum við goðsagnir eins og Magic Johnson, en Simmons þurfti ekki að spila marga leiki í deildinni til að undirstrika að þessi samanburður átti fullan rétt á sér.
Og nú þegar hann er búinn að vinna seríu í úrslitakeppni á fyrsta árinu sínu sem leikmaður í NBA - er óhætt að segja að hann sé endanlega búinn að vinna sér inn einhvers konar innistæðu fyrir því (nú á hann bara eftir að tryggja Sixers titilinn og vera með 40/15/10 í úrslitaleiknum og þá er þetta komið hjá honum).
Frammistaða Simmons bæði í deild og úrslitakeppni í ár hefur verið framúrskarandi og líklega betri en nokkur þorði að vona. Og við móðgumst ekki við nokkurn mann sem kýs hann nýliða ársins.
Hann er það samt ekki hjá okkur.
Við erum ekki hlutlaus í þessu, við vitum það. Við höfum ákveðin tengsli við Utah-liðið og þess vegna verður auðvelt fyrir fólk að kalla okkur hómera og öllum illum nöfnum sem fólk kann að koma upp með. Það verður bara að hafa það.
Við ítrekum samt að frammistaða beggja leikmanna í vetur og vor hefur verið með því betra sem sést hefur frá nýliðum síðustu áratugi í NBA deildinni og það eitt og sér er nú sæmilegt hrós handa þessum sveinum.
Það sem við erum að reyna að segja er að þó við viljum meina að Mitchell sé búinn að eiga áhrifaríkara ár en Simmons, þýðir það ekki að okkur finnist Simmons vera aumingi og fáviti.
Þvert á móti, höfum við gríðarlega gaman af að horfa á hann spila körfubolta og þið ættuð að vera farin að þekkja ritstjórn þessa vefsvæðis þegar kemur að leikstjórnendum sem frákasta eins og miðherjar og bjóða upp á þrennur dag eftir dag. Við eigum ekki séns í svoleiðis gaura. Þeir eiga okkur við fyrsta frákast, ef svo má segja.
Það sem fær okkur til að setja Mitchell upp fyrir Simmons - og þetta á við um bæði deild og úrslitakeppni, við erum ekki bundin neinum reglum eins og blaðamenn sem skrifa um NBA deildina - er pakkinn sem hann er búinn að bera á herðunum í allan vetur og gerir enn.
Ben Simmons er gaur sem þú getur hent inn í hvaða lið sem er og hann myndi brillera, frá fyrstu mínútu. Hann er tveir og tíu og gefur hann í gegn um klofið. Þar að auki er hann flottur varnarmaður og frákastari, með gott auga og það sem best er - hann er mikill keppnismaður með smá attitjúd.
Simmons voru réttir lyklarnir að Sixers-druslunni í haust og honum sagt að keyra hana eins glannalega og hann vildi og hann mátti gera eins mörg mistök og hann vildi.
Eða haldið þið kannski að sé skjálfandi pressa á mönnum að byrja að spila með liði sem hefur einu sinni unnið 20 leiki á síðustu fjórum árum?
Verandi fyrirbærið sem hann er, var Simmons ekki lengi að gera Sixers-liðið að sínu og stýra því að velgengni sem hefur ekki sést hjá félaginu árum saman. En var það allt honum að þakka?
Vissulega hellingur af því. En eitt á það til að gleymast í stóra samhenginu þegar er verið að ræða Simmons og nýliðakapphlaupið og það allt saman; Philadelphia er actually komið með ágætis lið núna. Sixers-liðið er ekki einhver drullukaka af G-deildarleikmönnum og nafnlausum pappakössum sem enginn veit hverjir eru.
Efst á blaði þar er Joel Embiid, meðreiðarsveinn Simmons og afbrotabróðir. Það getur vel verið að Embiid hafi talist efnilegur á síðustu leiktíð (hann var það ekki) eða jafnvel á þessari, en það er hann ekki. Hann er bara ógeðslega góður körfuboltamaður og það er meira að segja ekkert mál að færa rök fyrir því að hann sé að verða einn besti körfuboltamaður veraldar nú þegar! Hann getur allt á vellinum og nú þegar hann hefur einhverra hluta vegna verið heill heilsu nánast samfleytt í nokkra mánuði, hefur hann eins og tölfræðin hótaði í fyrra, gert Sixers-liðið að miklu, miklu betra liði.
