Thursday, February 27, 2014
Þýðingarmikill sigur hjá Stjörnumönnum
Spennan í Domino´s deild karla er að verða óbærileg. Í kvöld fór fram sex stiga leikur í Ásgarði, þar sem heimamenn í Stjörnunni unnu nauman sigur á Snæfelli 93-88 í bráðfjörugum leik.
Sigurinn lyfti Garðbæingum upp fyrir Hólmara á innbyrðisviðureignum, því liðin eru jöfn að stigum í deildinni - Stjarnan í sjöunda sæti en Snæfell í því áttunda. Þetta getur þó átt eftir að breytast fljótlega, því ÍR ingar eru skammt undan og eiga leik inni. ÍR-ingarnir verða þó að komast upp fyrir bæði Stjörnuna og Snæfell, sem bæði hafa betri stöðu í innbyrðisviðureignum í vetur.
Haukarnir gerðu sér lítið fyrir og sóttu sigur í Keflavík í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug á bak við þrennu frá Emil okkar Barja. Þeir eru ekkert að grínast þessir Hafnfirðingar og eru sannarlega að setja fjör í þennan lokasprett í deildinni eins og ÍR-ingarnir.
Það virðist vera smá deyfð yfir Keflvíkingum þessa dagana og heimildir okkar herma að andinn sé ekki með besta móti í herbúðum þeirra. Það er samt nægur tími fyrir Keflvíkingana til að snúa bökum saman og koma flottir inn í úrslitakeppnina.
Það er nánast sama hvert er litið, það er ljóst að það verður extra pressa á liðunum með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni í vor, af því liðin í neðri sætunum eru mörg hver mjög óárennileg þessa dagana.
Hey, nokkrar myndir úr Ásgarðinum í kvöld =>
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Snæfell
,
Stjarnan