Sennilega er ekki ofsögum sagt að forráðamenn NBA deildarinnar hafi verið leiðandi síðustu áratugi þegar kemur að því að gera vöruna sína markaðsvænni. Eitt mikilvægasta atriðið hvað það varðar er að sjálfssögðu að gera NBA deildina sjónvarpsvænni.
Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan NBA gerði talsverðar breytingar á regluverki sínu, t.d. varðandi fækkun á leikhléum, til að verða við kröfu áhorfenda bæði á vellinum og heima í stofu um að fækka ítrekuðum og hundleiðinlegum stoppum undir lok leikja. Þetta er að okkar mati mjög jákvætt atriði - að risavaxin deild á heimsvísu, skuli ekki vera blind og heyrnarlaus þegar kemur að tillögum og aðfinnslum viðskiptavina.
Nýjasta nýtt þegar kemur að tækni- og sjónvarpsmálum í NBA deildinni eru auðvitað sýndarveruleikagræjurnar. Eins og þið vitið, er ritstjórn NBA Ísland svo aftarlega á tæknimerinni, að við myndum tæknilega (pun sooo intended) ekki teljast sitjandi á bakinu á henni.
Við verðum þó að viðurkenna að hugmyndin um að njóta NBA-leikja í sýndarveruleika(græjum) vekur hjá okkur talsverða forvitni og við sjáum ekki betur en að talsverðar vonir séu bundnar við að þetta nýja fyrirbæri gæti orðið eitthvað sem næði fótfestu í sjónvarpsupplifun fólks.
Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við stutta frétt sem gerð var um þetta nýlega fyrirbæri, en ljóst er að NBA deildin ætlar sér að þróa þessar hugmyndir eins langt og þurfa þykir af því flestum finnast þær jú ansi fróðlegar og spennandi.
Það er hægt að sjá fullt af myndböndum á youtube sem sýna sjónarhorn manneskju sem er að horfa á NBA leik í sýndarveruleika, en það litla sem við vitum um þetta fyrirbæri er að það er víst engan vegin sama upplifun að sjá þetta á myndbandi eins og hér í fréttinni fyrir neðan - eða að vera með græjuna á hausnum og upplifa það sjálf(ur).
Við vitum ekki með ykkur, en við værum alveg til í að prófa. Það hlýtur að vera dálítið spennandi að hafa það á tilfinningunni að LeBron James sé að koma hlaupandi á fullum spretti í fangið á manni.