Saturday, December 14, 2013

Það er kaldur vetur í New York


Hrakfarir New York Knicks halda bara áfram. Liðið tapaði fyrir Boston Celtics í nótt og er því með sex sigra og sextán töp. Það er næstum því spegilmynd árangurs liðsins á síðustu leiktíð. Þegar Mike Woodson tók við liðinu á þarsíðustu leiktíð, kláraði það 18-6 á lokasprettinum í deildakeppninni. Fylgdi því svo eftir með því að byrja 18-6 í fyrrahaust, þegar liðið var sjóðandi heitt eins og þið munið.

Við áttum ekki orð yfir því hvað New York var að vinna marga leiki á síðustu leiktíð, en við erum ekki eins hissa á óförum liðsins í vetur. Okkur þykir þetta New York lið nefnilega miklu meira 6-16 heldur en 18-6, sérstaklega ef Tyson Chandler er ekki með.

Carmelo Anthony er Carmelo Anthony. Mikill skorari sem nær ekki að gera menn í kring um sig betri. Hann hefur tekið dálítið stökk í fráköstum í vetur, en skárra væri það nú í fjarveru Chandler og spilandi við hliðina á einum lélegasta frákastara í sögu NBA - Andreu Bargnani.

Ferill J.R. Smith er búinn að vera eins og vatnsrennibraut síðan hann braut á Jason Terry í úrslitakeppninni í vor.

Hann er gjörsamlega búinn að missa allt sjálfstraust og er að skjóta 34% innan og utan línu og er að verða hættur að koma sér á vítalínuna. Það munar um minna.

Margir hafa reynt að greina það af hverju munurinn er svona gríðarlegur á Knicks núna og í fyrra. Meiðsli Tyson Chandler hafa mikið að segja í þessu, en liðið náði merkilegt nokk að halda vatni án hans á kafla á síðustu leiktíð líka.

Það eina sem okkur kemur í hug er að það eru færri leiðtogar í liði New York í vetur. Núna er enginn Jason Kidd, enginn Marcus Camby og enginn Rasheed Wallace.

Kidd var sá eini sem spilaði eitthvað af viti, en hann gegndi leiðtogahlutverki hjá hverju einasta liði sem hann spilaði með á ferlinum. Við skoðuðum tölurnar og það er hvergi að marka einhvern svakalegan mun á tölfræðinni núna og í fyrra, þó hún sé auðvitað eitthvað slakari núna í öllum þessum tapleikjum.

Við ætlum ekki að reyna að laga vandræði New York Knicks með þessum pistli, en við mælum samt með því að félagið stokki algjörlega upp hjá sér og rói á ný mið. Þetta er ekki að ganga.

Carmelo Anthony verður aldrei meistari sem aðalstjarna liðs í NBA deildinni, Tyson Chandler á ekki nóg eftir, Amare Stoudemire er fyrir og félagið hefur verið rekið eins og íslenskt fyrirtæki síðustu ár. Það er búið að veðsetja allt (valrétti) í topp í nánustu framtíð og sveigjanleikinn er enginn.

Það er ljótt að afgreiða lið svona með einu pennastriki, en við gerum það til að lina þjáningar stuðningsmanna Knicks, sem virðast alltaf halda að liðið þeirra sé hársbreidd frá því að verða meistari.

Kannski gaf það Knicks falsvonir á síðustu leiktíð að vinna seríu í úrslitakeppni. Liðið gæti þess vegna endurtekið það í ár í einni verstu Austurdeild í sögunni. Þegar það svo lendir í Miami eða Indiana - verður dæmið bara blóðbað sem er bannað innan 18 ára.

Glöggur lesandi á bandi Knicks (@KristjanDadi) benti réttilega á það á Twitter að væri kominn tími tli að hrista upp í þessu og reyna að fá eitthvað fyrir Carmelo Anthony á meðan hlutabréfin í honum eru í toppi.

Þau verða ekki hærri eftir þetta og það er áhugavert að hugsa til þess hvað New York gæti fengið fyrir hann. Spurning hvort liðið gæti komið sér inn í nýliðavalið í sumar.

Við finnum til með stuðningsmönnum Knicks, þó sumir þeirra séu í álíka góðri snertingu við raunveruleikann og stuðningsmenn Liverpool. Við viðurkennum það samt, að við glottum í hvert skipti sem New York drullar á sig - alveg eins og þegar Liverpool og enska landsliðið drulla á sig. Það er bara eitthvað svo fyndið.

En við óskum samt stuðningsmönnum Knicks á íslandi alls hins besta. Enginn á skilið að þurfa að halda með öðru eins geðveikrahæli og Knicks hefur verið undanfarin ár. Ekki voruð það þið sem ákváðuð að gera 100+ milljón dollara samning við Amare Stoudemire.