Svo er búið að fylla upp í þetta lið með alls konar mönnum sem eru allt frá því að vera byrjunarliðsmenn yfir meðallagi í deildinni (Redick, Covington) yfir í skemmtilega rulluspilara sem gegna minni hlutverkum en týna hver um sig eitthvað smotterí í púkkið.
Síðast, en alls ekki síst - og það er nú eitt það ánægjulegasta við veturinn hjá Sixers að okkar mati - er það þjálfari liðsins, Brett Brown, sem á skilið að fá risavaxið hrós.
Við skiljum ekki hvernig í andskotanum maðurinn hefur þolað við í Philadelphia í þessum drullupolli sem þetta félag er búið að vera síðustu ár.
Aðstæðurnar hjá klúbbnum undanfarin ár hafa bókstaflega verið eins og á geðveikrahæli þar sem sjúklingarnir eru búnir að taka við stjórnartaumunum og færa læknateymið og restina af starfsfólkinu í óðsmannstreyjur.
Við ætlum ekki að fara út í þessar heimspekivangaveltur um Prósessinn og hvort hann átti rétt á sér eða ekki, við höfum andstyggð og viðbjóð á þessari aðferðafræði og munum aldrei gúddera hana, þó við göngum ekki svo langt að segja að forráðamenn Sixers hafi bókstaflega gert eitthvað af sér. Þeir fóru bara eftir meingölluðum reglum NBA, sem verðlauna vanhæfi svo hroðalega að það er stundum að hóta því að eyðileggja deildina.
Ókei, hér erum við sumsé búin að týna það til að þó Ben Simmons hafi spilað eins og engill í allan vetur, hafi hann fengið mjög mikla hjálp við að koma Sixers-liðinu úr 28 sigrum í 52. Hjálp frá einum besta leikmanni deildarinnar, ágætis rulluspilurum og afbragðs góðum þjálfara.
En þá er eitt atriði ótalið, sem við teljum vinna með Donovan Mitchell, en það er þessi sami þreytti en sanni, sálmur og við erum alltaf að syngja: Philadelphia er í Austurdeildinni! Og eins og þið vitið, er Austurdeildin rusl - og því ber að fara afar varlega í að slá menn sem í henni vinna til riddara.
Gerið okkur greiða. Farið og skoðið leikjaplanið hjá Philadelphia í febrúar, mars, apríl og til dagsins í dag. Það er ekki veikt. Það er mögulega skelfilegasta plan sem við höfum séð á ævi okkar og við höfum nú séð ýmislegt í gegn um tíðina.
Hvaða máli skiptir það, spyrðu?
Jú, við erum bara að benda á það hvað þeir Mitchell og Simmons hafa haft gríðarlega ólíka hluti fyrir stafni síðustu mánuði. Mitchell er búinn að vera að spila við bestu lið deildarinnar kvöld eftir kvöld til að reyna að vinna liði sínu sæti í úrslitakeppni í gríðarlega hörðu kapphlaupinu í vestrinu, meðan Simmons og félagar voru á krúskontról í austrinu.
Skoðaðu töfluna hjá Sixers í alvörunni! Hún er búin að vera djók síðan í janúar. Það voru þarna tveir leikir við Cleveland og eitthvað, en restin var 90% leikir við ógnvalda eins og Nets, Hawks, Bulls, Magic, Knicks.... Þetta er djók.
Er ósanngjarnt að nota töfluna gegn Sixers og Simmons með þessum hætti, þar eð þeir geta jú ekkert að því gert þó þeir séu í rusl deild? Kannski, en við erum bara að leggja spilin á borðið hérna! Cleveland (50 sigrar, versta vörn deildarinnar) er eina 50 sigra liðið sem Sixers þurftu að mæta á síðustu mánuðum deildarkeppninnar og leikir gegn liðum sem unnu 40 sigra voru fátíðir. Þetta var allt gegn liðum sem voru með drulluna í hárinu.
