Tuesday, December 10, 2013

Mark Aguirre á afmæli í dag



Skorarinn skemmtilegi Mark Aguirre á afmæli í dag. Framherjinn lék 13 ár í deildinni og átti sín bestu ár með Dallas, en fleiri muna kannski eftir honum með meistaraliðum Detroit Pistons árin 1989 og 1990.

Aguirre var sem áður segir frábær skorari og margir vilja meina að það sé skandall að hann sé ekki búinn að fá sæti í Heiðurshöllinni. Hann hefur reyndar ekki einu sinni fengið treyjuna sína hengda upp í Dallas, þar sem hann skoraði að jafnaði um 25 stig í leik á rúmum sjö árum.

Fyrir tuttugu árum síðan var Aguirre að skora 29,5 stig að meðaltali í leik og aðeins Adrian Dantley hjá Utah var með hærra meðaltal (30,5).

Það er nokkuð skondið að skoða listann yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar þarna fyrir 20 árum. Þar eru tæknilega níu af tíu stigahæstu mönnum deildarinnar minni framherjar (Ísmaðurinn spilaði bæði bakvörð og framherja).

Terry Cummings spilaði stöðu kraftframherja, en það er merkilegt að sjá ekki einn einasta bakvörð þarna á listanum.

Sagan segir að það hafi verið Aguirre sem lagði grunninn að kaupum Mark Cuban á Dallas Mavericks um aldamótin með því að koma á fundi með honum og Ross Perot, þáverandi eiganda félagsins.

Hérna fyrir neðan má sjá Aguirre sækja að Charles Barkley í Stjörnuleiknum árið 1988. Þetta var þriðji og síðasti Stjörnuleikur hans á ferlinum (´84, ´87).

Til hamingju með daginn, Mark.