Meistarar Miami ákváðu í nótt að minna okkur á að þeir ætla að verða með í baráttunni um titilinn eins og venjulega, þegar þeir drulluðu yfir Oklahoma á útivelli, 103-81.
Skondið hvernig þessi leikur var andstæða fyrri viðureignar liðanna 29. janúar, þar sem Oklahoma vann auðveldan sigur í Miami þrátt fyrir að vera án Russell Westbrook.
Það eru helvíti litlar líkur á því að þú vinnir Miami þegar þrennan þeirra skorar yfir 80 stig og hittir úr tveimur af hverjum þremur skotum sínum. LeBron James spilar alltaf vel, en hvað ætlarðu að gera ef Chris Bosh skilar 24/8 og Dwyane Wade hleður í 24/7/10?
Akkúrat ekkert. Þú vinnur ekkert svoleiðis.
Gaman að sjá LeBron James stimpla sig svona skemmtilega inn í MVP umræðuna með frammistöðu sinni í síðustu leikjum.
Þessi sigur hans á Kevin Durant bæði í leiknum og á tölfræðisviðinu færir honum nokkur stig í MVP baráttunni.
James er með 30/9/8/3 meðaltal í febrúar, þar sem Miami hefur bara tapað einum leik - þegar það sofnaði í Utah á dögunum.
Já, hann LeBron er ekkert búinn að segja sitt síðasta. Hann segir að það skipti hann ekki miklu máli, en það er ekki rétt.
James er búinn að hljóta þessa nafnbót fjórum sinnum nú þegar og ef hann tekur þetta einu sinni enn, verður hann aðeins einn af fjórum leikmönnum í sögunni til að vera kjörinn MVP fimm sinnum.
Það er Kareem Abdul-Jabbar sem á metið í þessu, en hann var sex sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður ársins á sínum tíma (1971, '72, '74, '76, '77, '80).
Þeir Michael Jordan (1988, '91, '92, '96, '98) og Bill Russell (1988, '91, '92, '96, '98) hirtu þetta fimm sinnum, LeBron (2009, ´10, ´12, ´13) og Wilt Chamberlain (1960, '66, '67, '68) fjórum sinnum og næst koma þeir Magic Johnson (1987, '88, '90), Larry Bird (1984, ´85 og ´86) og Moses Malone (1979, '82, '83).
Það er ljóst að James á möguleika á því að komast í sögubækurnar í þessum efnum, því hann er ekki nema 29 ára gamall.
Ef við gefum okkur að hann haldi áfram að vera svona hrikalegur næstu árin, er alls ekki ólíklegt að hann komist upp að hlið Kareem - eða jafnvel einn á toppinn. Ekki gleyma því að Michael Jordan var t.d. tvisvar valinn MVP eftir þrítugt (32 og 34 ára), svo þetta er ekkert útilokað.
Aðdáendum Kevin Durant er þrátt fyrir þetta alveg óhætt að anda rólega. Hann á eftir að lyfta þessari styttu lágmark 1-2 á ferlinum. Hver ætti svo sem að hirða hana af honum og James á næstu árum?