Wednesday, December 18, 2013

Damian Lillard er sama hvað þér finnst














Hvað er svalara en að tryggja liðinu sínu sigur á útivelli með flautukörfu?



Nú auðvitað að tryggja liðinu sínu annan útisigurinn í röð með flautukörfu!



Damian Lillard er ekki umtalaðasti leikstjórnandinn í þessu dæmalausa miðjubakvarðagóðæri sem nú er í NBA deildinni. Hann er aldrei nefndur til sögunnar þegar talað er um bestu leikstjórnendur deildarinnar.

Menn ættu kannski að byrja að endurskoða það.

Lillard var besti nýliði NBA deildarinnar á síðustu leiktíð og er enn betri í ár.

Skotnýtingin hans mætti vera betri og hann á enn nokkuð í land í varnarleiknum (eins og 95% annars árs manna), en þar fyrir utan erum við að tala um algjöran töffara eins og Oakland-leikstjórnenda er siður.

Pilturinn skorar 20 stig að meðaltali í leik og gefur um sex stoðsendingar. Hann er orðin 40% þriggja stiga skytta og er ein besta vítaskytta deildarinnar (92%), sem er ekki lítið mikilvægt.

Það flottasta við ferilskrá drengsins er þó án efa árangur liðsins sem hann stýrir.

Portland er með besta árangur allra liða í NBA deildinni í dag og það er ekki síst að þakka þessum skemmtilega bakverði, sem fróðlegt verður að fylgjast með í framtíðinni.