Monday, November 18, 2013

Af Bill Cartwright og hannyrðum prímata


Svo virðist sem forráðamenn New York Knicks hafi gert tilraunir með að láta órangútana í Miðgarðsdýragarðinum hanna og sauma treyjur liðsins á árunum 1979 til 1983 - a.m.k. útibúninginn, sem Bill Cartwright klæðist hér með stolti.

Með fullri virðingu fyrir aumingja prímötunum - sem vafalítið hafa verið undir áhrifum lyfja við saumaskapinn (ketamín kemur upp í hugann, mögulega Græðir 6 áburður) - verður að segjast að hér eru á ferðinni einhver ljótasti fatnaður veraldarsögunnar.

Kannski fór vel á því að Cartwright gamli klæddi sig beint í þennan óskapnað þegar hann kom inn í deildina sem nýliði árið 1979.

Hann er nú ekkert sérstaklega fallegur maður og krampakenndur skotstíllinn hans hjálpaði lítið til í hinu ljóðræna samhengi. Stuttar stuttbuxur og allt eins og það á að vera.

Þetta þýðir reyndar ekki að karlinn hafi verið að spila eitthvað illa. Hann byrjaði á toppnum tölfræðilega ef svo má segja og hlóð í 21/9 á nýliðaárinu sínu

Cartwright var í níu ár hjá New York og var svo skipt yfir til Chicago fyrir Charles Oakley árið 1988, þar sem hann reyndist lokabitinn í meistarapúslið hans Phil Jackson hjá Bulls árið 1991. Hann var harður í horn að taka í vörninni, miðlaði reynslu sinni vel til liðsfélaganna - og var eini maðurinnn sem komst upp með að tala umbúðalaust við Michael Jordan.