Thursday, June 12, 2014
Og þá kom Barkley
Charles Barkley er einn af þeim frábæru leikmönnum sem teknir voru í nýliðavalinu fræga í NBA árið 1984. Hans er því auðvitað getið í heimildamyndinni sem gerð var um þetta sögulega nýliðaval og frumsýnd var á dögunum. Barkley var sannarlega ekki lengi að koma sér á kortið ef svo má segja.
Það var Philadelphia sem landaði Barkley með fimmta valrétti í fyrstu umferð, en öfugt við sum af liðunum sem áttu fyrstu valréttina, var Philadelphia með sterkt lið fyrir. Það vann meira að segja titilinn leiktíðina 1982-83. Það voru því engir skussar sem spiluðu með Sixers í þá daga, þarna voru menn eins og Julius Erving, Moses Malone, Andrew Toney og Maurice Cheeks.
Eins og áður sagði var lið Sixers mjög sterkt og vann til að mynda 58 leiki á umræddri leiktíð. Á einhverjum tímapunkti um veturinn gekk samt eitthvað illa hjá liðinu á kafla og eftir nokkur slæm töp, var haldinn liðsfundur til að reyna að finna lausn á vandanum eins og gengur og gerist.
Þar rétti nýliðinn Charles Barkley upp hönd, bað um orðið og sagðist vera búinn að finna lausnina - vandamál liðsins yrðu úr sögunni ef hann yrði gerður að fyrsta kosti í sókninni.
Svona hafði Barkley endalausa trú á sjálfum sér og gaf skít í allt og alla sem efuðust um hæfileika hans og holdafar. Barkley er innan við tveir metrar á hæð, en forráðamenn félaganna sem áttu fyrstu valréttina í nýliðavalinu voru á báðum áttum með það hvort þeir ættu að þora að taka svona lágvaxinn 140+ kílóa brjálæðing sem var greinilega ekki í nógu góðu formi.
Þeir gátu auðvitað ekki vitað að Barkley yrði þetta fyrirbæri sem hann var í NBA deildinni á sínum tíma. Hann var sannkölluð goðsögn og vakti stundum meiri athygli fyrir yfirlýsingar sínar og uppátæki en frábæran leik inni á vellinum.
Spilamennska hans var þó alveg einstök og Barkley er líklega eina fyrirbærið sinnar tegundar í sögu NBA deildarinnar.Spáðu til dæmis í tölfræðina hjá manninum...
Hann byrjaði rólega og skoraði aðeins 14 stig að meðaltali í leik á nýliðaárinu sínu, en eftir það var fjandinn laus.
Árið eftir fór hann í 20 stig og 13 fráköst og á þriðja árinu - þegar hann var 23 ára gamall - skoraði hann 23 stig í leik, hirti tæp 15 fráköst (best í deildinni), gaf fimm stoðsendingar og var með 59,4% skotnýtingu. Árið eftir var hann kominn í 28 stig að meðaltali í leik í deildakeppninni.
Ekki minnkuðu lætin í honum í úrslitakeppninni og okkur langar til gamans að segja ykkur frá tölunum hans í úrslitakeppninni þegar hann var á öðru árinu sínu í deildinni (´85-´86) og orðinn lykilmaður í liði Sixers.
Þá skoraði hann 25 stig, hirti 15,8 fráköst, gaf 5,6 stoðsendingar, stal meira en tveimur boltum og hitti úr 58% skota sinna í tólf leikjum, en þá tapaði Philadelphia fyrir Milwaukee í oddaleik í annari umferðinni.
NBA boltinn er búinn að breytast gríðarlega mikið á þessum þrjátíu árum þó ekki væri nema bara fyrir þær umtalsverðu breytingar sem gerðar hafa verið á leikreglunum.
Þó er enginn vafi á því að ef Charles Barkley væri að koma inn í deildina í dag, mundi hann valda alveg sama usla og hann gerði fyrir 30 árum. Það er ólíklegt að við eigum eftir að sjá annað eins fyrirbæri og Barkley spila í NBA á ný, tæplega í þessu lífi. Þessi stubbur var með hærra frákastameðaltal á ferlinum en Shaquille O´Neal, David Robinson, Patrick Ewing og Hakeem Olajuwon. Heldurðu að það sé alveg eðlilegt? Gaurinn er aðeins stærri en mamma þín!
Takið eftir því að við notum oft orðið fyrirbæri til að lýsa Charles Barkley. Það er af því það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að lítill og feitur strákur vaði inn í NBA deildina á skítugum skónum, leiði hana í fráköstum, skori eins og vileysingur og sé að lokum kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar um áratug síðar.
Nei, það er sko enginn eins og Barkley. Mikið andskoti var hann skemmtilegur.
Efnisflokkar:
Charles Barkley
,
Fráköst
,
Fyrirbæri
,
Goðsagnir
,
Hrikalegheit
,
NBA 101
,
Nýliðar
,
Nýliðavalið
,
Sixers