LeBron James og Dwyane Wade voru ekki á því að niður til Miami undir 0-2 og skoruðu síðustu 20+ stig Miami í fjórða leikhlutanum. Stórleikur stjarnanna í lokin var þó ekki það sem skóp 87-83 útisigur Miami. Það var stórbættur varnarleikurinn sem gerði það.

Chris Bosh verður alltaf eins og vændiskona í kirkju þegar hann spilar við Indiana. Hann hættir að geta gefið Miami það sem hann gerir best þegar hann þarf að eyða orku í að slást við þá Hibbert og West í teignum.
Bosh er með 9 stig, 4 fráköst, 38% skotnýtingu og er 1 af 9 í þristum í fyrstu tveimur leikjunum gegn Indiana. Það eru ekki fallegar tölur fyrir mann sem er með meira en tvo milljarða króna í árslaun, en ef vel er að gáð, þurfa þessar döpur skýrslur ekki að koma á óvart.
Bosh er nefnilega nánast alveg á pari við frammistöðu sína í þessu sama einvígi í fyrra, þar sem hann skilaði 11 stigum, 4 fráköstum og 38% skotnýtingu í leikjunum sjö gegn Indiana. Þetta er með ólíkindum og ein af ástæðunum fyrir því að Indiana kann svona vel við að mæta Miami. Þriðja hjól liðsins dettur af um leið og flautað er til leiks.

Fáir hafa trú á því að Indiana geti unnið þetta einvígi þó liðið hafi spilað svona vel í fyrstu tveimur leikjunum. Það má samt ekki taka það af leikmönnum Miami að þeir sýndu gríðarlega seiglu þegar þeir kláruðu leikinn í gær og jöfnuðu metin í einvíginu. Það getur vel verið að þeir séu sigurstranglegri, en það hefði verið bölvanlegt fyrir þá að lenda 0-2 undir.
Í staðinn eru LeBron og félagar strax búnir að stela heimavallarréttinum fræga, sem Indiana púlaði fyrir í allan vetur. Fá hugtök eru afstæðari en hugtakið heimavallarréttur. Það sýndi sig í lokaúrslitaeinvígi San Antonio og Miami í fyrra að heimavöllurinn skipti gríðarlegu máli.
Á hinn bóginn er hægt að halda því fram að þegar lið eins og Miami eiga í hlut, skipti hann engu fjandans máli - betra liðið vinni bara einvígið hvort sem það er með heimavöll eða ekki.
Heimavöllur - sveimavöllur?
Við skulum sjá til í lokaúrslitunum.
=> P.s. - næsti leikur í einvíginu verður í Miami á laugardagskvöldið klukkan 00:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.