Friday, October 17, 2014
Afturhaldssemi hjá LA Lakers
Byron Scott, fyrrum leikmaður Los Angeles Lakers og núverandi þjálfari liðsins, tilheyrir kynslóð sem gerði ekki mjög mikið af því að taka þriggja stiga skot.
Það er dálítið skondið að það hafi tekið menn hátt í þrjátíu ár að fatta það að undir flestum kringumstæðum, væri þriggja stiga skotið tölfræðilega hagkvæmara skot en skot af millifærinu.
Í dag eru flestir sammála um ágæti þriggja stiga skotsins, ekki síst úr hornunum (þar sem skotið er styttra) og þá eru flestir búnir að átta sig á því að löngu tveggja stiga skotin eru ekkert sérlega sniðug.
Flestir. Ekki Byron Scott.
Scott var ein beittasta skytta meistaraliða Los Angeles Lakers á níunda áratugnum, en hann tók nú ekki nema um tvö þriggja stiga skot að meðaltali í leik yfir ferilinn þrátt fyrir að vera með fínustu nýtingu (37%).
Nú getur vel verið að hann hafi ekki sömu trú á skyttunum sem hann hefur yfir að ráða hjá Lakers í dag og hann hafði á sjálfum sér, en það bara réttlætir ekki þá glórulausu stefnu sem hann hefur nú gefið út.
Hann er nánast búinn að segja mönnum að hætta að taka þriggja stiga skot.
Og árangurinn lætur ekki á sér standa. Hérna eru skotkort úr síðustu tveimur leikjum hjá Lakers.
Enginn þristur úr aðeins átta tilraunum, ekki eitt einasta þriggja stiga skot úr hornunum (hagkvæmasta skotið í NBA deildinni og yfirlýst markmið liða eins og meistara San Antonio Spurs) og níutíuogfimm skot af millifærinu (óhagkvæmasta skotinu í NBA deildinni).
Lakers tapaði umræddum leikjum með 41 og 33 stiga mun. Síðari leiknum á heimavelli gegn liðinu sem flestir reikna með að verði lélegasta liðið í Vesturdeildinni.
Þetta eru bara æfingaleikir og því skipta úrslitin ekki nokkru einasta máli og vissulega voru nokkrar af bestu skyttum Lakers fjarverandi, en það er ekki málið.
Málið snýst um það hvort Byron Scott ætli virkilega að halda þessum skrípaleik áfram.
Ritstjórn NBA Ísland hefur aldrei gefið sig út fyrir að hafa mikið vit á körfubolta og ekki eru þjálfarar í okkar röðum. En andskotinn hafi það, er Byron Scott orðinn geðveikur? Er manninum alvara með þessu?
Við vissum öll að þetta yrði erfiður vetur í gula helmingnum í Los Angeles, en þetta er full mikið af svo góðu. Ætli Byron Scott hafi verið ráðinn til Lakers til að liðið næði að slá Philadelphia við sem lélegasta liðið í NBA í vetur?
Það mætti halda það.
Efnisflokkar:
Byron Scott
,
Gildi og ákvarðanataka
,
Lakers