Og svo mætir Philadelphia Miami í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Jú, jú, Simmons og félagar unnu sér inn réttinn til að mæta lakara liði með því að ná 3. sætinu í austrinu. En getur verið að fólk sé að hlaupa pínulítið á sig þegar það ætlar að setja kórónur á hausana á Sixers-piltunum? Jú, jú, þeir unnu helling af leikjum í röð undir lok deildarkeppninnar og tóku seigt og vel þjálfað Miami lið nokkuð sannfærandi í fyrstu umferðinni. Það var alveg flott hjá þeim. En hvort heldurðu að þeir hefðu valið að mæta Miami eða Oklahoma City í fyrstu umferðinni?
Á sama tíma er Donovan Mitchell í Vesturdeildinni. Hann er draftaður til félags sem mun aldrei vinna meistaratitil, en er samt sem áður alltaf með metnað til að ná eins langt og mannlega mögulegt er. Pínulítils félags, sem þrátt fyrir það hefur í raun notið ótrúlegrar velgengni án þess að geta nokkru sinni lokkað til sín leikmenn með lausa samninga eða endalausa valrétti í topp fimm.
Þegar Utah stal Mitchell með þrettánda valrétti í sumar (sama valrétti og það stal Karl Malone 30 árum áður), var planið ósköp einfalt.
Þjálfarateymi Jazz hafði trú á guttanum sínum og ætlaði honum að spila slatta af mínútum og jafnvel auka aðeins breiddina í sóknarleik liðsins, sem var ekki mjög beittur þrátt fyrir að liðið hefði náð í aðra umferð úrslitakeppninnar árið áður án þess að vera með heimavallarrétt (hljómar kunnuglega).
Eins og flestir sem þetta lesa vita, fóru plön Utah Jazz öll sömul ofan í Gustavsberginn þegar Júdas Gordon Hayward ákvað að hann ætti betri möguleika á að vinna meistaratitil í Boston en í Utah og skildi uppeldisfélag sitt eftir í skítnum án þess að tala við kóng eða prest (hann beið svo lengi með að gefa upp áform sín að Utah átti ekki möguleika á að gera neitt vitrænt til að fylla skarð hans - og hann hafði ekki einu sinni manndóm í sér til að taka upp símann og tala við ekkju Larry Millers heitins, fyrrum eiganda Jazz, og láta hana vita að hann væri að fara frá félaginu sem var búið að hafa hann á brjósti síðan hann var 30 kílóa ræfill með hor).
Jú, þeir réttu bara stráknum lyklana að sóknarleik liðsins og sögðu honum að gera eins og hann gæti.
Það var ansi sóðalegt fyrstu vikurnar og við munum að við spurðum okkur hvað í fjandanum þjálfarateymi Utah væri eiginlega að hugsa að láta einhvern krakkavitleysing vera að taka öll skotin hjá liðinu, en komumst fljótlega að þeirri niðurstöðu að það var eina lógíkin. Það var enginn annar þarna sem gat gert það.
Og það er heila málið. Donovan Mitchell, 21 árs gamall nýliði - sem var ekki búinn að njóta þess að sitja á bekknum hjá NBA liði í heilan vetur og sjá hvernig allt fór fram og kynnast leikaðferðum og skipulagi liðs síns mánuðum saman - þurfti nú að gjöra svo vel og halda uppi sóknarleik hjá liði sem var með yfirlýst markmið um að komast í úrslitakeppni.
Þegar við segjum að Utah ætli að fara í úrslitakeppni, er það ekkert skrum út í loftið. Eins og við sögðum, er Utah eins langt frá því að vera ríkur, sexí eða trendí klúbbur og hægt er, en það er alltaf metnaður þar á bæ.
Metnaður fyrir því að vinna leiki og komast í úrslitakeppni, öfugt við það sem tíðkast hefur hjá Philadelphia síðustu ár
Prósess eða ekki prósess, þetta er ekki beint glæsileg ferilskrá hjá Philadelphia og stuðningsmenn liðsins vita það alveg - og verða þess vegna hundfúlir þegar einhver minnist á það við þá.
