Um daginn kíktum við á Austurdeildina í NBA og komumst að raun um að hún inniheldur aðeins eitt alvöru körfuboltalið. Þegar við segjum alvöru körfuboltalið, erum við að meina lið sem hefur burði til að vinna meistaratitilinn. Þetta var Cleveland eins og þið munið. Það er séns þar.
Nú er hinsvegar kominn tími til að skoða Vesturdeildina, þar sem allt er miklu blómlegra eins og verið hefur síðustu ár. Við skulum velta því fyrir okkur saman hvaða lið í vestrinu hafa brag og burði til að keppa um titil næsta sumar.
Það er nauðsynlegt að taka svona vörutalningar annað slagið, því hlutirnir eru afskaplega fljótir að breytast í NBA deildinni eins og þið vitið. Menn meiðast, mönnum er skipt, menn eru látnir fara, menn eldast, menn fá liðsstyrk og mönnum vex fiskur um hrygg.
GOLDEN STATE WARRIORS

Meistarar Golden State (það á eftir að taka okkur um það bil þrettán ár að venjast því að skrifa þessi þrjú orð) áttu sannkallaða draumavertíð á síðasta keppnistímabili þegar þeir spóluðu sig fyrstir í mark án þess að lenda í teljandi torfærum á leiðinni.
Það er því ekki óeðlilegt að margir tippi á að Warriors nái að endurtaka leikinn næsta sumar. Golden State kemur til leiks með sama lið og í fyrra, sem er mjög jákvætt í þessu tilviki, því lykilmenn liðsins eru flestir á fínum aldri og eiga nóg eftir.
Hressandi tilhugsun fyrir mótherja Warriors að geta átt von á því að Stephen Curry, Klay Thompson, Draymond Green, Harrison Barnes og Festus Ezeli eigi bara eftir að verða betri og betri næstu árin.
Andre Iguodala og Andrew Bogut eru ekki að verða betri, en ef þeir sleppa við þið vitið hvað og spila sinn leik, verða þeir áfram lykilmenn í leiftursstríði Dubs. Og hugsið ykkur, Kerr og þjálfarateymið hans eru rétt svo búnir með reynsluaksturinn á þessu liði, nú geta þeir farið að gera krúsidúllur.
Þeir segja að það sé hrikalega erfitt að vinna titilinn tvö ár í röð í NBA deildinni, en þrátt fyrir það er Golden State líklegast til að toppa 2016 af þeirri einföldu ástæðu að það er besta liðið - og er að verða betra. Eins og það sé ekki nógu gott fyrir. Þið sjáið því að við höfum ákveðið að stilla Golden State upp skör ofar en restinni af vesturliðunum, sem hlýtur að teljast eðlilegt að svo búnu.
En hvað með hin liðin sem ætla að vera með í slagnum í vestrinu? Kíkjum aðeins á þau.
HOUSTON ROCKETS
Það kom mörgum á óvart að Houston næði alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar í vor. Sérstaklega kom það okkur á óvart, því við höfðum einmitt ekki séð nokkurn skapaðan hlut hjá þessu liði í úrslitakeppninni undanfarin ár sem benti til að það ætlaði að fara að vinna eitthvað.
Dallas varð engin hindrun í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en þegar kom að ógnarsterku Clippers-liðinu í annari umferð, hafði Houston heppnina loksins með sér eftir að hafa gleymt henni heima árið á undan þegar það lét Portland henda sér í sumarfrí.
Nú gæti einhver sagt að heppni hafi ekkert með það að gera hvort liðið sigrar í sjö leikja seríu - betra liðið vinni einfaldlega alltaf undir þeim kringumstæðum. Einvígi Clippers og Rockets fékk okkur aftur á móti til að efast um þá lógík, slíkar voru sveiflurnar.
Houston var blátt og marið, tárvott, tætt og rifið - gleymt og grafið. Það fipaðist í strax í byrjun á móti Chris Paul-lausu Clippers og lét það rassskella sig í fyrsta leik.
Lenti svo undir 3-1 og allir byrjuðu að skrifa minningargreinar um Rockets, enda var gjörsamlega átakanlegt að horfa upp á spilamennskuna. Baráttuandinn var á bak og burt og það vottaði varla fyrir karakter.
Við förum svo aldrei ofan af því að það var Clippers-liðið sjálft sem sneri einvíginu en ekki Houston.
Jú, jú, hann Josh Smith átti svo sem sinn þátt í viðsnúningnum þegar hann illaðist og tryggði Rockets sigur í fimmta leiknum, en við skrifuðum þetta á Clippers. Liðið varð bara allt í einu bensínlaust á Miklubrautinni og það gerðist svo skyndilega að það komst ekki einu sinni út í kant.
Það er meiriháttar furðulegt að horfa upp á svona lagað gerast en svona er úrslitakeppnin dásamleg - heldur bara áfram að gefa okkur gjafir sem okkur hefði ekki órað fyrir að fá.