Saturday, February 8, 2014

Þegar Damian Lillard ákvað að vera rólegur bara


Damian Lillard bauð upp á 38 stig og 11 stoðsendingar í nótt þegar Portland-liðið hans þurfti að þola súrt tap í Indiana 118-113 eftir framlengdan háspennuleik.  Portland er búið að tapa fjórum af síðustu sex leikjum sínum og er aðeins að hiksta.

Það munaði reyndar ekki miklu að Lillard næði að skjóta Blazers til sigurs í Indiana í nótt, eins og hann er búinn að gera glettilega oft í vetur. Þetta minnti okkur á leikinn hans í Sacramento fyrir mánuði síðan, þegar hann skoraði 26 stig í 4. leikhluta í tapi fyrir Kings.

Portland skeit aðeins í rúmið í þessum leik og segja má að hann hafi tapast í þriðja leikhluta, þegar liðið skoraði aðeins 13 stig gegn 25 stigum heimamanna. Í raun og veru gefa lokatölurnar ekki rétta mynd af leiknum, því Sacramento var með örugga forystu lengst af í siðari hálfleiknum. Það kom þó ekki í veg fyrir að Lillard gæfi heimamönnum nett hjartaáfall í blálokin, þegar hann ákvað bókstaflega að kasta handsprengju inn á völlinn.

Lillard skoraði 14 stig á 49 sekúndum og var rétt búinn að stela þessu, en ef það hefði tekist, hefðu leikmenn Sacramento bara getað pakkað þessu tímabili ofan í tösku og farið til Benidorm bara. Hér fyrir neðan sérðu hvernig þetta gerðist skref fyrir skref (smelltu á myndina ef þú þarft að stækka hana, álfurinn þinn!):



Reyndar væri þetta Sacramento-lið auðvitað alltaf betur geymt á Benidorm en í NBA deildinni, af því það getur EKKERT. Vissulega átti Sacramento smá þátt í því að gera ofangreindan leik áhugaverðan í lokin, en við megum samt ekki taka neitt af Damian Lillard, sem er alltaf að sýna betur og betur að hann er alvöru körfuboltamaður.