Sem dæmi um þetta má nefna að Philadelphia var í vetur að vinna 50+ leiki á vetri í annað skipti síðan 1990.
Utah er búið að vinna 50+ leiki fjórum sinnum síðan árið 2007, sem er áhugavert í ljósi þess að síðasti áratugur er sá langversti í sögu félagsins síðan það kom inn í deildina fyrir fjórum áratugum síðan (Utah er búið að vinna 50+ leiki fjórtán sinnum síðan 1990 og við skulum bara segja að það séu ekkert rosalega mörg lið í deildinni sem geta státað af slíkum stöðugleika).
Það er því ekkert píp þegar Donovan Mitchell eru réttir lyklarnir og hann beðinn um að koma liðinu sínu í úrslitakeppni. Þessu fólki var alvara.*
Þegar í þessa úrslitakeppni var komið, tók svo við afar áhugavert einvígi eins og þið hafið eflaust séð. Oklahoma City vann ekkert mikið fleiri leiki en Miami í vetur, en það gerði það í miklu erfiðari deild. Hefur þú sest niður og skoðað hver munurinn er á leikjaplani liðanna í austri og vestri? Prófaðu, og láttu okkur vita.
Munið þið eftir klisjunni um að liðið með besta leikmanninn vinni oftast seríuna í úrslitakeppni? Það er áhugaverð pæling eftir einvígi Utah og Oklahoma, þar sem varnarsinnað og þaulskipulagt, en gjörsamlega lamað sóknarlið Utah vann nokkuð öruggan sigur á stjörnum prýddu liði Oklahoma.
Donovan Mitchell var ekki besti maður Utah í einvíginu, þú veist örugglega ekki einu sinni hver það var, en liðið hefði aldrei, aldrei, aldrei unnið einvígið án hans og þessara 28,5 stiga sem hann skoraði að meðaltali í seríunni.
Mitchell átti einhverja bestu seríu nýliða í sögu úrslitakeppninnar og þið eruð örugglega búin að sjá eitthvað af tölfræðimolunum sem undirstrikuðu það - eins og t.d. hvernig stigaskorun hans í fyrstu umferð úrslitakeppninnar hafi ekki verið toppuð nema af tveimur af mestu skorurum sögunnar. Hægt er að finna fleiri dæmi um svona sögulega hluti hjá Mitchell í deildarkeppninni líka.
Við áttum okkur á því að Ben Simmons getur líka státað af einhverjum svona metum, en það eru fleiri en Simmons sem geta spilað fleiri en eina stöðu á vellinum og án allrar kaldhæðni, hefðum við viljað sjá hvernig Simmons hefði tekist til ef hann hefði þurft að dekka Russell Westbrook í fyrsta einvíginu sínu í úrslitakeppni - og svo sjálfur verið dekkaður af Paul George... =>
Væri hægt að skrifa pistil eins og þennan og færa rök fyrir því að Ben Simmons hefði átt betra ár en Donovan Mitchell?
Klárlega.
En við ætlum ekki að gera það.
Það verður nægur tími til að skruma fyrir Ben Simmons næstu árin, því hann kemur til með að verða í sviðsljósinu hvort sem okkur líkar það eður ei.
Mitchell verður í NBA eyðimörkinni í Utah í nokkur ár, þangað til hann finnur sér lið sem getur unnið titil og lætur sig hverfa þangað - gott ef hann tekur ekki þjálfarann sinn með sér.
En þangað til, ætlum við að njóta þess að horfa á hann vaxa og dafna sem leikmann og reyna að öskra okkur hás til að minna á það að ótrúleg innkoma hans inn í NBA deildina hafi verið ein sú magnaðasta sem sést hefur - alveg eins og hjá Ben Simmons.
Fáir nýliðar hafa komið inn í deildina með jafn miklum stæl og þeir Simmons og Mitchell hafa gert í vetur, sérstaklega ef við horfum í árangur þeirra í úrslitakeppninni, þar sem þeir kláruðu báðir amk eina seríu og voru enn betri í úrslitakeppninni en þeir voru í deildinni.
