Monday, February 3, 2014

Grindavík og ÍR í Höllina


"Allt er þá ellefu er..." eða eitthvað þannig hugsa Grindvíkingar þegar þeir fara í Laugardalshöllina enn einu sinni til að spila úrslitaleik í bikarnum. 

Það var gaman að sjá þá Ómar Sævars og Sigurð Þorsteinsson rífa Þórsarana í sig í teignum. Það var eiginlega með ólíkindum hvað Þórsliðið spilaði lélega vörn og lét útfrákasta sig í drasl. Þú ferð ekkert í höllina með því að spila svona á útivelli. 

Og sérstaklega ekki ef Nemanja Sovic er varla þátttakandi í leiknum. Lið eins og Þór má ekki við því að 20 stiga maður eins og Sovic eigi afleitan dag í svona leik. 

Í 95% tilvika skilar hann þér flottum sóknarleik og fullt af frákösum, en hann var bara ekki með í kvöld. Shit happens, við eigum öll okkar off daga. Ekki eins og við drullum ekki á okkur tvisvar í viku.

Það verður gaman að sjá ÍR eiga við Grindavík í úrslitaleiknum, hvenær sem hann verður nú. Við vitum að Breiðhyltingar hafa víst verið að stríða Grindvíkingum eitthvað undanfarið, en það verður allt annað uppi á teningnum í úrslitaleik bikarsins.

Grindavík verður bikarmeistari ef liðið nær að spila almennilega vörn og skítur ekki á sig í sóknarleiknum. Það kemur alveg fyrir að Grindvíkingar drulli á sig í sóknarleiknum og það hefur gjarnan verið að gerast í bikarúrslitaleikjum, svo við skulum ekkert halda niðri  í okkur andanum. 

Óháð öllu, væri sannarlega gaman ef ÍR-ingum tækist að ná í bikar. Ekki eins og það gerist á hverjum degi, þó það séu nú reyndar engir áratugir síðan liðið varð síðast bikarmeistari.