Það er til bunki af frægum leikmönnum, jafnvel stórstjörnum, sem spiluðu árum saman í NBA deildinni án þess að gera nokkuð svona - hvað þá á nýliðaárinu sínu.
Það er til bunki af frægum leikmönnum, jafnvel stórstjörnum, sem spiluðu árum saman í NBA deildinni án þess að gera nokkuð svona - hvað þá á nýliðaárinu sínu.
Það verður dásamlegt að fylgjast með þessum tveimur vaxa í framtíðinni og satt best að segja er það hálf óraunverulegt að pæla í því hvað þeir gætu náð langt miðað við hvað þeir byrja vel.
Og það sem er best við þetta allt saman, er að við erum aftur farin að sjá almennilega hæfileikaríka stráka koma inn í NBA deildina - Alvöru menn!
Við skulum alveg viðurkenna að við vorum farin að verða hrædd um að þeir væru að hætta að koma, í allri þessari svínastíu af Anthony Bennett-um, Jahlil Okafor-um og Jimmer Fredett-um.
---------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Mitchell voru vissulega réttir lyklarnir og hann var beðinn að vera fyrsti kostur í sókninni hjá liði sem ætlaði sér í úrslitakeppni, en munurinn á Utah og mörgum öðrum félögum í NBA deildinni - flestum, raunar - er að þar á bæ er hlutunum hagað þannig að mönnum eins og Mitchell er komið í aðstöðu til að ná árangri með leiðbeiningum og liðveislu, sterku utanumhaldi og kúltúr sem er ritaður í steypu.
Þessir hlutir hafa verið til staðar hjá klúbbum eins og San Antonio undanfarna áratugi og svona lagað er helsta ástæða þess að Boston Celtics á bjarta framtíð fyrir höndum og er búið að vinna fleiri titla en nokkuð annað félag.
Og þessir hlutir eru aldrei nokkru sinni nálægt því að vera í lagi hjá farsabatteríum eins og Sacramento Kings, þar sem ekkert annað en bein sala á liðinu og algjör endurnýjun á öllu starfsfólki frá a til ö mun lyfta þeim hræðilega klúbbi upp úr drullufeninu sem hann er búinn að vera fastur í síðan hann flutti til Sacramento - og lengur en það.
Ef vel er að gáð, eru það líka þessir hlutir sem uppá vantar hjá Oklahoma City. Já, já, þú getur gagnrýnt Russell Westbrook þangað til þú verður blá(r) í framan - og jú, jú, hann á skilið að fá harða gagnrýni núna alveg eins og allir liðsfélagar hans - en þú gætir skammað leikmennina þangað til þú missir röddina - það mun engu breyta.
Oklahoma nær ekki árangri, fyrr en þjálfarateymi liðsins, með blessun skrifstofunnar, mætir á fyrstu æfingu í haust og segir ákveðið:
"Jæja, strákar, það er búið að vera gaman að spila hetjubolta hérna í tíu ár, en núna ætlum við að fara að spila kerfisbundinn körfubolta og ná árangri - og þeir ykkar sem treysta sér ekki til að gera það með okkur, geta farið út núna og lokað á eftir sér..."
Svona ganga hlutirnir auðvitað ekki fyrir sig í NBA. Þetta er deild Stjarnanna. Stjörnurnar ráða oftar en ekki ferðinni og það eru þær sem ráða því hvernig liðið spilar en ekki þjálfarinn. En það er líka ástæðan fyrir því að mörg þessara liða ná ekki árangri.
Það segir sína sögu um hvað LeBron James er ógeðslega góður leikmaður, að hann skuli hafa unnið meistaratitil - og það á móti liðinu sem vann flesta sigra í sögu deildarkeppninnar - með leikstíl sem var algjörlega sniðinn eftir hans höfði og hans hæfileikum og miðaði líka að því að láta hann líta sem bestu út (þetta er enn leikstíll Cleveland, en núna hefur liðið ekki mannskap til að vera í fremstu röð, svo leikir liðsins í úrslitakeppninni 2018 verða keimlíkir leikjunum í lokaúrslitunum 2015, þar sem James gerði ALLT og hinir ekkert).